Aðeins meira um hita ársins 2013

Á vef Veðurstofunnar má nú  finna bráðabirgðayfirlit  um meðalhita ársins 2013 á fáeinum veðurstöðvum. Þar er tafla sem sýnir vik hita á stöðvunum frá meðaltalinu 1961 til 1990. Hlýjast var að tiltölu á Dalatanga, 1,0 stigi ofan meðallagsins, en kaldast á Stórhöfða þar sem hitinn var aðeins 0,4 stigum ofan þess.

Við skulum nú stækka töfluna aðeins og líta líka á vikin miðað við síðustu 10 ár (2003 til 2012) og sömuleiðis tímabilið hlýja 1931 til 1960. Við leyfum okkur (vegna keppnismetings) að nota tvo aukastafi.

 

stöðhiti 2013m6190m0312m3160
Reykjavík4,920,61-0,61-0,02
Stykkishólmur4,420,91-0,400,24
Bolungarvík3,730,80-0,380,03
Akureyri4,010,77-0,430,08
Egilsstaðir3,800,86-0,15#
Dalatangi4,481,00-0,12#
Teigarhorn4,560,86-0,120,26
Höfn í Hornaf.5,090,55-0,23#
Stórhöfði5,220,41-0,65-0,20
Hveravellir -0,110,98-0,23#
Árnes4,210,64-0,460,09
meðalvik0,71-0,440,07
 

Í fyrsta dálki er meðalhiti ársins 2013, síðan koma vikin, fyrst miðað við 1961 til 1990, síðan 2003 til 2012 og loks 1931 til 1960. Hér sést auðvitað best hversu ofurhlýtt tímabilið 2003 til 2012 var miðað við bæði 30 ára tímabilin. Sömuleiðis kemur í ljós að 2013 er sjónarmun hlýrra heldur en meðaltal hlýja tímabilsins 1931 til 1960.

En hvað er þá langt síðan ár varð jafnkalt og það sem nú er að líða?

 

stöðkaldara en nú
Reykjavík2000
Stykkishólmur2005
Bolungarvík2011
Akureyri2005
Egilsstaðir2012
Dalatangi2012
Teigarhorn2012
Höfn í Hornaf.2008
Stórhöfði2000
Hveravellir 2005
Árnes2005

Árið 2013 var hlýrra en 2012 á Austurlandi, í Bolungarvík er það kaldasta ár frá 2011, frá 2008 á Höfn í Hornafirði, frá 2005 í Stykkishólmi, Akureyri, á Hveravöllum og í Árnesi. Í Reykjavík og á Stórhöfða var það kaldasta ár frá 2000.

Nú verður að taka fram að þetta (2013) eru óyfirfarnar tölur og bíðum við janúar 2014 til staðfestingar meðaltalanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sjónarmun kaldara en hlýskeiðið 1931-60 á þetta nú að vera en takk annars fyrir þessa úttekt.

Í raun sýnir hún, rétt eins og Trausti bendir á, hve árið 2003 (og jafnvel næstu ár á eftir einnig) er afbrigðilegt hvað hita varðar. Að mínu mati skekkir það alla útreikninga.

Þó er reyndin svo, eins og Trausti bendir á annars staðar, að 2003 til 2006 hafa samt sem áður aðeins verið jafnhlý og best gerðist á fyrra hlýindaskeiði (þ.e. á hlýindaskeiðinu eftir 1925).

Trausti hefur reyndar einnig bent á að hlýskeiðin eru ekki aðeins hlý heldur koma þar kaldari kaflar (rétt eins og það koma hlýir kaflar í kuldaskeiðin).

Hann vill t.d. skipta hlýindaskeiðinu á 20. öld upp í tvennt (eða þrennt) Hið fyrsta frá 1925 fram til 1942, blandaðri kafli hafi svo komið á árunum 1943 til 1952, en síðan hafi verið eindregið hlýtt aftur frá 1953 til 1964.

Hann skiptir einnig kuldaskeiðinu frá 1965 til 1986 upp í þrjú styttri tímabil, hafísárin svokölluðu 1965 til 1971, skárri ár 1972 til 1978 og síðan kuldaskeiðið 1979 til 1986. Síðan hefur hitinn legið upp á við, að vísu með smábakslagi á árunum 1992 til 1995 (sem er þá enn eitt kuldaskeiðið).

Sjá http://www.vedur.is/loftslag/loftslag/fra1800/hitafar/

Þetta sýnir okkur hve erfitt er að fá yfirsýn yfir þróun veðurfars þegar einblýnt er á stutt tímabil.

Það er meira að segja erfitt þótt um lengri tímabil sé að ræða.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 31.12.2013 kl. 07:23

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það má túlka málin á ýmsa vegu. Ef við skilgreinum árin 1931-1960 sem hlýtt tímabil á landinu, þá blasir við að árið 2013 hafi verið hlýtt ár, enda sjónarmun hlýrra en fyrrnefnt tímabil (+0,07°C).

Í Reykjavík er frávikið það lítið (-0,02°C) að ekki tekur því að tala um það. Munurinn gæti jafnvel orðið enn minni þegar búið er að reikna inn árið alveg til enda.

Kannski má þó segja að þetta ár hafi verið í meðallagi miðað við það sem búast má við með tilliti til hnattrænnar hlýnunnar.

Emil Hannes Valgeirsson, 31.12.2013 kl. 12:57

3 identicon

"Kannski má þó segja að þetta ár hafi verið í meðallagi miðað við það sem búast má við með tilliti til hnattrænnar hlýnunnar."(sic)

EHV víkur ekki út að hnatthlýnunarbrautinni frekar en venjulega :)

Við erum að tala um árið 2013, kaldasta árið á þessari öld, meðalhiti 3,9°C, 1,2°C kaldara en heitasta ár aldarinnar. Síðustu 10 mánuðir ársins allir undir meðallagi og hér að framan er greint frá því að meðalvik síðustu 10 ára er 0,71 m.v. 2013.

Og þetta ber að túlka samkv. heittrúarstefnunni "að þetta ár hafi verið í meðallagi miðað við það sem búast má við með tilliti til hnattrænnar hlýnunnar"!

Fyrir það fyrsta er engin hnatthlýnun í gangi EHV - hefur ekki verið sl. 15 - 16 ár. Í öðru lagi þá er Ísland að kólna, rétt eins og ég er búinn að reyna segja ykkur. Niðurstöður náttúrunnar eru óyggjandi - sættið ykkur við það.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 31.12.2013 kl. 13:28

4 identicon

ath. "meðalvik síðustu 10 ára er -0,44 m.v. 2013" átti þetta auðvitað að vera ;)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 31.12.2013 kl. 13:35

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Gaman af þessu Hilmar. Kaldasta árið á landinu á þessari öld er samt hlýrra en meðalhiti hlýja tímabilsins á síðustu öld. En þú vilt kannski meina að kalt hafi verið á landinu 1931-1960.

Og jújú það getur vel verið að það kólni eitthvað á landinu á næstu árum enda búið að vera afskaplega hlýtt frá aldamótum, sjáum bara til með það.

Emil Hannes Valgeirsson, 31.12.2013 kl. 13:58

6 identicon

"Kaldasta árið á landinu á þessari öld er samt hlýrra en meðalhiti hlýja tímabilsins á síðustu öld."(sic)

Hér ertu að tala um meðalvik upp á 0,07(!) og að auki vantar Hveravelli, Höfn í Hornafirði, Dalatanga og Egilstaði inn í breytuna (4 mælistaði af 11). Telst þetta ekki vera bitamunur en ekki fjár?

Allt um það EHV, samkvæmt þinni rökfræði erum við búin að ná fyrra hlýskeiðinu á síðustu öld. Í þá daga týndu menn sér ekki í óðahlýnunarspeglasjónum eða hugmyndum um alheimsreglu heittrúaðra - enda tók kuldaskeið svo við.

Gleðilegt og gæfuríkt ár félagi ;)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 31.12.2013 kl. 14:38

7 Smámynd: Ágúst H Bjarnason


Ég  óska ykkur gleðilegs árs og friðar með þakklæti fyrir samskiptin á árinu sem er að líða.

Trausta vil ég þakka fyrir einstaklega góða og óhlutdræga pistla.

Náttúrunni vil ég svo að lokum fá að þakka fyrir hve mild hún hefur verið við okkur undanfarna áratugi og veitt okkur góð sumur og snjólitla vetur án hafíss. Stundum hefur hún reyndar minnt á sig svona rétt til að láta okkur vita hver það er sem ræður, en henni fyrirgefst það að sjálfsögðu.

Gleðilegt ár! 


Ágúst H Bjarnason, 31.12.2013 kl. 14:55

8 identicon

Ég óska ykkur sem þetta lesa gleðilegs árs með þakklæti fyrir árið sem er að kveðja. Sérstaklega þakka ég þér Trausti fyrir allan fróðleikinn sem þú miðlar hér og gefur fólki innsýn inn í hinn flókna heim veðurfræðinar og það sem  er að gerast. Ásamt allri samantekt um veðurfar á landi okkar. Þetta ár sem er að líða er að mörgu leiti sérstakt. Gríðarleg snjóalög á Norðurlandi frá Skagafirði og austur um en hér á mínu svæði var ekkert slíkt. Til gamans má geta þess að það kom aldrei nothæft snjósleðafæri á Holtavörðuheiði í allan fyrravetur. Og núna er nánast enginn snjór hér í Hrútafirðinum. Um hvort skollin sé á óðahlínun eða komið kuldatímabil ætla ég ekki að tjá mig um núna nema  að mikið eru þetta ólík ár sem við erum að upplifa nú eða tímabilið frá 1965 til 2005.

Megi verða gott veðurfar á árinu 2014. 

Gunnar Sæmundsson (IP-tala skráð) 31.12.2013 kl. 22:10

9 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka hlý orð í minn garð.

Trausti Jónsson, 1.1.2014 kl. 02:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 985
  • Sl. sólarhring: 1099
  • Sl. viku: 3375
  • Frá upphafi: 2426407

Annað

  • Innlit í dag: 879
  • Innlit sl. viku: 3035
  • Gestir í dag: 859
  • IP-tölur í dag: 793

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband