Enn af hlýindum

September hefur verið hlýr til þessa - sérstaklega um landið norðan- og austanvert. Meðalhiti á Akureyri það sem af er mánuði er nú rétt um 12 stig. Þetta er fjórða hæsta tala fyrir 11 fyrstu daga mánaðarins - allt frá 1941.

Sami tími 2010 gerði best - meðalhitinn var þá 13,9 stig, 1996 var meðalhitinn þessa daga 13,1 stig og 12,5 árið 2003. Af þessum mánuðum hafði 1996 einn gott úthald - endaði í 11,4 stigum, 2003 endaði í 8,3 en 2010 var öllu skárri og lauk í 9,7 stigum. September 1941 sem á 10,3 stig fyrstu 11 dagana bætti í og endaði svo í 11,6 stigum sem er hæsta septembertalan á Akureyri til þessa. September 1939 var nærri því eins hlýr - við eigum dægurmeðaltöl þess mánaðar ekki á lager í augnablikinu. 

Næstu dagar verða hlýir - sé að marka spár evrópureiknimiðstöðvarinnar - við skulum líta á norðurhvelsspána fyrir laugardaginn 13. september kl. 18.

w-blogg120914a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því hvassari er vindur í fletinum. Þykktin er sýnd í lit - kvarðinn batnar sé myndin stækkuð - hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Brúnir og gulir litir sýna góðan sumarhita - við verðum þeim megin á laugardaginn. 

Mörkin á milli bláu og grænu litanna er við 5280 metra. Þar neðan við má búast við næturfrosti um meginhluta landsins í björtu veðri. Hér getum við talið þrjá bláa liti, sá dekksti sýnir þykkt á milli 5160 og 5100 metra. Við viljum helst engan bláan lit yfir okkur í september en sleppum varla nú frekar en venjulega. 

Fjórði blái liturinn, neðan við 5100 metra sést ekki á kortinu - en ætti að fara að blikka á okkur í mestu kuldapollunum mjög fljótlega - svo breiðir hann úr sér og fimmti blái liturinn birtist.

Gríðarleg flatneskja er yfir Vestur-Evrópu - en dálítill kuldapollur við Miðjarðarhaf. Óvenjudjúp lægð er þessa dagana við Alaska - hún fór víst niður í um 960 hPa.

Nú ætti að vera hámark fellibyljatímans á Atlantshafi - en lítið bólar á slíku - alla vega sér evrópureiknimiðstöðin ekki neitt í 10-daga spánni í dag. Reyndar fylgist fellibyljamiðstöðin í Miami með þremur bylgjum í dag - kannski verður eitthvað úr? Fellibyljir hafa sömuleiðis verið fátíðari en að meðallagi á Kyrrahafi vestanverðu - en óvenjuskæðir á því austanverðu (undan Mexíkó). 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fróðlegt að sjá þetta um hitann á Akureyri og sjálfsagt að samgleðjast þeim.

Gaman væri að heyra tölurnar héðan af höfuðborgarsvæðinu því hér hefur einnig verið hlýtt. Gróðurinn vex enn, rétt eins og á góðum sumardegi, og ekkert frost komið sem hlýtur að teljast frekar óvenjulegt.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 12.9.2014 kl. 08:29

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Torfi - flesta daga kemur pistill á fjasbókarsíðu hungurdiska þar sem farið er í gegnum stöðu mánaðarins á landinu og í Reykjavík og á Akureyri.

https://www.facebook.com/groups/hungurdiskar/

Þar má t.d. sjá að reykjavíkurhitinn er nú í 11. hlýjasta sæti á 66 ára hitalista og hitinn á Akureyri er í því fjórða. Morgunhitinn í Stykkishólmi er í 9. til 10. sæti af 168.

Auk þessa er nimbus með Reykjavík, Akureyri og fleira í gjörgæslu.

Trausti Jónsson, 12.9.2014 kl. 12:04

3 identicon

það verður fróðlegt hvernig þessir fellibiljir þróast í kyrrahafi er algeingt að það séu margir fellibiljir á sama svæði í einu

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 12.9.2014 kl. 13:11

4 identicon

Jamm og jæja! Kíkti á fjasbókarsíðuna þína og þar er ekkert nema upptalning dag hvern á því í hvaða sæti hver dagur er hvað hita varðar.

Ekkert um sjálfan hitann.

Svo kíkti ég auðvitað á Sigurð líka en þar var komið að frekar tómum kofanum.

Annars skiptir þetta auðvitað engu máli, ekki frekar en önnur statistík. Það er nóg að virða fyrir sér gróðurinn til að sjá að enn er "sumar"tíð!

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 12.9.2014 kl. 21:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii
  • w-blogg141124b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.11.): 94
  • Sl. sólarhring: 143
  • Sl. viku: 2338
  • Frá upphafi: 2411758

Annað

  • Innlit í dag: 74
  • Innlit sl. viku: 1988
  • Gestir í dag: 70
  • IP-tölur í dag: 67

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband