Tvenns konar kuldi?

Tvenns konar kuldi? Já, eiginlega. Í fyrsta lagi er það kuldinn i dag (laugardaginn 5. júlí), ættaður úr norðri - hefur alla vega komið þar við og kólnað að neðan. Hann nær hins vegar ekki svo hátt. Lítum á hann á korti. Kortin eru öll úr líkani evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg060714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta er kort sem sýnir hæð 925 hPa-flatarins auk vinds og hita. Það batnar mjög við stækkun. Kortið gildir á hádegi í dag (laugardag). Hefðbundnar vindörvar sýna vindhraða og stefnu -  25 til 30 m/s norður af Vestfjörðum og jafnvel suður með Vesturlandi. Jafnhæðarlínurnar eru líka mjög þéttar, sú sem liggur til suðurs rétt vestur af landinu sýnir 700 metra hæð. Svipað og hálendi Vestfjarða. Litafletirnir sýna hita, á græna svæðinu er lítilsháttar frost, með góðum vilja má sjá töluna -0,2 yfir Ísafjarðardjúpi. Það er nærri lagi því á sama tíma var hiti um frostmark á Þverfjalli - í 743 metra hæð.

Kalda loftið liggur eins og fleygur til suðurs frá Norðaustur-Grænlandi og langt suður í haf. Hlýrra er á báða vegu. Þessi kalda stroka er á leið til vesturs og vonandi úr sögunni í bili. Heldur hlýrra loft kemur í staðinn.  

Því miður eigum við 925 hPa-hita yfir Keflavík ekki á lager í gagnagrunni lengra aftur en til 1991. Lægsta tala sem hefur sést í 925 hPa í júlí síðan þá er -0,2 stig. Nokkuð skortir á að það sé jafnað að þessu sinni. 

En svo er næsti kuldi - hann er allt öðru vísi. Kominn úr suðaustri, heldur til í háloftunum og á samkvæmt spám að ná hámarki yfir landinu á mánudag. Við lítum líka á hann á korti evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg060714b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér má sjá hæð 500 hPa-flatarins ásamt vindi og hita. Litirnir eru ekki á sama stað á kvarðanum og á fyrra kortinu. Hér sýnir græni liturinn hvar frostið er meira en -26 stig. Þetta er mjög dæmigerður háloftakuldapollur að sumarlagi. Við eigum upplýsingar um hita í 500 hPa-fletinum yfir Keflavík allt aftur til 1952. Mesta frost í júlí í fletinum á þeim tíma mældist -33,4 stig, það var kuldasumarið mikla 1979. Við erum talsvert frá þeim leiðindum. 

En þegar loft hlýnar í neðstu lögum og kólnar í þeim efri vill lóðrétt jafnvægi riðlast. Kælingin að næturlagi yfir landinu sér að mestu um að koma í veg fyrir að neðsta loftið fljóti upp, en sólarylur að deginum hefur öfug áhrif - hann hrindir lofti neðri laga á flot - og það flýtur upp - alveg upp undir veðrahvörf - ef svo vill verkast.

Þetta er að sjálfsögðu uppskrift að síðdegisskúrum - hvort þær verða litlar og á stangli - eða öflugar og raðast í garða fer eftir svo mörgum smáatriðum að ritstjóri hungurdiska verður bara að segja pass. En margir staðir sleppa alveg.

Það er kostur að fá miklar skúrir - því þá er von til þess að klakkatindarnir breiði úr sér undir veðrahvörfunum og myndi þar skýjalag - klósiga - og e.t.v. annað í netjuskýjahæð. Það ætti að koma í veg fyrir að hann frysti - en á því er hætta á aðfaranótt mánudags - á þeim stöðum sem veikir eru fyrir slíkum freistingum. 

Svo er það hvernig gengur að losna við kuldapollinn - smálægðabylgjur í jaðri hans sparka honum eitthvað til og frá - og hann er það kaldur að sjórinn mun fyrr eða síðar draga svo úr afli hans að önnur veðrakerfi geta losað okkur við hann.

En á 10-daga jafnaðarspákorti evrópureiknimiðstöðvarinnar má sjá hversu þrautseigur hann er.

w-blogg060714c

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar (meðalhæð næstu tíu daga), jafnþykktarlínur eru strikaðar, og litafletir sýna vik þykktarinnar frá meðallagi júlímánaðar 1981 til 2010.  

Ekki er alltaf auðvelt að túlka véfréttir 10-daga meðalspánna - en reynum samt. Kuldapollurinn á á þessu tímabili að leita bæði til norðvesturs - og til suðausturs. Suðausturskriðið sést á vikunum stóru yfir Bretlandi og Frakklandi.  Skyldu þeir sitja í þrumuveðrageri? Gríðarleg hlýindi eru hins vegar í Noregi - þar á meðalþykktin að vera yfir 5640 metrum í tíu daga og hiti í neðri hluta veðrahvolfs 6 til 7 stigum ofan meðallags. Þar er að vísu sjávarloft við að eiga - rétt eins og hér en hitinn gæti hæglega teygt sig upp í 27 til 30 stig þar sem sólar nýtur - það er munur eftir kuldakastið sem þar gerði um miðjan júní. 

Það er eftirtektarvert hversu skörp skil eru á milli kuldans hér og hlýindanna eystra - við getum jafnvel leyft okkur að vona að stíflan gefi sig og eitthvað af hlýja loftinu sleppi til vesturs til okkar. En reiknimiðstöðvar eru ekki allt of bjartsýnar með það. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þurfum við þá nokkuð að hafa áhyggjur af af Global Warming?

Sumarið í ár, sem og sumarið 2013 benda ekki til þess, enda minnir júlí 2014 meira á hefðbundinn októbermánuð heldur en á júlímánuð.

Sem sagt, Global Warming var þá bara blekking eftir allt saman, og við þurfum aldrei að hafa áhyggjur af hlýnum Jarðar, hvað þá þurkkum eða vatnsskorti, amk. hér á landi.

Einar Þór (IP-tala skráð) 6.7.2014 kl. 02:11

2 identicon

Sæll Trausti og bestu þakkir fyrir gott blogg. Er ekki frekar óvenjulegt að það gangi á með frosti og snjókomu í júlíbyrjun á Íslandi?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 6.7.2014 kl. 17:19

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Þetta er nú enginn tímamótapistill Einar og verður seint talinn til raka með eða á móti hnattrænum veðurfarsbreytingum - þótt kuldi sé nefndur í fyrirsögninni. Hilmar - óvenjulegt? Ekki svo mjög - það líða venjulega ekki mörg ár á milli kasta af þessu tagi og mörg hafa þau verið miklu verri. Það er helst að vindur nú hafi verið í meira lagi miðað við það sem algengast er í köstum sem þessum. En hann er heldur ekki einsdæmi.

Trausti Jónsson, 6.7.2014 kl. 17:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg031124c
  • w-blogg031124b
  • w-blogg031124a
  • w-blogg311024a
  • w-blogg311024b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.11.): 8
  • Sl. sólarhring: 386
  • Sl. viku: 1434
  • Frá upphafi: 2407439

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 1280
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband