Af sjávarhitavikum og hafísútbreiðslu þessa dagana

Sumir kunna að muna að sjór var óvenjuhlýr við landið í sumar - sérstaklega norðan við land. Við lítum nú á ástandið í dag - samkvæmt greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar. Einnig lítum við langt norðaustur í Norðuríshaf. 

w-blogg111014a

Litirnir sýna sjávarhitavik - eftir kvarðanum til hægri. Hiti virðist vera nærri meðallagi - eða lítillega undir því við suður- og suðausturströndina. Aftur á móti er enn afbrigðilega hlýtt undan Vestur- og Norðurlandi. Mesta vikið, um 4 stig, (sést betur sé kortið stækkað) er undan Hornströndum. Einnig vekur athygli að hiti er yfir meðallagi í öllu Noregshafi og einnig í Íslandshafi (norðan Íslands) austanverðu. 

Hiti í kalda sjónum í Austur-Grænlandsstraumnum er nærri meðallagi og jafnvel lítillega undir því. Þar má einnig sjá breiða fjólubláa línu og segir hún til um meðalútbreiðslu hafíssins á þessum tíma árs. Þéttleiki hans er merktur í grænbláum lit. Norðan við 78. breiddarstig er útbreiðslan í meðallagi, en undir því sunnar.  

Hlýtt er vestan Svalbarða og austur í Barentshaf - en kalt austan við. Á dökkbláa svæðinu er sjávarhitavikið -3,0 stig, en þar er sjór þó enn auður. Hér nær grænblár litur suður fyrir fjólubláu meðallínuna - þarna er ísútbreiðsla lítillega yfir meðallagi árstímans. Einstaklega íslítið hefur verið í Barentshafi undanfarin ár. Spurning er hvort svo verður einnig í vetur - eða hvort ísinn nær einhverri útbreiðslu. 

w-blogg111014b 

Hér er norðurskaut neðan til, til vinstri við miðju myndarinnar. Nyrsti hluti Grænlands og Ellesmereyju sést neðst til vinstri. Norðurströnd Síberíu er hægra megin og rétt sést í Alaska efst til vinstri. Á fjólubláu línunum má sjá að gríðarstórt svæði, sem ís hylur yfirleitt á þessum árstíma, er nú íslaust. Grænbláu svæði sýna ísþekjuna nú - nær þó (auðvitað) ekki 100 prósentum (ljósasti liturinn) á öllu litaða svæðinu.

Útbreiðsluvik íssins er einmitt núna það mesta á árinu - ólíklegt að það endist. Á næstu vikum mun allt þetta auða svæði leggja - undrahratt - eins og alltaf. Síðan hefst hin langvinna stöðubarátta á jaðarsvæðunum sem að lokum ræður útbreiðsluhámarkinu seint í vetur. 

Undanfarin áratug hefur ís verið sérlega lítill að sumar og haustlagi. Síðvetrarhámarkið hefur líka látið á sjá - en það er að minnsta kosti eitt útbreiðsluafbrigði sem við eigum eftir að sjá. Það er metútbreiðsla á jaðarsvæðum - en bráðnun að hætti síðustu ára í Norðuríshafinu sjálfu. Mikill vor- og sumarís við Ísland og í Barentshafi á sama tíma og þriðjungur Norðuríshafsins eða meira er auður. Forvitnilegt ekki satt? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.1.): 61
  • Sl. sólarhring: 1076
  • Sl. viku: 2732
  • Frá upphafi: 2426589

Annað

  • Innlit í dag: 58
  • Innlit sl. viku: 2435
  • Gestir í dag: 57
  • IP-tölur í dag: 57

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband