Þá og nú - septembernorðanveðrin 2012 og 2013

Norðanillviðrið sem gengið hefur yfir undanfarna daga rifjar upp illviðri ársins í fyrra. Þá urðu eins og menn muna miklir fjárskaðar og línuskemmdir. Vonandi er að skaðarnir í veðrinu í ár hafi orðið minni en í fyrra - enda höfðu menn trúlega meiri vara á. En voru þetta lík veður - að öllu tjóni slepptu? Hér verður brugðið ljósi á nokkur atriði. Við lítum á vind og hita - yfir landið allt. Úrkomusamanburður verður að bíða betri tíma, en þó má nefna að í báðum veðrunum snjóaði niður í byggðir inn til landsins norðaustanlands.

Lítum fyrst á meðalvindhraða á landinu á klukkustundarfresti um þriggja sólarhringa skeið frá upphafi veðranna.

w-blogg180913a

Blái ferillinn á þessari mynd og þeim sem eftir fylgja á við illviðrið á þessu ári en sá rauði á við veðrið í fyrra. Blái ferillinn byrjar kl.1 aðfaranótt 15. september 2013 - en sá rauði kl. 1 á aðfaranótt 9. september 2012. Við gætum hliðrað ferlunum um 10 klst þannig að upphaf veðranna félli saman en þá kæmi í ljós að veðrið í ár stóð um hálfum sólarhring lengur en það í fyrra.

Í veðrinu í ár náði meðalvindhraðinn hámarki um kl. 21 þann 15. og var þá um 15,4 m/s. Í almennum illviðrasamanburði telst þetta mikið, þótt verstu vetrarveður fari að vísu ívið ofar. Í veðrinu í fyrra var hámark meðalvindhraðans um 14,7 m/s það var þann 10. september kl.14. Veðrið í ár entist aðeins lengur og gerði smá aukahnykk í kringum og upp úr hádegi þann 17.

w-blogg180913d

Þessi mynd sýnir nokkurn veginn það sama og sú fyrri en lóðrétti kvarðinn segir til um það hlutfall allra stöðva þar sem vindhraði var meiri en 17 m/s og er í prósentum. Í veðrinu í ár náði hlutfallið rétt rúmlega 50 prósentum. Það er mikið. Í veðrinu í fyrra komst hlutfallið í 44 prósent. Austasti hluti landsins slapp betur í fyrra heldur en nú og má vera að það valdi muninum.

w-blogg180913c

Hér má sjá meðalvigurvindátt á landinu. Hún giskar oftast vel á meðalvindátt - sérstaklega þegar vindur er stríður. Lóðrétti ásinn sýnir áttavitagráður, núll táknar norður, sé áttin pósitíf er vindáttin austan við norður, en sé hún negatíf er áttin vestan norðurs - eins og sjá má til hægri á myndinni.

Hér kemur fram nokkur munur á veðrunum. Veðrið í fyrra (2012) byrjar í austnorðaustri (en þá var vindur hægur) en snýst smám saman til norðurs og að lokum í norðnorðvestur en sjá má að sú vindátt er ríkjandi þegar veðrið er hvað mest. Veðrið í ár (2013) er hins vegar nær því að vera af sömu átt allan tímann. Þegar það er verst er vindáttin einnig af norðnorðvestri eins og í fyrra.

w-blogg180913b

Þessi mynd sýnir meðalhita á landinu (hálendi með). Í veðrinu í ár (blái ferillinn) er greinileg dægusveifla alla dagana - en ekki er hún stór. Veðrið í fyrra (rauði ferillinn) er öðru vísi, þar er myndarleg dægursveifla fyrsta daginn (enda veðrið rétt að byrja) og nokkur sveifla síðasta daginn en þó ekki eins stór. Miðdaginn - þegar veðrið var verst er dægursveiflan nær alveg bæld niður. Lítið hefur verið um sólskin á landinu þann dag og úrkoma þar að auki dregið úr dægursveiflunni.

Loftþrýstingur var ívið lægri í nýliðnu veðri heldur en því í fyrra (ekki sýnt hér). Þegar upp er staðið verður að telja þessi veður furðulík.

Áhugasömum lesendum er bent á viðhengi þessa pistils til frekari glöggvunar á veðrunum tveimur. Þar má í pdf-skjali sjá þrjú veðurkort fyrir hvort veðranna, nokkuð hefðbundið sjávarmálskort, 500 hPa hæðar- og þykktarkort auk korts sem sýnir svokallaðan þykktarvind en hann er góður mælikvarði á hitabratta neðan til í veðrahvolfinu. Vindar í 500 hPa gefa auk þykktarvindsins góða hugmynd um eðli veðursins. Lesendum skjalsins er bent á að stækka myndirnar - þær þola talsverða stækkun og verða skýringartextar og litakvarðar þá auðlesnari.

Kortasamanburðurinn gefur svipaða niðurstöðu og línuritin hér að ofan - þetta eru furðulík veður.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.1.): 39
  • Sl. sólarhring: 1130
  • Sl. viku: 2710
  • Frá upphafi: 2426567

Annað

  • Innlit í dag: 37
  • Innlit sl. viku: 2414
  • Gestir í dag: 37
  • IP-tölur í dag: 37

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband