Lítilsháttar skammtur af vetri

Eftir skammvinna „hitabylgju“ lítur nú út fyrir kuldakast - vonandi stendur það ekki nema skamma hríð. Alla vega er það allt lítið um sig þótt það komi nánast beint frá norðurskauti. 

Kuldapollurinn litli sem færir okkur kuldann er af barmafullu gerðinni. Það skýrist vonandi hér að neðan við hvað er átt með því orðalagi.

w-blogg101014a 

Kort evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir hæð 500 hPa-flatarins, vind í honum og hita á laugardagskvöld 11. október. Við sjáum að hiti og hæð fylgjast að í stórum dráttum og eru sammiðja - kaldast er í miðju lægðarinnar. Vindur er hvass - meiri en 25 m/s af vestnorðvestri í suðvesturhluta kerfisins. Lægðin kemur um það bil beint úr norðri - er hér enn á suðurleið en á - að sögn reiknimiðstöðva - ekki að fara mikið lengra en þetta. Þetta er í rúmlega 5 kílómetra hæð, innsti hringurinn næst lægðarmiðjunni er 5340 metra jafnhæðarlínan. 

En þessarar kröftugu hringrásar sér vart stað við jörð - og ekki einu sinni í 850 hPa-fletinum en hann er í um 1400 metra hæð. Þetta þýðir að hringrásin er barmafull af köldu lofti - þykktin minnkar jafnmikið inn að lægðarmiðjunni eins og flatarhæðin. 

w-blogg101014b 

Þetta kort sýnir hæð 850 hPa-flatarins, vind í honum og hita - á sama tíma og fyrra kortið. Við sjáum háloftahringrásina alls ekki - en kuldinn sést samt skýrt og greinilega og er mestur þar sem háloftalægðarmiðjan er yfir, -14,4 stig.

Engin hefðbundin kuldaskil fylgja þessu kerfi - þrátt fyrir að nokkuð snögglega kólni. Aftur á móti ýtir kuldapollurinn undir smálægðarmyndun við landið. Evrópureiknimiðstöðin segir að ein slík muni myndast undan Suðurlandi á laugardaginn - hún á að ná upp í 850 hPa og sést því á kortinu. Við tökum eftir því að austan við lægðarmiðjuna er vindur af suðaustri - hægur að vísu. En uppi (fyrra kortið) er vindur eindreginn af vestnorðvestri.

Þessi staða er líkleg til úrkomuframleiðslu í tengslum við litlu lægðina - að auki er hlýr sjór undir. Þegar þetta er skrifað (seint á fimmtudagskvöldi) er úrkomuspáin ekki komin á hreint. Sem stendur á úrkoman að byrja sem rigning á láglendi syðst á landinu - en eins og venjulega mun hún breytast í snjókomu verði ákefðin nægileg. Líklega fær landið lítilsháttar skammt af vetri í heimsókn. 

Það eru fleiri atriði sem mætti minnast á í sambandi við þennan kuldapoll - hugsanlega verður framhald á þessum pistli á morgun eða síðar.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii
  • w-blogg141124b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.11.): 204
  • Sl. sólarhring: 371
  • Sl. viku: 2598
  • Frá upphafi: 2411224

Annað

  • Innlit í dag: 170
  • Innlit sl. viku: 2237
  • Gestir í dag: 166
  • IP-tölur í dag: 163

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband