Af sumardagatalningum

Almannarómur segir sumardaga hafa verið fáa suðvestanlands það sem af er júnímánuði. Við skulum gefa okkur að það sé rétt og skilgreinum sumardag því þannig að enginn dagur fram til þessa 2013 teljist slíkur. Það tók reyndar ekki langan tíma að finna skilgreiningu. Hún er útlistuð hér að neðan. Varla þarf að taka fram að ekki má taka niðurstöðum of bókstaflega.

Við lítum á daglegar athuganir í Reykjavík klukkan 12, 15, 18 og 21. Þetta er algengur grilltími, en tekur ekki til morgunathafna - enda segjast menn þá vera svo hressir að veðrið skipti engu máli. Við viljum að það sé alveg úrkomulaust að minnsta kosti þrjá af þessum athugunartímum, við setjum okkur líka fyrir að úrkoma frá 9 til 18 mælist minni en 2 mm. Þetta þýðir að við leyfum skammvinna smáskúr. Við viljum líka að ekki sé alskýjað á öllum athugunartímunum fjórum - en erum að öðru leyti ekki kröfuhörð á sólina. Að lokum viljum við að meðalhiti athugunartímanna fjögurra sé að minnsta kosti 13,1 stig - eða að hámarkshitinn kl. 18 sé meiri en 15 stig.

Menn getur auðvitað greint á um það hversu skynsamleg skilgreining þetta er en athugum hvað talning sem nær yfir árin frá og með 1949 til og með 2012 sýnir á mynd.

w-blogg200613a

Já, þetta er svona í raun og veru. Sumrin 2010, 2011 og 2012 eru langefst á listanum, sjónarmun ofar en sumarið 2003 sem er í fjórða sæti. Eina sumarið sem nær yfir 35 daga fyrir 2003 er 1958, en þá voru reyndar 11 sumardagar í september - það mesta á öllu tímabilinu. Einnig taldist 1. október til sumardaga það ár. Í frækilegu neðsta sæti er auðvitað sumarið 1983 - margfrægt fyrir sérleg ömurlegheit - gaman þó (eftirá) að hafa upplifað það. Einn dagur það árið - ekki þó alveg sumarlaust. Nokkur sumur önnur eru litlu betri.

Meðalsumardagafjöldi áranna 1961 til 1990 er aðeins 13 dagar, en meðaltal síðustu 10 ára er 39 dagar - þrefalt á við „hið venjulega ástand“. Geta menn nú kviðið fyrir afturhvarfinu.

Það hefur alloft gerst að enginn sumardagur hefur látið sjá sig þann 20. júní, tuttugu sinnum á 64 ára tímabilinu - nærri þriðja hvert ár að jafnaði. Biðin í ár er því langt í frá vonlaus. Lengst var biðin eftir fyrsta sumardeginum árið 1989 - beðið var til 31. júlí, fjórir urðu þeir alls það sumarið.

Við skulum líka líta á ástandið á Akureyri. Á þeim lista má reyndar sjá daga í mars, apríl, nóvember og 1 dag í desember. Þessir aukadagar eru svo fáir að þeir hafa lítil áhrif á talninguna (en fá að vera með).

w-blogg200613b

Við sjáum hér að tíminn frá 1995 til okkar daga er vel yfir eldra meðallagi. Síðustu tíu ár gáfu að meðaltali 48 sumardaga (9 fleiri en í Reykjavík), en á tímabilinu 1961 til 1990 var fjöldinn að meðaltali 37 dagar - 24 dögum fleiri en í Reykjavík á sama tímabili. Reykjavík hefur því mjög halað á Akureyri hvað sem svo síðar verður.

Sumarið 1979 á fæsta sumardaga á tímabilinu og 1993 litlu fleiri. Flesta daga á sumarið 1955 en það er eitt frægasta rigningasumar sögunnar á Suðurlandi (ekki nærri því eins kalt þó og 1983). Næstflestir voru sumardagarnir á Akureyri 1976 og svo er 2004 í þriðja sæti.

Mestur munur á sumardagafjölda í Reykjavík og á Akureyri er 53 - þannig var það sumarið 1955. Sumardagarinir eru nærri því alltaf fleiri fyrir norðan heldur en í Reykjavík, þó hefur það þrisvar snúist við. Það var 1950, 1958 og 2011. Á Akureyrarmyndinni sést að árabilið 1975 til 1978 var sérlega sumardagagæft á Akureyri, meðaltalið var þá 50 á ári (svipað og síðustu 10 árin). Þessi ár voru sumardagarnir í Reykjavík í meðaltali (1961 til 1990).

Eins og fram kom í upphafi má ekki taka þessum talningum of alvarlega - þetta er til gamans gert. Ekki ætti að nota niðurstöðurnar sem rökstuðning fyrir einu né neinu og mun ritstjórinn ekki taka undir slíkt.

Pistlar hungurdiska verða eitthvað færri á næstunni heldur en vant er sökum sumarleyfa - en falla þó ekki alveg niður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við Íslendingar erum auðvitað með sérstöðu hvað aðrar þjóðir varðar. Við erum best allra þjóða og mest.

Þetta með sumarið er gott dæmi um það. Þegar Norðurlandabúar tala um þrjá sumarmánuði (júní, júlí og ágúst) þá er sumarið löngu byrjað hjá okkur (rétt eins og Kristín Hermannsdóttir ítrekaði í viðtali í gær). Það byrjar í apríl (á sumardaginn fyrsta) og líkur ekki fyrr en í október!

Annað hugtak að utan er artic, þ.e. heimskautaloftslag. Það skilgreinist með 10 gráðu meðalhita yfir sumarmánuðina ef ég man rétt.

Og ef ég hef tekið rétt eftir er meðalhitinn það sem af er þessa fyrsta sumarmánaðar (samkvæmt skilgreiningum Skandinava sem byrjaði 1. júní), vel undir 10 gráðum hér í Reykjavík.

Þannig hefur ríkt heimskautaloftslag það sem af er júní hér á höfuðborgarsvæðinu.

Er það nú ekki eðlilegri viðmiðun og meira upplýsandi í stað þessa leikjar með 15 gráðurnar og meira, yfir hlýjasta tíma dagsins?

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 20.6.2013 kl. 08:59

2 identicon

Þakkir Trausti fyrir skemmtilega samantekt, en þér til upplýsingar erum við að upplifa "sumarið" 2013. Það er varla hægt að reka kolefnistrúboð á fornri óðahlýnun, eða hvað? ;)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 20.6.2013 kl. 10:10

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

''Heimskautaloftslag'', meðalhiti undir 10 stigum, er lang oftast í Reykjavík í júní á mánaðargrundvelli. Það er hið ríkjandi og ''eðlilega'' ástand. Annað eru heiðarlegar undantekningar. Meðalhitinn núna í Reykjavík er 9,8 stig, 0,1° undir meðalltali sömu daga á þessari öld sem er mjög afbrigðileg hvað háan hita í júní snertir í Reykjavík. Meðalhtinn þessa daga 1981-2000 er 8,6°. Það er enginn kuldi ríkjandi í Reykajvvík í þessum júní þrátt fyrir sólarleysi og skort á sumardögum eftir þessari skemmtilegu skilgreiningu Trausta. Og mikið man ég svo vel eftir gæðasumrinu 1958 þó ég væri miður mín yfir því að búið var að kalla Elvis í herinn!  Um haustið gerði Lóa litla á Brú allt vitlaust og menn sungu Nú liggur vel á mér.

Sigurður Þór Guðjónsson, 20.6.2013 kl. 12:26

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Torfi. Ef mig minnir rétt er heimskautaloftslag skilgreint þar sem meðalhiti 30 ára í hlýjasta mánuði ársins nær ekki 10 stigum - sá mánuður er á Íslandi nærri því allstaðar júlí, en ágúst laumast upp að hlið hans á annesjum á Norðaustur- og Austurlandi. Hiti í júnímánuði einstakra ára kemur ekki við sögu hér. Staðbundinn meðalhiti 30 ára er hins vegar mjög breytilegur hér á landi - þannig að línan á milli heimskautaloftslags og úthafsloftslags er aldrei föst - og varla að Köppen og félagar hafi ætlast til þess að hún gengi í gegnum einhverja fasta punkta. Sigurður bendir á að þessi meinti kaldi núlíðandi mánður sé þrátt fyrir allt alllangt ofan við meðalhita júnímánaðar.

Trausti Jónsson, 21.6.2013 kl. 01:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1014
  • Sl. sólarhring: 1110
  • Sl. viku: 3404
  • Frá upphafi: 2426436

Annað

  • Innlit í dag: 903
  • Innlit sl. viku: 3059
  • Gestir í dag: 879
  • IP-tölur í dag: 813

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband