Hraðfara lægðir - fallegar bylgjur

Nú fer hver lægðin á fætur annarri hjá landinu (eins og svosem oftast) - en einhvern veginn aldrei alveg eins. Við lítum á ástandið síðdegis á sunnudag.

w-blogg240114a

Hefðbundið kort evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir sjávarmálsþrýsting (heildregnar línur), úrkomu (litafletir) og hita í 850 hPa-fletinum (strikalínur) kl. 18 á sunnudag. Laugardagslægðin er komin norður um Jan Mayen eftir að hafa valdið hér bæði landsynningi og hláku og síðan snúningi í útsuður með éljum og kólnandi. Þessi lægð fór - eins og margar aðrar - aðeins fram úr sér og skilur eftir lægðardrag á Grænlandshafi. Líklega verður vestanáttin nokkuð snörp um tíma vestanlands og sums staðar fyrir norðan. Við látum þó Veðurstofuna sjá um að halda utan um öll þau smáatriði. 

Næsta lægð er við Nýfundnaland og hreyfist hratt til norðausturs í stefnu til okkar. Það vekur athygli að hún er orðin býsna djúp - svo djúp að lítil von er til þess að hún haldi þessu fína formi allt til okkar - en hún kemur samt. Hægt væri að froðast lengi um innanmein þessarar lægðar - en ritstjórinn lætur það ekki eftir sér að þessu sinni - og þakkið fyrir það.  

Bylgjurnar í háloftunum sem fylgja þessum lægðum eru fallegar - samkvæmt fegurðarskyni höfðingja hungurdiska - væntanlega ekki allir sammála því. En lítum á - 

w-blogg240114b

Hér er útgáfa bandarísku veðurstofunnar af hæð 500 hPa-flatarins og þykktinni á þessum sama tíma - kl. 18 síðdegis á sunnudag. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - væri allt í jafnvægi ættu jafnþykktar- og jafnhæðarlínur að falla alveg saman - en það er sjaldan þannig. Nokkuð auðvelt er að sjá lægðir við jörð á korti sem þessu - þær sitja þar sem hlýindi ganga lengst inn á móti lágum þrýstifleti. 

Við sjáum vel hvernig hlýindi fyrri bylgjunnar eru komin fram úr henni - smáhringur af hlýindum situr reyndar eftir - einmitt þar sem er miðja lægðardragsins vestan við land. Grænland stíflar nær alveg framrás kuldapollsins Stóra-Bola vestur af - en smálæna nær þó að gusast yfir og teygir fingur í átt til okkar. 

Síðari lægðin er hins vegar enn alveg í öfugum fasa - þar sem hæðin er minnst í lægðardraginu er þykktin jafnframt mest. Til að lægðin geti dýpkað umfram það sem orðið er þarf annað tveggja: Hlýrra loft þarf að komast innar í bylgjuna - sem er erfitt að sjá að gerist, nú eða lægri hæð að berast inn í bylgjuna úr vestri. Það er líka erfitt að sjá að það sé að gerast - og lægðin á reyndar að grynnast um 25 hPa á leið til Íslands. 

Ekki er þar með sagt að hún verði veðurlítil - fleira ræður vindi og veðri en dýptin ein og sér - munum það. 

Við stelumst til að líta á eitt kort til viðbótar (úr kortagarðinum). Þar fer þrýstihæð veðrahvarfanna -. Þaulsetnir lesendur muna að hafa sér slíkt áður. Sjávarmálskortið að ofan sýnir ástand við sjávarmál - eins og nafnið bendir til - 500 hPa kortið er í miðju veðrahvolfi (stundum ofan við miðju) - en það síðasta sýnir stöðuna ofan við.

w-blogg240114c

Við kennum hér sömu kerfin - tvær fallegar bláar bylgjur (há veðrahvörf = hlýtt loft neðan við). Á milli þeirra er kaldara loft (lág veðrahvörf). Við sjáum dökkbrúnan streng lágra veðrahvarfa liggja frá fjöllum Suðaustur-Grænlands austur til okkar - þarna undir er útsynningurinn hvað skæðastur. Það er merkilegt, en fallið niður jökulinn dregur veðrahvörfin niður með sér -  

Það kemur e.t.v. á óvart hversu langt kerfið við Nýfundnaland er komið - klósiga- og blikuskjöldur þess er komið alveg að Hvarfi á Grænlandi og ryðst þar til norðausturs með látum - já, hreyfist til norðausturs en vindáttin er samt norðvestlæg - liggur hér um það bil samsíða brún bláa litaarins. Þarna er vindur í 300 hPa hæð 70 til 80 m/s. Grænlandsfjöll trufla vindinn og þar myndast miklar fjallabylgjur sem brotna - við sjáum merki brotanna í ljósbláum, óreglulegum klessum. Trúlega verður þarna holótt á vegum háloftanna - bæði vegna brots fjallabylgnanna - en líka vegna framrásar veðrahvarfanna sem þarna liggja nærri lóðrétt - þar sem þau ryðjast til norðausturs. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 8
  • Sl. sólarhring: 875
  • Sl. viku: 2330
  • Frá upphafi: 2413764

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 2149
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband