Vestanstrengur sunnudagsins

Ef marka má spár verður mikill vestanvindstrengur yfir við landið á sunnudag (25. janúar). Hvað úr verður sýnir sig - en við lítum á tvö kort okkur til fróðleiks. Það fyrra er spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um vind í 100 metra hæð (yfir líkanlandslagi) og gildir kl.15 á sunnudag.

w-blogg250115a

Litakvarðinn batnar sé myndin stækkuð - en litirnir sýna vindhraða. Rauðleitu litirnir byrja við 24 m/s. Örvar sýna vindstefnu. Vestanillviðrið er víðáttumikið - en er kannski tvískipt - annars vegar komið sunnan fyrir Grænland - en hins vegar ofan af Grænlandsjökli. 

Í Grænlandssundi er svo norðaustanillviðri - síst minna, og er við það að ná inn á norðanverða Vestfirði. Á milli er hægviðri - það hreyfist suður á bóginn eftir því sem á líður og vestanstormurinn hörfar. 

Báðir vindstrengirnir eiga hámark í neðri helmingi veðrahvolfs. Það sést vel á myndinni hér að neðan en hún sýnir vind (litir og vindörvar) í sniði sem liggur um 23°V - við vesturströnd Íslands. Sniðið liggur rétt vestan Reykjaness, en sker bæði Snæfellsnes og Vestfirði. Það nær frá jörð upp í 250 hPa hæð (um 10 km). 

w-blogg250115b

Syðsti hluti sniðsins er til vinstri á myndinni - Snæfellsnes sést sem grár hóll nærri miðri mynd og Vestfirðir sem tvær þústur lengra til hægri. Litirnir sýna vindhraða. Vel kemur í ljós hvernig strengurinn stingur sér til norðurs - nær lengst norður í um 900 hPa hæð - rétt í fjallahæð Vestfjarða, en almennt er vindurinn mestur í um 850 hPa. þar fyrir ofan dregur úr vindi þar til hann vex aftur við veðrahvörf - efst á myndinni. 

Veðrahvörfin þekkjum við af þéttum jafnmættishitalínum (heildregnar), þau ná hér niður í um 400 hPa (um 7 km hæð). Það er eftirtektarvert að lengst til vinstri á myndinni er mættishitinn nær óbreyttur upp fyrir 800 hPa - það þýðir að illviðrið hefur hrært vel í loftinu - það er nánast eins vel blandað og hugsast getur.

Rétt sést í grunnan norðaustanstrenginn lengst til hægri. Vindhámark í honum nær varla fjallahæð.

Þegar veður er með þessu lagi fylgjast ferðalangar vel með spám Veðurstofunnar - á vef hennar má sjá kort sem sýna hreyfingar vindstrengja vel frá klukkustund til klukkustundar. Sama gera kort á veðurvef belgings.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 5
  • Sl. sólarhring: 927
  • Sl. viku: 2327
  • Frá upphafi: 2413761

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 2146
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband