Lægðagangur

Nú kemur upp sígild veðurstaða. Við verðum í skotlínu illviðra - það er hins vegar ekkert sérstaklega verið að miða á okkur, tilviljun ræður mestu hvar verstu vindstrengirnir lenda - kannski sleppum við að mestu. 

En við lítum á veðurkort úr líkani evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir það kl. 18 síðdegis á mánudag.

w-blogg290914a

Þetta er hefðbundið veðurkort. Jafnþrýstilínur eru heildregnar, jafnhitalínur í 850 hPa-fletinum eru strikaðar og 6 klukkustunda uppsöfnuð úrkoma er sýnd með litum. Kvarðinn batnar við stækkun. 

Hin sígilda staða er sú að mjög djúp og víðáttumikil lægð nær fullum þroska nærri suðurodda Grænlands. Hún beinir mjög köldu lofti frá Norður-Kanada út yfir Atlantshaf - til móts við hlýjan loftstraum sem kemur úr suðvestri á norðvesturhlið Asóreyjahæðarinnar. 

Lægðin djúpa veldur sunnanstormi á landinu, mikilli úrkomu um landið sunnan- og vestanvert. Nýjar lægðir myndast nú á mótum hlýja og kalda loftsins langt suðvestur í hafi. Þessar lægðir eru eins mismunandi og þær eru margar - sumar litlar en aðrar allstórar eða stórar. Þær eiga það þó sameiginlegt að dýpka mjög snögglega og að veður í kringum þær er oft mjög hart. 

Lægð dagsins, við Suður-Grænland, er djúp miðað við árstíma - um 955 hPa í miðju. Þrýstingur hér á landi á enn eftir að mælast undir 950 hPa hér á landi í september [að því mun koma]. Loftið sem frá Kanada kemur er býsna kalt - við sjáum -15 stig í 850 hPa yfir Baffinslandi og að -5 stiga jafnhitalínan liggur í stórum sveig langt austur á Atlantshaf. Sömuleiðis sjáum við +15 stig þar sem rauða örin á myndinni byrjar. 

Lægðin litla suðvestur í hafi er hér mjög ört dýpkandi og reiknimiðstöðvar spá fárviðri sunnan við hana á þriðjudag. En hún er ekki stór um sig og því eru mestar líkur á því að við sleppum alveg við það versta. - En rétt er að fylgjast með textaspám Veðurstofunnar. 

Eftir að þessi lægð er búin að skila sér - gæti önnur komið í kjölfarið, kannski á fimmtudag - of snemmt er að velta vöngum yfir braut hennar, eðli og afli.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 128
  • Sl. viku: 2476
  • Frá upphafi: 2434586

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 2200
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband