Heldur laklegt útlit

Lægðasvæðið mikla sem plagað hefur okkur síðastliðna tvo til þrjá daga fer nú að grynnast. Ekki náði það því að vera það dýpsta sem sést hefur í júlí, en heiðarleg tilraun samt og lágþrýstimet féllu á nokkrum veðurstöðvum. Uppgjör um það verður vonandi tilbúið eftir miðnætti (á miðvikudagskvöldi) og verður upplýsingum þar um bætt neðan við þessa færslu þegar allt er í húsi. 

Þótt lægðin sé farin að grynnast gerir hún sig líklega til þess að sitja nærri landinu eða skammt fyrir austan það allt sitt langa dauðastríð. Það gæti varað í meir en viku - en óþarfi er að vera með mikla svartsýni svona löngu fyrirfram. Inn í lægðina eiga að ganga nokkrar minni - en satt best að segja er mikil óvissa um afl þeirra eða hreyfingar, reiknimiðstöðvar hringla með það fram og til baka frá einni spárunu til annarrar. 

Lægðin nær alveg upp úr veðrahvolfinu og á þessum tíma árs eru háloftavindar almennt slakir þannig að spörk annarra kerfa eru máttlítil.

Við skulum líta á tvö kort - bæði úr heldur svartsýnni spárunu evrópureiknimiðstöðvarinnar frá hádegi í dag (miðvikudag). Kortin eru bæði hönnuð af Bolla Pálmasyni á Veðurstofunni, það fyrra er ókunnugt lesendum hungurdiska - en það síðara vanabundið norðurhvelskort.

w-blogg030714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kortið sýnir Norður-Atlantshaf, Ísland er rétt ofan við miðja mynd og er lægðarmiðja við suðausturströndina. Spánn er neðst til hægri. Jafnþrýstilínur við sjávarmál eru heildregnar og sýna meðalloftþrýsting næstu tíu daga samkvæmt spánni. Sjá má mjög eindregna norðan- og norðaustanátt yfir Íslandi og mikla lægðasveigju á jafnþrýstilínunum. Heldur leiðinlegt útlit, norðanátt sem er svo lægðasveigð að hún dugir vart í góðan þurrk syðra. 

Litafletirnir sýna úrkomu sem hlutfall (prósentur) af meðalúrkomu í líkaninu 1981 til 2010. Bláir litir sýna úrkomu yfir meðallagi en á gulum og brúnum svæðum reiknast úrkoman undir meðallagi. Smáblettur undan Suðurlandi er gulur - þar er gert ráð fyrir því að úrkoma næstu tíu daga verði undir meðallagi. Annars er landið allt hulið bláum lit. Á fjólubláa svæðinu á úrkoma að vera fimmföld meðalúrkoma tíu daga í júlí. Þar sem tíu dagar eru um það bil þriðjungur mánaðarins er reiknað með því að næstu tíu daga falli um 170 prósent mánaðarmeðalúrkomunnar á því svæði. Júlíúrkoman yrði því 70 prósent umfram meðallag þótt ekkert félli síðustu 20 dagana. 

Þessi úrhellisspá byggir reyndar á því að þrjár býsna öflugar smálægðir komi úr norðaustri - í kringum aðallægðina og beini fremur hlýju og rakaþrungnu lofti inn á Norðurland. Ekki er víst að þessar lægðir sýni sig í raunheimum - rétt þó að fylgjast með.

Síðara kortið er hefðbundið norðurhvelskort og gildir það kl. 12 föstudaginn 4. júlí. 

w-blogg030714b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ísland er rétt ofan við miðja mynd - en hér nær kortið allt frá Persaflóa neðarlega lengst til hægri á kortinu og Alaska ofarlega á vinstri hlið. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því hvassari er vindur sem blæs samsíðan þeim. Þykkt er táknuð í lit - kvarðinn batnar mjög við stækkun. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið.

Þetta er hefðbundin sumarstaða. Blár litur fyrirfinnst ekki nema á örlitlu svæði nærri norðurskautinu, þar er þykktin minni en 5280 metrar - það er aðeins lægra en lægst er vitað um hér við land í júlí. Mörkin milli grænu og gulu litanna er við 5460 metra - við viljum helst vera undir meiri þykkt en svo í júlí. Allt neðan við 5400 er illviðunanlegt í júlí - verst þó fari þykktin niður í dekksta græna litinn. 

Það er erfitt að sjá breytingu á þessu fyrr en háloftalægðin mikla við Ísland fer að aflagast - þá fer hún að hökta til og frá og hrekkur e.t.v. út úr þessu sæti. Til þess þarf hún að grynnast frá því sem hér er sýnt (hringlaga jafnhæðarlínum þarf að fækka).

Ör bendir á hitabeltisstorminn Arthúr við austurströnd Bandaríkjanna. Evrópureiknimiðstöðin gerir talsvert úr honum - en ekki nóg til þess að hann öðlist einn og sér afl til að sparka í lægðina sem ásækir okkur.  

Rétt að benda lesendum á góða júnísamantekt nimbusar og Emil H. skrifar líka upplýsandi hitapistil á bloggi sínu.  

Svo fór að lægsti þrýstingur lægðarinnar mældist á Húsavík, 975,0 hPa. Þetta er fjórði til fimmti lægsti þrýstingur sem mælst hefur á landinu í júlí. Listi yfir ný stöðvamet er í viðhengi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

átta mig ekki á þessum eftirstöðfum lægðarinar hefði haldið að svona öflug lægð ætti að hafa þurkað upp skúrasvæðinn í kring um sig skipa þessar aðkomulægðir máli í því samheingi

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 3.7.2014 kl. 09:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg031124c
  • w-blogg031124b
  • w-blogg031124a
  • w-blogg311024a
  • w-blogg311024b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.11.): 404
  • Sl. sólarhring: 451
  • Sl. viku: 1724
  • Frá upphafi: 2407418

Annað

  • Innlit í dag: 370
  • Innlit sl. viku: 1553
  • Gestir í dag: 359
  • IP-tölur í dag: 339

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband