Engin efnisleg breyting

Engin efnisleg breyting verður næstu daga á ferðum veðurkerfa í námunda við landið. Lægðirnar rúlla hjá og náðarsamlegast kemur stöku sinnum einn bjartur dagur á milli. Jú, hlýir dagar skjótast inn í syrpuna við og við fyrir norðan. En lítum á norðurhvelskort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18 á þriðjudaginn 16. júlí.

w-blogg150713

Á kortinu má sjá mestallt norðurhvel norðan 30. breiddarbaugs og lengra suður í hornunum. Að venju eru jafnhæðarlínur svartar og heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Þykktinni er lýst með litum. Kvarðinn batnar mjög sé kortið stækkað. Þykktin segir til um hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið.

Ísland er rétt ofan við miðja mynd. Háloftalægð er í þann mund að fara yfir landið og önnur, norðaustur af Nýfundnalandi, bíður eftir að komast að. Sumar spár gera ráð fyrir því að smáhlé verði milli lægða og úrkomu á miðvikudaginn - en við segjum sem minnst um það.

Lægðin við Nýfundnaland fer reyndar hægar yfir heldur en sú fyrri og virðist eiga að ná í meira af hlýju lofti, kannski svipað og var á dögunum þegar hitinn komst í rúm 26 stig á Egilsstöðum. Það gæti endurtekið sig á fimmtudag eða föstudag. Við bíðum spennt eftir nánari fréttum af því.

Grænu litirnir eru þeir köldustu á kortinu fyrir utan einn smáan bláan blett í miðjum kuldapollinum sem er austur af Svalbarða. Hann rúllar einhverja hringi um Íshafið. Það má taka eftir því að grænu litirnir eru útbreiddari okkar megin á hvelinu heldur en hinum megin. Alaska og Síbería eru nærri grænlitalaus umvafin gula sumarlitnum.

Það virðist ganga illa að hnika þessu ástandi til. Yfir botni Persaflóa má sjá hvítan blett. Þar er þykktin svo mikil að hún sprengir kvarðann - en hann nær upp í 6000 metra. Hugsanlegt er að líkanið skjóti hér aðeins of hátt - það kemur í ljós á þriðjudaginn.

Vestanverð Evrópa er á þykktarbilinu 5580 og rétt upp fyrir 5640 metra. Þetta er sérlega hagstætt - blíðuveður með dagshita á bilinu 22 til 28 stig - á stöku stað getur hann skotist upp fyrir 30. Þegar þykktin fer að vera yfir 5640 og nálgast 5700 fer hitinn að verða óþægilegur. Það er fyrst suður á miðjum Spáni sem við náum í 5700 metra, en þar eru menn vanir þessu. Þetta ástand á lítið að breytast næstu daga.

Háloftahæð er yfir Bandaríkjunum. Þar er þykktin fyrir ofan 5760 metrum á löngu belti sem liggur frá vestri til austurs. Evrópa myndi kveina hástöfum yfir svona hita en vestra eru menn vanir sumarhitanum - en þetta má ekki verða mikið hlýrra en þetta. Þá fara þeir líka að kveina - og ekki af ástæðulausu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg120525a
  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.5.): 510
  • Sl. sólarhring: 628
  • Sl. viku: 2083
  • Frá upphafi: 2466643

Annað

  • Innlit í dag: 474
  • Innlit sl. viku: 1914
  • Gestir í dag: 459
  • IP-tölur í dag: 444

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband