Órói á norðurslóðum (snertir okkur lítillega)

Nú er enn ein stór fyrirstöðuhæð að myndast við Alaska. Þar hlýnar þá verulega - rétt einu sinni. Hæðin sparkar duglega í kuldapollana stóru og þeir eru því á nokkru skriði þessa dagana. Til allrar hamingju berast lætin ekki til okkar en hreyfing hefur þó komist á loftið yfir Norður-Íshafi næst norðausturhorni Grænlands og mun nú smágusa af því fara suður með Austur-Grænlandi næstu daga.

Á sunnudaginn sést það greinilega á 925 hPa-kortinu hér að neðan.

w-blogg220214a 

Jafnhæðarlinur eru gráar en hiti í fletinum er sýndur með litum. Sömuleiðis má sjá hefðbundnar vindörvar sýna vindhraða og stefnu. Það er 500 metra jafnhæðarlínan sem liggur frá Breiðafirði austur um til Vopnafjarðar. Við hana er vægt frost, -4 til -6 stig. Kortið batnar mjög við stækkun.

Hitabratti er mikill frá Íslandi yfir til Norðaustur-Grænlands, dekkri fjólublái liturinn sýnir meir en -20 stiga frost. Ef vel er að gáð má sjá að vindörvarnar á þessu svæði liggja meira eða minna samsíða litaborðunum. Vestan við land er kalt loft þó heldur í framsókn - en hlýrra fyrir norðaustan land. Meira af köldu lofti er á leið inn á kortið úr norðri og veldur því að heldur breiðist úr kuldanum fram á mánudag.

Þessi kaldi fleygur er mjög þunnur og hiti í 850 hPa-fletinum er litlu lægri en í 925 hPa. Þetta nægir samt til þess að merki kuldans sjást vel á þykktarkortum - eins og því að neðan.

w-blogg220214b 

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, vindur blæs nokkurn veginn samsíða þeim, því stríðari sem línurnar eru þéttari. Litir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Mörkin á milli grænu og bláu litanna eru við 5280 metra þykkt sem telst nokkuð gott hér á landi í febrúar.  

Hér blasa norðurslóðir við. Norðurskautið er rétt ofan við miðja mynd. Hæðin mikla yfir Alaska er efst til vinstri - en kuldapollarnir ógurlegu við norðurskautið og yfir kanadísku norðurslóðaeyjunum. Við sjáum að kaldi fleygurinn við Norðaustur-Grænland (nærri H-inu) er ekki veigamikill miðað við ósköpin norðar og vestar. - En í honum er samt mun kaldara loft heldur en við höfum séð um nokkra hríð, þykktin er minni en 5100 metrar - það dygði í frost um nær allt land allan sólarhringinn - kæmist hún suður fyrir land.  

Spár gera nú ráð fyrir því að fjólubláu kuldamiðjurnar tvær sameinist í eina og ryðjist suður um Kanada og nærri því suður að landamærunum við Bandaríkin. Á þessari mynd teljum við þrjá fjólubláa liti - en þegar fast land verður undir á sá fjórði að bætast við. Utan um hann liggur hin frekar sjaldséða 4740 metra jafnþykktarlína - sú sem ritstjórinn kennir við ísöldina. Sú ísöld stendur þó aðeins rúma þrjá sólarhringa - sé að marka spá evrópureiknimiðstöðvarinnar í dag (föstudaginn 21. febrúar) - og verður hjá áður en loftið kemst suður að vötnunum miklu.

Þetta tekur á - og við það að meginkuldinn leitar sem ákafast suður á bóginn léttir af þrýstingnum á norðanáttinni meðfram Austur-Grænlandi og kuldinn hörfar frá okkur. Síðan greinir spár á um framhaldið - hvort annar fleygur fer suður með Grænlandi upp úr miðri viku - eða ekki.

Annars er það að frétta að meðalhiti það sem af er mánaðarins er 1,6 stig í Reykjavík 1,5 stigum ofan við meðallagið 1961 til 1990, en nákvæmlega í meðalagi síðustu tíu ára. Á 66 ára listanum er núlíðandi febrúar í 17. hlýjasta sæti í Reykjavík, en því 26. á Akureyri. Á 169-ára morgunhitalistanum í Stykkishólmi er febrúar það sem af er nú í 43. hlýjasta sætinu. Verður þetta að teljast góð staða miðað við alla norðaustanáttina. Ekkert lát sýnist á henni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Torfi Kristján Stefánsson

Fyrst Trausti klikkir hér út með hitatölur í lok pistilsins, vil ég benda á að í fyrra var meðalhitinn hér í Reykjavík fyrstu 20 daga mánaðarins 2,6 stig (og átti eftir að hækka það sem eftir var mánaðarins eða í 3,9 stig).

Þannig er hiti það sem af er febrúarmánaðar í ár heilli gráðu lægri en hann var á sama tíma í fyrra.

Því er lítil hætta á einhverju meti í ár, eða hækkandi hitatölum því spáð er kulda út mánuðinn.

Einnig má benda á að byrjunin á kuldaárinu í fyrra hér á suðvesturhorninu var eins og byrjunin á árinu 1965, sem var upphafið að kuldaskeiðinu sem ríkti í 30 ár eða svo.

Febrúar í ár minnir svo á febrúar 1966 hvað þurrka varðar. Það finnst mér merkileg tilviljun, sem kallar á vangaveltur um hvort við séum ekki að sigla inn í nýtt kuldaskeið.

Torfi Kristján Stefánsson, 22.2.2014 kl. 09:29

2 identicon

"Annars er það að frétta að meðalhiti það sem af er mánaðarins er 1,6 stig í Reykjavík 1,5 stigum ofan við meðallagið 1961 til 1990, en nákvæmlega í meðalagi síðustu tíu ára. Á 66 ára listanum er núlíðandi febrúar í 17. hlýjasta sæti í Reykjavík, en því 26. á Akureyri. Á 169-ára morgunhitalistanum í Stykkishólmi er febrúar það sem af er nú í 43. hlýjasta sætinu."(sic)

... og massíf kuldatíð framundan það sem eftir er febrúar! :)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 22.2.2014 kl. 10:12

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Já, og væri enn kaldara ef ekki væri fyrir blessuð gróðurhúsaáhrifin

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.2.2014 kl. 11:03

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Skelfilegur kuldi, þrátt fyrir hlýindi og ekkert nema enn skelfilegri kuldar framundan! Hvar endar þetta eiginilega?

Emil Hannes Valgeirsson, 22.2.2014 kl. 15:23

5 identicon

Gestapenninn getspaki úti á þekju í umræðunni :)

Árið 2013 var kaldasta árið á þessari öld á Islandi. Meðalhiti janúarmánaðar 2014 var lægri en janúar 2013 og nú stefnir í að meðalhiti febrúarmánaðar 2014 verði mun lægri en febrúar 2013!

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 22.2.2014 kl. 18:33

6 identicon

,,Já, og væri enn kaldara ef ekki væri fyrir blessuð gróðurhúsaáhrifin". Þvílíkt endemis bull! Langtíma hlýnun jarðar kemur einstöku, skammvinnu kuldakasti á Íslandi ekkert við.

Konráð Erlendsson (IP-tala skráð) 22.2.2014 kl. 20:27

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér sýnist að hér séu sumir með íroníu.

Sigurður Þór Guðjónsson, 22.2.2014 kl. 20:43

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Konráð, þú verður bara að kæra Gunnar fyrir gróðurhúsaguðlast. Kolefnakirkjan líður náttúrlega ekki svona helgispjöll. :D

Jón Steinar Ragnarsson, 22.2.2014 kl. 23:40

10 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ég held ég verði að taka undir með Gunnari, því ég er afskaplega þakklátur blessuðu gróðurhúsaáhrifunum.

Án þeirra væri nefnilega enginn okkar hér. Svo mikið er víst.


Ágúst H Bjarnason, 23.2.2014 kl. 23:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 111
  • Sl. viku: 1496
  • Frá upphafi: 2348741

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 1302
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband