Kalda strokan frá Kanada

Þótt veður fyrstu viku nýja ársins sé harla óljóst er þó samkomulag um stóru drættina. Mjög kalt loft frá Kanada streymir austur um Atlantshaf - aðallega fyrir sunnan Ísland. Þetta sést mjög vel á 10-daga meðalspákorti evrópureiknimiðstöðvarinnar. Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins, meðalþykktina og vik þykktarinnar frá langtímameðallagi þessa daga.

w-blogg311214a

Jafnhæðarlínurnar eru heildregnar, jafnþykktarlínur strikaðar og þykktarvikin lituð. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Því þéttari sem jafnhæðarlínurnar eru því meiri er vindurinn, hann liggur samsíða línunum. 

Yfir Labrador eru feikistór neikvæð vik - dekkri fjólublái liturinn sýnir svæði þar sem þykktin er -140 til -180 metra undir meðallagi - í hita eru það -7 til -9 stig undir meðallagi áranna 1981 til 2010. Við Svalbarða (alveg efst á kortinu) má sjá svæði þar sem þykktin er meir en 100 metra yfir meðallagi, hiti er þar um 5 stigum yfir meðallagi.

Sé nánar litið á jafnþykktarlínurnar má sjá að sunnan við Grænland og allt inn á sunnanvert Grænlandshaf liggja þær undir horni við vindstefnu - vindurinn leitast við að bera kalt loft í átt til okkar. 

Hafið sér um að hita loftið á þessu svæði baki brotnu allan sólarhringinn og þegar til Íslands er komið er hitinn kominn upp undir meðallag - eða þar um bil. Meðalhiti hér við land á þessum árstíma er ekki fjarri frostmarki. Upphitun að neðan færir loftinu raka og gerir það mjög óstöðugt - og úr verður flókin keðja lóðréttra og láréttra varmaflutninga - með tilheyrandi úrkomumyndun - og reyndar miklum lægðagangi líka.

Meðalkort eins og þetta straujar alveg yfir hraðfara lægðir - jafnvel þótt þær séu djúpar. Þótt allar tölvuspár séu sammála um þessa stóru mynd er mikill ágreiningur um myndun og þróun einstakra lægðakerfa á þessu tíu daga tímabili.

Svo virðist þó sem nýjársdagur verði tiltölulega rólegur - og flestar spár telja föstudaginn 2. verða það líka - en þó má geta þess að evrópureiknimiðstöðin segir að innan við 100 km verði í slæma vestanhríð undan Suðvesturlandi framan af degi. Vonandi er rétt reiknað. Laugardagurinn gæti orðið rólegur líka - verðum við heppin.

Svo er líka sjaldan langt í norðaustanstrenginn á Grænlandssundi.

Ritstjóri hungurdiska óskar þrautseigum lesendum og landsmönnum öllum árs og friðar með þökk fyrir liðið.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Já og sömuleiðis.

Hér rúllaði snögglega yfir rigning á milli 1900 og 2100. Stytti upp jafn snögglega og það upphófst. Nú er blíðan ein í fararbroddi með tilheyrandi.

Þakka pistlana, þeir útvíkka sjóndeildarhringinn.

Sindri Karl Sigurðsson, 31.12.2014 kl. 21:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 37
  • Sl. sólarhring: 109
  • Sl. viku: 2484
  • Frá upphafi: 2434594

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 2206
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband