Almenn staða á norðurhveli

Nú hefur það gerst að slitna er í sundur á milli Kanadakuldapollsins mikla, sem við köllum Stóra-Bola og afkvæmis hans á Atlantshafi norðaustanverðu. Að vísu sendir hann enn eina kraftlægðina í átt til Bretlands á morgun. Við lítum á almenna stöðu síðdegis á fimmtudag.

w-blogg140115a

Kort evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins heildregnar en þykktin er að vanda sýnd með litum. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Íslend er neðan við miðja mynd. Við sjáum allt austur á Persaflóa þar sem handboltakeppnin er að hefjast. Þar er sumarhiti, þykktin í 5640 metrum eða svo - en nokkuð snörp háloftalægð er yfir Sýrlandi. 

En Stóri-Boli hefur nú loks kólnað niður í venjulegt vetrarlágmark - kringum hann eru fjórir fjólubláir litir, sá dekksti sýnir þykkt undir 4740 metrum - einhvern tíma var það kölluð „ísaldarþykktin“ hér á hungurdiskum. Kuldi sem þessi er sjaldnast stöðugur á kortinu - þótt hávetur sé. Hann birtist og hverfur á víxl. Þetta er þó ekki lægsta „hugsanleg“ þykkt, dekksti fjólublái liturinn nær yfir bilið frá 4680 metrum upp í 4740 metra. Lægri tala en 4680 sést ekki á hverju ári - og þá frekar yfir Austur-Síberíu heldur en Kanadamegin. Á þessu korti kæmi hún fram sem hvítur blettur.Við bíðum eftir honum. 

Síberíumegin er ástandið frekar tætingslegt - það er ekki nóg til af köldu lofti til að hreinsa heimskautasvæðið. Við sjáum þar tvær (ræfilslegar) hæðir. Sú við Norður-Grænland kom við sögu í pistli fyrir nokkrum dögum og hindrar enn kuldaframrás suður með Grænlandi austanverðu (þökkum fyrir það). Hún tengist líka hæðarhrygg á Grænlandshafi - minni fyrirstaða ætti að vera í honum en samt skilur hann á milli lægðarhringrásar á okkar svæði og aðalkuldans í vestri. Háloftaáttin er hér norðlæg en ekki vestlæg - en ekki tiltakanlega köld. 

Þessi einkakuldapollur okkar er alls ekki svo kaldur - sjórinn er búinn að hita hann í marga daga og hafa þeir sem fylgjast með gervihnattamyndum séð þétta éljaflóka sem fylgja köldu lofti yfir hlýrri sjó þekja mestallt hafsvæðið kringum Ísland og fyrir sunnan land. 

Þegar þetta kort gildir (kl. 18 á fimmtudag) er dálítil lægð (sem við höfum minnst á áður) að nálgast landið úr norðaustri - enn er ekki orðið til samkomulag um það hvort illviðri verður úr hér á landi eða ekki og ekki heldur hver hitinn samfara veðrinu verður. 

En framhaldið? Ekki gott að segja - en sumar spár segja að hæðin auma við Norður-Grænland styrkist aftur með smáhjálp úr suðri og hlífi okkur þar með áfram fyrir versta atgangi kuldans úr vestri. Það væri þá svipað og gerðist í fyrra - en ábyggilega verða einhverjar nýjar lausnir fundnar á málinu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hver er ástæða þess að "Blesi" (Síberukuldinn) er svona veiklulegur? Hefur það einhverjar afleiðingar fyrir veðrið á norðurhveli öllu?

Hákon (IP-tala skráð) 14.1.2015 kl. 08:10

2 identicon

En nú er von um að það gangi í betri tíð undir mánaðarmót því þá eru kvartilaskipti. Þó er náttúrulega möguleiki að tíð versni, en þó er það ólíklegt. Því eins og einn spekingurinn sagði um áramót, „... þegar hættan á hrikalegum loftslagsbreytingum ógnar framtíð jarðarbúa.“

Þorsteinn Styrmir Jónsson (IP-tala skráð) 14.1.2015 kl. 09:58

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Hlutföll stærðar meginkuldapollanna breytast mjög frá degi til dags - en mjög sterkar vestanáttir að undanförnu yfir Atlantshafi hafa dælt hlýju lofti til austurs og norðausturs og gert hringrásina yfir N-Asíu frekar ruglingslega - það gæti jafnað sig á nokkrum dögum - og er reyndar spáð.

Tunglið skiptir um kvartil vikulega - tvö vaxandi og tvö minnkandi. Þess vegna er hægt að tengja flestar veðurbreytingar kvartilaskiptunum (kvartil=fjórðungur). Svo koma nýju og fullu tunglin - sumir miða við þau.

Kvartilaskipti voru í gær [þ.13. janúar] (úr 3. yfir í 4. á hálfu tungli). Tungl verður næst nýtt þann 20. (þá skiptir úr 4. kvartili yfir í það 1.) Skiptin á milli 1. og 2. kvartils er svo 26. janúar (eða 27.) - þá er tungl hálft og vaxandi. Fullt tungl er svo 3. febrúar.

Það er gaman að menn fylgist með veðri og tungli -

Trausti Jónsson, 14.1.2015 kl. 14:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.1.): 24
  • Sl. sólarhring: 1129
  • Sl. viku: 2695
  • Frá upphafi: 2426552

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 2399
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband