Hrina lágmarkshitameta

Kuldakastið skilar af sér hrinu (mismerkilegra) lágmarkshitameta. Keppt er í ótal flokkum. Fyrst eru það dægurmetin. Þau koma oft við sögu í fréttum frá Bandaríkjunum - auðfengið fréttaefni í gúrkutíð.

Hér er spurt um lægsta hita sem mælst hefur á veðurstöð viðkomandi almanaksdag. 'Hver er lægsti hiti sem mælst hefur á veðurstöð 5. desember - mældist hann í dag? Líkur á slíku meti fara mest eftir því hversu lengi stöðin hefur starfað. Ef hún byrjaði á þessu ári (hefur aldrei mælt hita 5. desember fyrr en nú) er met auðvitað öruggt. Ef stöðin byrjaði í fyrra er líklegt að „met“ falli 50% allra daga annars árs stöðvarinnar. Hafi stöðin athugað í tíu ár er líklegt að 30 til 40 dægurmet falli á hverju ári. Séu árin hins vegar 100 er líklegt að aðeins 3 til 4 dægurmet falli á ári að jafnaði.

Dægurmetin falla ekki jafnt og þétt heldur falla fleiri lágmarksmet á kuldaskeiðum heldur en á hlýskeiðum. Það þýðir þó alls ekki að engin lágmarkshitamet falli á hlýskeiðum - langt frá því.

En urmull dægurmeta féll í dag. Þeir sem vilja geta litið á listann í viðhenginu. Þar er þó sleppt stöðvum sem athugað hafa skemur en í þrjú ár.

Það er merkilegt að samkvæmt listanum féllu dægurmet á 16 mönnuðum veðurstöðvum - góðum meirihluta núverandi stöðva. En listinn nær reyndar ekki nema aftur til 1949, en aðeins þrjár stöðvanna hafa athugað lengur en það. Í Reykjavík er þetta reyndar alvörudægurlágmarksmet - sem er nokkuð merkilegt. Gamla metið var orðið 112 ára gamalt, sett 1891. Dægurmet Akureyrar fyrir 5. desember er einmitt sett sama dag 1891. Það hefur verið kaldur dagur á landinu.

Næsta grein keppninnar er mánaðarmetið. Er lágmark dagsins það lægsta sem mælst hefur á stöðinni í desember? Listi yfir ný desemberlágmörk er líka í viðhenginu. Hér er nýjum stöðvum ekki sleppt og eru flest metin frá þeim stöðvum.

En þarna eru samt ný desembermet á stöðvum sem hafa athugað í meir en tíu ár. Þau helstu eru:

 

byrjarmetármándagurklstlágmarkNAFN
1995201312516-13,7Hafnarfjall
1997201312517-12,9Reykjavík
1997201312513-17,7Bláfjöll
1997201312519-19,5Hvanneyri
1997201312513-15,9Þrengsli
1997201312521-13,6Ögur
199720131256-9,6Steinar
1998201312515-13,7Hafnarmelar
1998201312518-13,7Hafnarmelar
1998201312519-21,2Húsafell
1998201312517-17,9Skálholt
1999201312516-16,1Hraunsmúli
2000201312515-12,8Reykjavíkurflugvöllur
2000201312516-20,3Litla-Skarð
2000201312511-14,9Sámsstaðir
2000201312517-12,8Reykjavík búveðurstöð
2000201312510-17,3Laxárdalsheiði

Þetta eru allt stöðvar á sunnan- og vestanverðu landinu. Frá Ögri á Vestfjörðum suður um að Steinum undir Eyjafjöllum. Þar á meðal eru þrjár Reykjavíkurstöðvar, tvær á Veðurstofutúni og ein á Reykjavíkurflugvelli. - En ekki mannaða stöðin í Reykjavík, hún á miklu lengri sögu. Lægsta lágmark sem mælst hefur í Reykjavík í desember er -18,7 stig. Það var á annan dag jóla 1880. Vonandi stendur það met sem lengst. Ein mönnuð stöð náði nýju desembermeti í dag, Stafholtsey (-21,0 stig) þar hefur verið athugað frá 1988.

Nú má vera að slatti af desembermetum falli á morgun (föstudag 6. desember) - þessi listi lifir ekki lengi. Ætli Norðausturland taki ekki við sér þegar lægir þar og léttir til.

En við lítum á eina keppnisgrein í viðbót. Desember er aðeins einn vetrarmánaða. Þar með er líklegt að ársmet stöðvanna leynist í öðrum mánuðum. En tókst kuldanum í dag að hirða einhver ársmet?

Reyndar, en aðeins tvær stöðvar stöðvar sem byrjuðu athuganir á síðustu öld. Báðar í eigu Vegagerðarinnar. Þetta eru Hraunsmúli í Staðarsveit og Laxárdalsheiði.

 

metármándagurklstlágmarkNAFN
1999201312516-16,1Hraunsmúli
2000201312510-17,3Laxárdalsheiði

Hámarkshiti dagsins á landinu var aðeins -4,4 stig. Þetta er óvenjulágt. Það gerðist aðeins einu sinni í allan fyrravetur að hámarkshiti dagsins á landinu var undir frostmarki. Mest frost mældist á Kolku, -24,7 stig. Það er jafnlágt og lægst hefur áður mælst þennan dag á landinu. Meðalhiti í byggð var -10,7 stig - það er líka óvenjulágur meðalhiti - en ekki met. Við könnum þau mál betur síðar.

Meirihluti veðurstöðva átti lægsta hita ársins til þessa í dag.

Það er nokkuð vel af sér vikið hjá kuldakasti dagsins að ná þessum árangri.

Langoftast er hiti ofan frostmarks á hafinu rétt sunnan við land. Það er þess vegna fremur óvenjulegt að sjá hitakort eins og það hér að neðan.

w-blogg061213a 

Frost er á öllu þessu korti. Það er úr fórum harmonie-líkansins, sýnir hita í 2 metra hæð og gildir kl. 23 nú í kvöld (fimmtudag).

Kuldinn mun streitast á móti nýjum lægðum sem nálgast landið síðdegis á föstudag og um helgina. Fyrsta lægðin á að beygja af til austurs undan kuldanum en sú næsta á að verða ágengari. Baráttu hennar og kalda loftsins má greinilega sjá á þversniðinu hér að neðan. Það gildir kl. 7 að morgni laugardags og er ekki fyrir óvana.

w-blogg061213b 

Legu sniðsins má sjá á litla kortinu í efra hægra horni (myndin batnar við stækkun). Heildregnar línur sýna mættishita í Kelvinstigum. Kalt loft er yfir landinu. Litirnir sýna hér vindhraða í m/s. Við sjáum mikinn vindstreng lengst til vinstri (syðst í sniðinu). Undir honum má sjá að jafnmættishitalínur eru nokkuð lóðréttar. Kalt er til vinstri við þær en hlýrra til hægri. Við sjáum hér stíflu sem kalda loftið myndar gagnvart því hlýja (sem lengst er til vinstri). Hún magnar upp mikla austanátt. Vindurinn nær þó ekki langt upp á land. Sömuleiðis er mikill vindur uppi við veðrahvörfin (efst í hægra horni) en þau má kenna af þéttum jafnmættishitalínum.  Áhugasamir eru hvattir til þess að rýna í myndina.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Þetta er mjög skemmtileg og fróðleg lesning hjá þér Trausti minn.

 Enn afskaplega finnst mér lítið gert úr tölum frá fyrrverandi mönnuðum veðurstöðvum með þessum listum. Er ekki hægt að flokka einn lista með fyrrverandi mönnuðum stöðvum sem verða svo að sjálfvirkum stöðvum?

Pálmi Freyr Óskarsson, 6.12.2013 kl. 02:50

2 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Æ fyrirgefðu.....ég held að sé einhvað að rugla þarna í seinni hluta athugunarsemdar. Kannski er best að fara að sofa.

Pálmi Freyr Óskarsson, 6.12.2013 kl. 02:59

3 identicon

Góð samantekt Trausti. Ánægjulegt að a.m.k. einn starfsmaður Veðurstofu Íslands sé meðvitaður um þær hættur sem felast í kuldaköstum og kólnandi veðurfari.

Leyfi mér að einfalda þessa samantekt fyrir hitakæru örverurnar:

"... samkvæmt listanum féllu dægurmet á 16 mönnuðum veðurstöðvum - góðum meirihluta núverandi stöðva. En listinn nær reyndar ekki nema aftur til 1949, en aðeins þrjár stöðvanna hafa athugað lengur en það. Í Reykjavík er þetta reyndar alvörudægurlágmarksmet - sem er nokkuð merkilegt."

"Hámarkshiti dagsins á landinu var aðeins -4,4 stig. Þetta er óvenjulágt. Það gerðist aðeins einu sinni í allan fyrravetur að hámarkshiti dagsins á landinu var undir frostmarki. Mest frost mældist á Kolku, -24,7 stig. Það er jafnlágt og lægst hefur áður mælst þennan dag á landinu. Meðalhiti í byggð var -10,7 stig - það er líka óvenjulágur meðalhiti ..."

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 6.12.2013 kl. 06:56

4 identicon

Já, það fer kólnandi! Og hlýnunin sem var verið að spá um helgina er orðin að engu sem heitir getur.

Annars verð ég að geta veðurfréttamannsins sem spáði um 25 stiga frosti um nær allt land. Sem betur fer rættist það ekki.

En í ljósi þess að svo mikið frost hefur aldrei nokkurn tímann mælst á landinu, þá finnst mér það ámælisvert að veðurfræðingur sem kemur með svona spá í sjónvarpi allra landsmanna sé látinn sleppa frá því án nokkurra athugasemda frá Veðurstofunni.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann spáir einhverjum hamförum sem verður svo ekkert úr.

Ef þetta heldur svona áfram án nokkurra viðbragða frá stofnuninni þá hættir fólk algjörlega að taka mark á Veðurstofunni.

Það gæti auðvitað endað með ósköpum.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 6.12.2013 kl. 10:01

5 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Svona frost hefur sínar jákvæðu hliðar. 

Skógræktarmenn á fasbók eru kampakátir því líklega hefur sitkalúsin drepist. 

En blessaður glókollurinn lifir á sitkalús, og hvað verður um þessi litlu grey?

Hver veit nema minna verði um skordýraplágur næsta sumar en var í ár.

Ágúst H Bjarnason, 6.12.2013 kl. 16:32

6 identicon

Kannski að spá Páls Bergþórssonar um að nýtt kuldaskeið sé byrjað eða í nánd, sé að rætast? Alla vega mjög einkennilegt að kuldametin séu hrannast upp á miðju hlýskeiði....

Hér er mjög góð hrun um þessi kulda- og hlýskeið: http://news.bbc.co.uk/2/hi/7376301.stm

Hermundur Sigurdsson (IP-tala skráð) 6.12.2013 kl. 18:29

7 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Undur og stórmerki eru að að gerast kuldadeildinni. Nú er hátíð í bæ hjá kólnunarsinnunum Hilmari, Torfa og Hermundi.

Pálmi Freyr Óskarsson, 6.12.2013 kl. 21:19

8 identicon

Já, einmitt. Þessi grein hjá BBC er ágæt og sýnir vel hvernig af mannavöldum-hlýnunarsinnarnir hafa þurft að endurskoða fræði sín að undanförnu.

Hlýnunarpásan sem hefur staðið yfir núna um 15 ára skeið virðist ætla að standa mun lengur yfir og sé jafnvel orðin að kuldakasti sem standa muni fram að 2020. Þetta sýna sem sé nýjustu rannsóknir á Gólfstraumnum m.a.

Og miðillinn sem flytur þessar fréttir er ekki vonda Daily Mail, í augum hlýnunarsinna, heldur sjálft höfuðdjásn Bretanna.

Það er eins og þessi hlýnunarfræði gangi fyrst og fremst út á að snapa sér styrki (eins og við verðum vitni að daglega í fréttum hér heima um "vísindasamfélagið").

Viðtalið við bandaríska prófessorinn í fréttinni hjá BBC er einmitt þess eðlis. Leggja verður meira fé í rannsóknir á hafstraumum og á hafinu sem slíku í kjölfar þessarar nýju rannsóknar!

Já, skyldi vera að peningarplokkið sé það sem mestu ræður um niðurstöðurnar í þessum fræðum (sem og öðrum)?

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 6.12.2013 kl. 22:08

9 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Þessir efasemdakjánar og afneitunarsinnar...

https://www.youtube.com/watch?v=Uif1NwcUgMU

Ágúst H Bjarnason, 6.12.2013 kl. 22:52

10 Smámynd: Torfi Kristján Stefánsson

Skemmtilegt myndband!

Benda má á til stuðnings skoðunum afneitunarsinnanna - og myndbandinu - að við lifum enn á ísaldartímabili, samkvæmt skilgreiningu náttúrufræðinnar. Tíminn sem við lifum núna er aðeins hluti af hlýskeiði innan þessarar ísaldar, hlýskeiði sem hefur staðið frá því um 11.700 f. Kr. og er núverandi hlýnunarskeið alls ekki hlýjasti hluti þess.

Torfi Kristján Stefánsson, 7.12.2013 kl. 08:25

11 identicon

Samkvæmt mælingum hefur meðalheimshiti hækkað um 0,75° frá því um 1870-80. Það er frá lokum litlu ísaldarinnar. En litla ísöldin var kaldasta tímabíl hólosen. Ef við miðum við holocene maximum tímabilið þá er meðalhiti í dag 1-2 gráðum lægri en þá. Þrátt fyrir að magn Co2 í andrúmsloftinu hafi verið um 280 ppm þá. Einnig var Ísland nær jöklalaust á þeim tíma og s-Grænland sennilega íslaust líka. En hvað getur valdið þessum mikla mun á loftslagi þá og nú? Svarið er nátturulega Sólin ! 8% meiri geislun sólar á norðurslóðum eða um (+40 W/m2. Þetta skýrir líka litlu Ísöldina...

Hermundur Sigurdsson (IP-tala skráð) 7.12.2013 kl. 20:55

12 identicon

Í myndbandinu sem Ágúst H. Bjarnason hlekkjar á er meðalhita jarðar skeytt saman við hitaröð frá einum stað á jörðinni, sem virðist vera hábunga Grænlandsjökuls. Það má hlæja að þessu, en kennski ekki alveg af sömu ástæðu og höfundurinn ætlast til!

Jón Erlingur Jónsson (IP-tala skráð) 8.12.2013 kl. 23:31

13 identicon

Hermundur: Meiri inngeislun á norðurslóðum á fyrri hluta hlýskeiðsins stafaði af a) meiri möndulhalla, b) sólnánd var en ekki í janúar eins og nú er.

Meiri möndulhalli þýddi að heimskautsbaugur lá sunnar en hann gerir nú og sólin fór aðeins hærra á loft yfir hásumarið. Fyrir 11.200 árum var jörðin næst sólu í byrjun júlí ár hvert, og því bættust nokkur prósent við inngeislun yfir hásumarið.

Þú skrifar: "Svarið er náttúrulega sólin" - sem gæti valdið misskilningi, því þetta hafði ekkert með sólarvirkni að gera. Sólarvirkni er líka breytileg, en það er önnur saga.

Jón Erlingur Jónsson (IP-tala skráð) 9.12.2013 kl. 23:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 96
  • Sl. sólarhring: 290
  • Sl. viku: 2418
  • Frá upphafi: 2413852

Annað

  • Innlit í dag: 92
  • Innlit sl. viku: 2233
  • Gestir í dag: 89
  • IP-tölur í dag: 89

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband