Aðfangadagur klukkan 18 (bara rétt lauslega)

Að sjálfsögðu látum við eiginlega veðurspá um veðrið kl 18 á aðfangadagskvöld eiga sig - en lítum lauslega á hugmynd evrópureiknimiðstöðvarinnar um ástandið á Atlantshafi. Fyrst hefðbundið sjávarmálsþrýstikort.

w-blogg221214a

Jafnþrýstilínur eru heildregnar, úrkoma sýnd með litum og jafnhitalínur í 850 hPa eru strikaðar, það er sú sem sýnir -15 stig sem snertir norðurströndina. Það er býsna kalt - vindur verður greinilega hægur víðast hvar (jafnþrýstilínur eru fáar), en daufgrænir flekkir snerta landið hér og hvar. Einhver él? Frost verður væntanlega mikið inn til landsins þar sem himinn er heiður. 

Grunnt lægðardrag er vestast á Grænlandshafi - eins konar útskot úr flatri lægð vestan Grænlands. Lægð er við Suður-Noreg og nokkuð hvasst á Norðursjó. Langt suður í hafi er stórt og úrkomuþrungið lægðarsvæði. 

Í hungurdiskapistli gærdagsins var minnst á ósamkomulag reiknimiðstöðva um framhaldið. Síðan þá hefur ekkert gengið saman með þeim. Lítum aftur á grundvöll ósamkomulagsins - getum við lært eitthvað af honum?

w-blogg221214b

Þetta kort sýnir ástandið í 500 hPa kl. 18 á aðfangadagskvöld - gerð evrópureiknimiðstðvarinnar. jafnhæðarlínur eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því meiri er vindur í um 5 km hæð. Jafnþykktarlínur eru rauðar og strikaðar. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. 

Mjög kalt er norðan við land - rétt eins og á hinu kortinu. Það er 5120 metra jafnþykktarlínan sem snertir norðausturhorn landsins. Það er um 130 metrum undir meðallagi desembermánaðar og segir okkur að hiti í neðri hluta veðrahvolfs sé um 6 stigum undir meðallagi. Það er nokkuð mikið - grettum okkur aðeins yfir því - en ekkert óvenjulegt - svona dag og dag. 

Hæðarhryggur er yfir landinu á leið austur - en snarpt lægðardrag vestan við Grænland - líka á austurleið. Í fljótu bragði eru spár bandarísku veðurstofunnar (þær eru tvær þessa dagana - gfs og gfs/gsm) ekki mjög ósammála þessu um veðrið kl. 18 á aðfangadagskvöld. Við nánari athugun (sem við þreytum okkur ekki á hér) sést þó að lægðardragið er nokkru flatara í bandarísku spánum.

Þetta reynist muna öllu hvað framhaldið varðar. Bláu og rauðu örvarnar á kortinu sýna stefnu kalda og hlýja loftsins í spá evrópureiknimiðstöðvarinnar - þær mætast fyrir sunnan land seint á jóladagskvöld. Þá á að verða til djúp lægð sem gæti valdið norðaustanillviðri hér á landi á annan og þriðja jóladag. 

En í bandarísku spánum gripur lægðardragið hlýja loftið ekki fyrr en sólarhring síðar - stefnumótið verður líka talsvert austar - þar sem gráu örvarnar vísa á (gsm). Gamla gfs-líkanið bandaríska sýnir stefnumótið aðeins vestar en hér er sýnt. Bandarísku spárnar eru hér hagstæðari fyrir okkur - en mun verri fyrir lönd við Norðursjó. 

Kanadíska líkanið vill illviðrið hér á landi - en það breska er nær bandarísku líkönunum. Japanir fylgja líka bandarísku spánum. 

Oft verður niðurstaða ósamkomulags af þessu tagi eins konar samsuða allra - við bíðum og sjáum hvort morgundagurinn (mánudagur 22. desember) færir okkur nær samkomulagi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 39
  • Sl. sólarhring: 106
  • Sl. viku: 2486
  • Frá upphafi: 2434596

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 2208
  • Gestir í dag: 34
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband