Í norðaustanátt

Veður er aldrei alveg tíðindalaust - og í þetta sinn ekki heldur, en samt hlutfallslega tíðindaminna heldur en að undanfarna daga. Við notum því tækifærið til að líta á óvenjulegt veðurkort (nóg er af þeim).

Heildregnu línurnar sýna reyndar sjávarmálsþrýstinginn - langlífasta veðurþátt veðurkortasögunnar (og ekki að ástæðulausu), svo má einnig sjá hefðbundnar vindörvar í 700 hPa-fletinum. Sá flötur er á seinni árum ekki mikið uppi á borðum hérlendis - en lifir enn góðu lífi í daglegum störfum veðurfræðinga þar sem skúra- og éljagarðar ráða illviðrum - svosem víða í Ameríku.

Litirnir eiga einnig við 700 hPa-flötinn og sýna upp- og niðurstreymi.

w-blogg130115a

Kortið gildir kl. 15 þriðjudaginn 13. janúar. Til upplýsingar er hér settur inn skýringartexti beint úr handriti ritstjórans að hinu merka riti Kortafyllerí (ritstjórinn er sem kunnugt er stöðugt á slíku fylleríi og búinn að vera það síðan haustið 1961):

„Litakvarði sýnir lóðrétta hreyfingu lofts. Mínustölur (bláar) tákna uppstreymi, en gult, brúnt og rautt sýnir niðurstreymi. Mælieiningin er Paskal á sekúndu. Talan 10 er ekki fjarri uppstreymishraðanum 1 m/s.

Lóðréttar hreyfingar stafa ýmist af áhrifum fjalla eða það á sér stað sökum úrstreymis ofan uppstreymisins (eða ístreymis neðan þess). Uppstreymi er áveðurs fjalla, en niðurstreymi hlémegin. Sé stöðugleiki loftsins „hagstæður“ getur lóðrétt bylgjuhreyfing haldið áfram langt handan fjallgarðs.

Í neðsta hluta veðrahvolfs er streymi við eða yfir fjöll aðalástæða lóðréttra hreyfinga. Í lægðakerfum er ístreymi talið ríkjandi í neðstu lögum (negatívt úrstreymi) en úrstreymi efst í kerfinu. Einhvers staðar á milli sé úrstreymið því núll.

Í raun og veru er um mikla einföldun að ræða en hún veldur því samt að algengt er að setja upplýsingar um (reiknað) uppstreymi á 700 hPa kort (í um 3 km hæð yfir sjávarmáli). Eftir því er farið hér. Stundum er talað um uppstreymi sem lóðréttan vind. Sé það gert er mælieiningin m/s eða jafnvel cm/s. Hreyfing upp á við er þá jákvæð. Einnig er algengt að reikna hversu lengi loft er á leið upp frá einum þrýstifleti til annars – uppstreymið er þá í átt til lægri þrýstings og þar með ber það með sér mínusmerki. Hér er auðvelt að ruglast í ríminu.“

Á kortinu að ofan eru fjallaáhrif mjög áberandi bæði yfir Íslandi sem og Norðaustur- Grænlandi. Flestar löngu og mjóu dökkbláu línurnar (sem ekki tengjast fjöllum) á kortinu tengjast éljagörðum.

Á þessu korti má sjá báðar lægðirnar sem fjallað var í pistli gærdagsins. Önnur er enn fyrir sunnan land (tvær miðjur merktar á kortið) en hin er lengst uppi í hægra horni - enn um 948 hPa í miðju. Sú lægð hreyfist næst til vesturs og til suðvesturs í átt til Íslands - en grynnist jafnframt. Ekki er enn ljóst hvort illviðri fylgir henni hér á landi á fimmtudaginn (15. janúar). 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • w-blogg120425b
  • w-blogg120425a
  • w-blogg080425b
  • w-blogg080425a
  • w-blogg060425b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 76
  • Sl. viku: 1028
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 903
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband