Sunnanátt

Í kvöld (miðvikudag 22. maí) hefur blikubakki verið að fikra sig upp eftir vesturloftinu - einn af  mörgum í þessum mánuði. Flestir hafa þeir þó látið undan síga og ýmist eyðst á staðnum eða farið til suðausturs fyrir sunnan land. Þrátt fyrir að blikurnar hafi verið margir hafa aukasólir eða baugar verið lítið áberandi - svo lítið raunar að líklega hafa þetta verið dropaský í flestum tilvikum en ekki ískristallar.

Og strangt tekið heita dropabakkar gráblikur. Munurinn á bliku og grábliku er einmitt sá að sú fyrrnefnda er úr ís en sú síðarnefnda úr dropum. Gráblika er eins og nafnið bendir til oftast grárri en blikan - einkennislitur hennar er hvítur. Til að rosabaugar og aukasólir sjáist þurfa ískristallar að vera til staðar. Dropar og ískristallar þrífast mjög illa í sambýli - kristallarnir aféta dropana.

Í blikunni í kvöld mátti sjá votta fyrir aukasólum - gílum, en sennilega lá þunn blikuslæða í sérstöku skýjalagi ofan við gráblikuna og þess vegna hafi gílarnir verið dauflegir að sjá. En þetta eru ágiskanir.

Hvað sem skýjavangaveltum líður eru spár sammála um að skýjabakkinn gangi alveg yfir landið og þegar þetta er skrifað (nærri miðnætti) er byrjað að rigna um 150 km vestur af Reykjanesi - sé að marka ratsjármynd. Rigningin á að ná til landsins með sunnanátt í fyrramálið. Þá hlýnar eftir kalda nótt.

Spár gera síðan ráð fyrir sunnanátt áfram. Þetta má sjá á 500 hPa spákorti sem gildir um hádegi á föstudag.

w-blogg230513a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar og merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem þær eru því hvassari er vindurinn. Jafnþykktarlínurnar á kortinu eru rauðar og strikaðar, sömuleiðis merktar í dekametrum. Því meiri sem þykktin er því hlýrra er loftið.

Það er 5400 metra jafnþykktarlínan sem liggur norður fyrir Ísland og sömuleiðis má sjá smáblett þar sem þykktin er 5460 metrar. Það gæti dugað í 17 til 19 stiga síðdegishita um Norður- og Austurland. Hæsti hiti ársins það sem af er er 18,1 stig - mældust á Sauðárkróksflugvelli á laugardaginn var. Hvort föstudagshitinn nú fer hærra verður að sýna sig. Syðra er spáð harla hryssingslegu veðri á föstudag - en ekki verður kalt.

Næsta kerfi er síðan fyrir vestan Grænland og hreyfist austur. Evrópureiknimiðstöðin lætur það grafa sig niður fyrir suðvestan og sunnan land. Sé sú spá rétt gæti landið suðvestanvert notið góðs af þegar lægðin fer að veiklast. Bandaríska veðurstofan er fljótari upp með norðaustanáttina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • w-blogg230325a
  • Slide15
  • Slide14
  • Slide13
  • Slide12

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.3.): 6
  • Sl. sólarhring: 105
  • Sl. viku: 1340
  • Frá upphafi: 2455666

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 1200
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband