Skiptir um átt í háloftunum?

Skiptir nú um átt í háloftunum? Það er e.t.v. ekki í alveg í hendi en víst er að evrópureiknimiðstöðin gerir ráð fyrir að meðalstaða næstu tíu daga verði ólík þeirri sem verið hefur ríkjandi í sumar. Þýðir það að rigningum sé lokið um landið sunnanvert? Nei - ekki endilega - en úrkoman á að koma úr annarri átt. Kannski að sólin brjótist fram dag og dag. 

Við lítum fyrst á meðalhæð 500 hPa-flatarins síðustu tíu daga - í boði evrópureiknimiðstöðvarinnar og Bolla Pálmasonar spákortagerðarmeistara Veðurstofunnar. 

w-blogg260714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jafnhæðarlínur eru heildregnar - en hafa ber í huga að þær eru hér teiknaðar með minna bili en á þeim kortum sem að jafnaði sjást á hungurdiskum vindur sýnist því sterkari en hann er. Litafletir sýna vik frá meðallagi áranna 1981-2010.

Jákvæða risavikið yfir Skandinavíu hefur setið þar nær allan júlímánuð fram til þessa og sömuleiðis var það ríkjandi langtímum saman í júní (þá þó með hléi - þegar veðurlag var öðru vísi). Neikvætt vik hefur verið yfir Íslandi og nú síðustu tíu dagana fyrir suðvestan land. Vikin hafa saman aukið mjög á sunnanáttina frá því sem venjulegt er. Auk þessa hefur lægðabeygja verið ríkjandi.

Nú er hins vegar að sjá að breyting verði á. Kortið hér að neðan sýnir meðalástand næstu tíu daga - eins og evrópureiknimiðstöðin sér það fyrir sér. Meðan að frekar auðvelt er að túlka vikakort fortíðar (við vitum jú hvernig veðrið var) eru framtíðarkort mun erfiðari viðfangs. Við vitum nefnilega ekki hversu stöðug framtíðarstaðan er - hún gæti t.d. verið einhver samsuða úr tvenns konar veðurlagi sem þó er ólíkt því sem meðalkortið viriðist sýna. Stærð vikanna getur þó gefið vísbendingar um festu veðurlagsins. En lítum á spákortið.

w-blogg260714b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér er mikið jákvætt vik suður af Grænlandi - hlýtt loft frá Ameríku? Örin sýnir meðalstefnu þrýstivindsins næstu tíu daga, fram til 4. ágúst. Hann hefur nú snúist til vestnorðvesturs - í stefnu frá Grænlandi. Þetta er auðvitað mun þurrkvænni átt heldur en sunnanáttin. - En, því miður, er enn mikil lægðarbeygja áberandi. Það hlýtur að þýða að lægðir eða þrálátar síðdegisskúrir - nú, eða hvort tveggja komi mikið við sögu. Við ættum þó að sjá eitthvað til sólar.

Enn lengri spár evrópureiknimiðstöðvarinnar - fram yfir miðjan ágúst gera nú ráð fyrir að aftur gangi í suðaustan- eða sunnanáttarfestu - ef það gerist er vonandi að lægðabeygjan minnki. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband