Hvenær er kaldast á vetrum? 2

Við höldum áfram að spyrja um kaldasta dag vetrarins, en höfum í huga að við erum í leik en ekki í djúpum vísindalegum hugleiðingum. Mest rými fer í lágmarkshitann í Reykjavík - við eigum upplýsingar um kalda daga í Reykjavík aftur til 1871 til 1872 - en að vísu vantar nokkur ár í þann lista snemma á 20. öld, en við náum 140 vetrum.

Spurningin er þá hversu miklar líkur eru almennt á því að kaldasti dagurinn sé þegar liðinn 15. janúar. Svarið er 35 prósent fyrir veturna 140, og reyndar það sama sé aðeins miðað við vetur frá 1950 til okkar daga. 

Hér verður að taka fram - að þessi almenna tala segir ekkert til um líkurnar nú [15. janúar] - eftir að veturinn er byrjaður. Lágmarkið í Reykjavík fram til þessa í vetur er -9,1. Vetrarlágmarkið hefur aðeins einu sinni verið hærra en þetta. Það var 2013 þegar lægsta lágmark vetrarins alls (2012 til 2013) var ekki nema -8,4 stig. Mjög litlar almennar líkur eru á því að -9,1 stig fái að sitja óáreitt til vors (þó aldrei að vita). 

Í framhaldi af þessu koma fleiri spurningar - hversu snemma vetrar eða seint hefur vetrarlágmarkið orðið á þessum 140 árum?

Haustið 1899 (vetur 1899 til 1900) mældist -15,8 stiga frost í Reykjavík þann 5. nóvember. Þetta er mjög ótrúlegt og þarfnast nánari skoðunar - en skráin segir þetta. Veturinn 1921 til 1922 mældist mesta frostið -11,8 stig, það var 7. nóvember. Alls á nóvember 7 vetrarlágmörk á árunum 140. 

Á hinum endanum: Þar situr 17. apríl 1967. Þá mældist mesta frost vetrarins 1966 til 1967 í Reykjavík, -11,7 stig og 14. apríl 1951 mældist 12. stiga frost, það mesta veturinn 1950 til 1951 - lengi von á einum. Sex apríldagar af 140 hafa verið þeir köldustu á vetrinum - og einn til viðbótar jafnkaldur og kaldast hafði verið fram að því. 

Í morgunhitaskrá Stykkishólms sem nær aftur til 1845 til 1846 eru aðeins 23 prósent vetrarlágmarka komin þann 16. janúar. Svalur síðvetur þar. Kaldasti morgun vetrarins 1921 til 1922 var 7. nóvember (sami dagur og nefndur var í Reykjavík), hitinn kl. 9 var -9,9 stig. Það eru 8 dagar í nóvember 165 vetra sem náðu lægstu tölu í Stykkishólmi.

Á hinum endanum er 25. apríl 1932, það var kaldasti morgunn vetrarins 1931 til 1932 í Hólminum, hitinn kl. 9 mældist -8,2 stig - enda hafði veturinn verið fádæma hlýr. Þá hafa menn haldið að hlýindaskeiðinu væri þar með lokið (en það stóð í um 30 ár til viðbótar). 

Landslágmörk (í byggð) eigum við samfellt á lager frá vetrinum 1949 til 1950. Hér bregður svo við að á þeim tíma mældist lægsti hiti vetrarins í 51 prósent tilvika fyrir 16. janúar. Eins og fram kom að ofan eru eru tilvikin 35 prósent í Reykjavík - eins og í allri 140 ára röðinni. Við gætum másað yfir þessu misræmi - en sleppum því. 

Að likum eru hér tvær litlar töflur. Sú fyrri sýnir hversu oft einstakir mánuðir eiga lægsta lágmarkshita vetrarins í Reykjavík - en sú síðari hvernig talningin kemur út fyrir allt árið - dreifingin er ekki sú sama.

Fjöldi vetrarlágmarka í Reykjavík

v-lágmörkmán
7 nóvember
24 desember
42 janúar
35 febrúar
26 mars
6 apríl

Fjöldi árslágmarka í Reykjavík

á-lágmörk mán
46 janúar
29 febrúar
26 mars
3 apríl 
5 nóvember
31 desember

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Gaman að þessu og magnað þegar kaldasti mánuður vetrarins er í apríl. Hissa að sjá ekki ártalið 1918 í pistlinum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.1.2015 kl. 03:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1005
  • Sl. sólarhring: 1109
  • Sl. viku: 3395
  • Frá upphafi: 2426427

Annað

  • Innlit í dag: 895
  • Innlit sl. viku: 3051
  • Gestir í dag: 871
  • IP-tölur í dag: 805

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband