Hringlandi spár (enn og aftur)

Hungurdiskar fjalla að jafnaði lítið um spár meir en einn til tvo daga fram í tíma - en nú birtist ágætt dæmi um mjög misvísandi 4 daga spár. Rétt að líta á það.

Fyrsta kortið er sjaldan sýnt. Það sýnir hæð 400 hPa-flatarins, form hans, lægðir og hæðir eru svo líkar 500 hPa-fletinum að ástæðulítið er að hanga yfir honum. En á kortinu hér að neðan má auk hæðar flatarins einnig sjá svonefnda mættisiðu í fletinum. Við skulum ekki hafa áhyggjur af því hvað það í ósköpunum er - en hér notum við það til að sjá legu snarpra háloftalægðardraga og krappra lægða í sjónhendingu.

w-blogg201013a

Í pistli gærdagsins var fjallað um tvö lægðardrög á leið suðaustur um Grænland. Þau sjást mjög vel á þessu korti sem gildir um hádegi á þriðjudag (22. október). Það fyrra er þá yfir Vesturlandi en það seinna - og öflugra er rétt að komast yfir Grænland á leið til okkar.

Það er þetta seinna lægðardrag sem virðist vera sérlega erfitt fyrir spárnar í framhaldinu. Lítum nú á tvö 500 hPa hæðar- og þykktarkort sem gilda um hádegi á miðvikudag - sólarhring eftir kortinu hér að ofan.

w-blogg201013b

Kortið til vinstri sýnir reikninga evrópureiknimiðstöðvarinnar. Þar má sjá lægðardragið orðið að mjög krappri háloftalægð skammt undan Suðurlandi, miðjuhæð hennar er 5090 metrar. Svarta örin markar stefnuna. Rauðar strikalínur sýna þykktina. Fleygur af köldu lofti (minna en 5220 metra þykkt) liggur til austurs rétt suðvestur af landinu. Lægðinni hefur tekist að ná í hlýtt loft sem á kortinu stefnir til vesturs yfir Norðurland, býsna hlýtt með þykktina 5400 metra skammt undan Norðausturlandi.

Jafnþykktarlínurnar liggja samsíða í stafla yfir Norðurlandi - alveg hornrétt á jafnhæðarlínurnar. Þetta lítur ekki vel út. Þykktarmunur á Vestfjörðum og Norðausturlandi (þykktarbrattinn) er um 180 metrar - það samsvarar 22 hPa í sjávarmálsþrýstingi. Við látum lesendum eftir að breyta því í vind.

En - kortið til hægri sýnir reikninga bandarísku veðurstofunnar fyrir sama tíma. Hér er lægðardragið bara lægðardrag - kannski er um 5210 metra lægð við Suðvesturland. Alla vega munar hér 120 metrum á dýpt lægðarinnar í spánum tveimur - það er um 15 hPa. Lægðardraginu hefur ekki tekist að ná í neitt hlýtt loft - vægt kalt aðstreymi er ríkjandi á svæðinu. Þykktin við Miðnorðurland er um 5160 metrar - en er um 5320 metrar í hinni spánni. Hér munar 160 metrum, það eru um 8°C. Býsna mikið. Undir þessu 500 hPa-veðri er þó norðaustanátt - ekki þó svo mjög hvöss.

Ekki er nóg með að reiknimiðstöðvarinnar tvær séu ósammála heldur er evrópureiknimiðstöðin hrikalega ósammála sjálfri sér 12 klukkustundum áður. Við sjáum það á kortinu hér að neðan. Það sýnir sjávarmálsþrýsting á miðvikudagskvöld (heildregnar línur) og mismun spárunanna tveggja (á miðnætti og hádegi 19. október) í lit.

w-blogg201013c

Græna örin bendir á stað þar sem þrýstingur í hádegisspánni er 31,7 hPa lægri heldur en í næstu spárunu á undan. Ekki traustvekjandi það.

En hvað verður svo? Allar spár virðast sammála um að norðanátt verði á miðvikudaginn og að sennilega verði hún leiðinlega hvöss. Trúlega slaknar eitthvað á evrópureiknimiðstöðinni aftur - eftir reglunni almennu um að taka eigi óvæntum og öfgakenndum spám af mikilli varúð - en fyrir 36 tímum var hún reyndar að spá austanhríðarveðri á Suðvesturlandi á miðvikudaginn - hætti svo snarlega við það - bauð svo upp á .... Hver verður matseðill miðvikudagsins á morgun?

Munið það að alvöruspár má finna á vef Veðurstofunnar og í almennum veðurfréttum. Hungurdiskar spá engu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þetta endar sennilega í risa-heimskautafellibyl eins og í myndinni "The Day After Tomorrow" og svo ísöld í framhaldinu.

Emil Hannes Valgeirsson, 20.10.2013 kl. 02:04

2 identicon

Þetta hringlandi spáblogg er órækur vitnisburður um að færustu veðurstofur heims geta ekki spáð fyrir um þróun veðurs lengra en 10 daga fram í tímann, með einhverri vissu.

Þrátt fyrir þessa staðreynd stendur ekki á spámönnum Veðurstofu Íslands að spá allt að 6°C hitaaukningu á ársgrundvelli á þessari öld!

Þær eru margar "alvöruspárnar" :)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 20.10.2013 kl. 09:22

3 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Þessi mikla veðurspáóvissa núna er ekki daglegt brauð Hilmar, og þess vegna eru þessar ásakarnir þínar á veðurfræðinga frekar ósanngjarnar.

Pálmi Freyr Óskarsson, 20.10.2013 kl. 18:54

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Að bera saman veðurfar frá degi til dags og hlýnandi loftslag vegna breytinga í samsetningu lofthjúps er eins og að bera saman epli og appelsínur. En allavega, alltaf fróðlegt að fylgjast með veðurpælingum hér (þó engar veðurspár séu gerðar).

Sveinn Atli Gunnarsson, 20.10.2013 kl. 20:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1034
  • Sl. sólarhring: 1115
  • Sl. viku: 3424
  • Frá upphafi: 2426456

Annað

  • Innlit í dag: 922
  • Innlit sl. viku: 3078
  • Gestir í dag: 895
  • IP-tölur í dag: 828

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband