Heldur hlýrra framundan?

Hiti það sem af er mánuði sýnist vera um -1,5 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára í byggðum landsins (ekki nákvæm tala). Það hefur auðvitað oft verið kaldara þessa janúardaga, t.d. í janúar 2007 þegar hitinn var meir en einu stigi neðar en nú. Þá endaði janúar í -1,5 stigum undir meðallagi sama tíma 2005 til 2014 í Reykjavík. 

Ekki er útlit fyrir nein sérstök hlýindi út mánuðinn, en samt eru spár heldur hlýlegri en verið hefur. Hér lítum við á runu evrópureiknimiðstöðvarinnar frá hádegi í dag (mánudag 19. janúar). Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins, meðalþykkt og þykktarvik 19. til 29. janúar (10 daga).

w-blogg200115a

Heildregnu línurnar sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins. Þær strikuðu meðalþykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Þykktarvikin eru síðan sýnd í lit. Bláir litir ráða svæðum þar sem þykkt er undir meðallaginu 1981 til 2010, en gulir og brúnir þar sem hlýrra er en að meðaltali. 

Hér hefur orðið mikil breyting frá síðustu 10 dögum, en þá var þykktin 70 til 80 metrum undir meðallagi hér á landi eða sem svarar 3,5 til 4 stigum. Næstu tíu daga á þykktin að vera við meðallag sunnanlands, en 20 til 30 metra (1 til 1,5 stig) ofan þess fyrir norðan. 

Kannski meðalhiti janúarmánaðar 2015 verði ekki mjög lágur eftir allt saman? 

Á myndinni má sjá hin afbrigðilegu hlýindi við Norðaustur-Grænland. Þau hafa verið viðvarandi mestallan mánuðinn - en teygja sig nú í átt til Íslands. Aftur á móti er Kanadakuldapollurinn Stóri-Boli óvenjunærri Grænlandi, þar á þykktin að vera 180 metra undir meðallagi (-9 stig). Hér sést óvenjuvel hvernig Grænlandsjökull stíflar kuldann - hann kemst ekki yfir jökulinn (að meðaltali). Miklum kulda er líka spáð við Miðjarðarhaf - ætli úrkoma fylgi þá ekki líka?

En á kortinu má einnig sjá mikla lægðarbeygju við Ísland - skarpt lægðardrag. Ætli það bendi ekki til áframhaldandi umhleypinga? Alla vega er slatti af lægðum væntanlegur á okkar slóðir - sé að marka spána. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1095
  • Sl. sólarhring: 1112
  • Sl. viku: 3485
  • Frá upphafi: 2426517

Annað

  • Innlit í dag: 980
  • Innlit sl. viku: 3136
  • Gestir í dag: 948
  • IP-tölur í dag: 878

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband