5.5.2013 | 01:12
Vorið mjakast norðar (lítið þó hér)
Nú hlýnar á norðurslóðum og vorið mjakast norður á bóginn. En við erum enn inni í kuldanum. Í dag var 500 hPa-flöturinn yfir Íslandi við það lægsta á norðurhveli öllu. Ekki var þó kaldast hér (skárra væri það nú). En kortið hér að neðan sýnir 500 hPa hæð og þykkt um hádegi á mánudag (segir evrópureikinimiðstöðin).
Ísland er rétt neðan við miðja mynd. Það sést mun betur sé kortið stækkað (tvisvar). Jafnhæðarlínur eru heildregnar en þykktin er sýnd með litaflötum. Þar sem jafnhæðarlínurnar eru þéttastar er vindur mestur. Sumar - að okkar viðmiði - er á gulu og brúnu svæðum myndarinnar. Grænu svæðin sýna það sem við getum almennt búist við á þessum tíma árs, en við viljum helst vera alveg laus við þau bláu. Þar undir er þykktin minni en 5280 metrar. Fjólublái liturinn hefur horfið af kortinu síðan við litum á kort sem þetta síðast (20. apríl). Hann gæti þó sýnt sig síðar - en vonandi ekki.
Á þessu korti eru grænu svæðin frekar lítil um sig og jafnhæðarlínur eru þar í flestum tilvikum þéttar (þetta er ekki regla). Þarna eru meginskil norðurhvelsins - á milli heimskautaloftsins og því sem kalla má temprað.
Bláa svæðið er farið að dragast áberandi saman frá því sem verið hefur - en sunnar eru margar afskornar lægðir eða kuldapollar. Eins og minnst var á í pistli fyrir nokkrum dögum um kulda á Spáni eru þær flestar orðnar til við það að mjóir fleygar af köldu lofti hafa brotist suður og lokast þar inni. Aðrar verða til við það að hlýir hryggir á leið norður falla fram fyrir sig. Það sést ekki af þessu korti einu og sér hvernig þessir pollar hafa myndast.
Athyglisverður kuldapollur er á kortinu yfir suðurríkjum Bandaríkjanna. Hann varð til sem fleygur úr norðri fyrir fáeinum dögum. Um leið og hann braust suður skildi hann eftir sig eftirminnilegt hríðarveður í miðvesturríkjunum. Það snjóaði allt suður til Arkansas og Oklahóma - af bloggsíðum vestra má ráða að það sé óvenjulegt svo seint á vorin. Á þessu korti er enn grænn litur í honum miðjum og jafnhæðarlínur nokkrar. Ekki gott.
Kuldapollurinn við Kaliforníuströnd slær vonandi á hita sem ríkt hafa þar síðustu daga. Enginn grænn litur er í honum. Sjórinn undan ströndinni er líka svo kaldur að hann á erfitt með að keyra upp skúraveður eða rigningu - þrátt fyrir lægðina. En ritstjórinn ætti kannski ekki að fjalla mikið um það.
Megnið af Alaska er inni í bláa litnum eins og við. Þar var apríl óvenjukaldur - sá kaldasti í Fairbanks síðan 1924.
Hér á græni liturinn að komast yfir landið síðdegis á miðvikudag og af náð sinni vera yfir okkur í heila tvo daga. Guli liturinn á að verða víðsfjarri svo langt sem evrópureiknimiðstöðin vill tjá sig um. En þegar léttir til gæti sólin glatt okkur um hádaginn - hvar sem það svo verður á landinu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (31.3.): 122
- Sl. sólarhring: 224
- Sl. viku: 1654
- Frá upphafi: 2457209
Annað
- Innlit í dag: 101
- Innlit sl. viku: 1505
- Gestir í dag: 93
- IP-tölur í dag: 91
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Athugasemdir
Bændur á Norðurlandi hafa lítið orðið varir við meinta hnatthlýnun í vetur:
"Við stunduðum hér kornrækt í 10 ár, frá 2000-2010 og þá vorum við að sá korni í lok apríl og í byrjun maí. Núna gerir maður ekkert annað en að moka snjó,“ segir Jóhannes.
Á morgun er spáð snjókomu á svæðinu og ekkert útlit fyrir hlýnandi veður fyrr en um miðjan mánuðinn." (http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/05/05/ordin_drulluthreytt_a_snjonum/)
Trúir þú enn á "hnatthlýnun af mannavöldum" Trausti? :)
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 5.5.2013 kl. 21:27
Hnatthlýnun er úr sögunni. Nú er farið að kólna aftur. Það hlýindaskeið sem verið hefur á norðurhveli frá árinu 1990 er nú lokið. Hámark þessa hlýindaskeiðs var 1998, en eftir það hefur smátt og smátt farið kólnandi, þó svo að nokkur hlý ár hafi komið t.d. 2003 og 2007 og 2008, en hitasveiflan er niður á við.
Sumarið 2013 verður kalt sumar og frekar sólarlítið. Þetta verður svona svipað sumar og var hér árið 1979.
Það er margt sem styður þetta, m.a. miklir kuldar undanfari sem gera það að verkum að landið er orðið kalt, hafið er kaldara kringum landið en verið hefur, og svo eru miklir snjóar norðanlands sem kæla landið og endurvarpa sólarljósi og varma út í himinnhvolfið.
En eitt er víst, hnattræn hlýnun er stórlega ýkt og nú er farið að kólna á norðurhveli. Vetur komandi ára verða því kaldir og snjóþungir, svona vetur eins og við höfðum á árunum upp úr 1960-1980, og hafísar munu fara að heimsækja okkur.
Össi (IP-tala skráð) 5.5.2013 kl. 22:13
Geturðu ekki gert betur en þetta Hilmar?! Það er svo aldeilis að velja sumarið 1979 sem kandidat fyrir næsta sumar, stökk frá áratugs hlýindum í eitt það allra kaldasta. Ef menn eru í þessum leik afhverju þá ekki að segja eitthvað af viti?
Sigurður Þór Guðjónsson, 6.5.2013 kl. 00:44
Eða eru menn kannski bara að gera að gamni sínu?!
Sigurður Þór Guðjónsson, 6.5.2013 kl. 00:51
Muna spakmælið gamla: Þar sem hnattræn hlýnun er mest er erfiðast að sjá hana. Árið 1998 (eða svo) skrifaði ritstjóri hungurdiska grein í Lesbók Morgunblaðsins (blessuð sé minning hennar). Þetta var sum sé árið 1998 - áður en óðahlýnun varð hérlendis. Þar rökstuddi hann þá fullyrðingu að þróun hitafars á Íslandi væri þá þegar jafnmikil og vænta mátti af völdum hnattrænnar hlýnunar. Óðahlýnunin sem á eftir fylgdi tók hins vegar út 2 til 3 áratugi af (hnattrænni) hlýnun á einu bretti. Út frá þeirri staðreynd mátti sjá að minnsta kosti tvennt: 1. Erfitt verður að tengja breytileika hitafars hér á landi næstu ár eða jafnvel áratugi við hnattræna hlýnum (sem þó heldur áfram af engu minni þunga en áður). 2. Allt umfram þá hlýnun sem þegar hefur orðið hér á landi er meiriháttar áhyggjuefni - samanber sprengiárið mikla 2010 - afbrigðilegast allra ára. Við skulum bara þakka fyrir að stöku mánuðir (og þess vegna ár) með hita undir meðallagi birtist þó enn. Kerfið er þá ekki enn orðið snarbrjálað.
Trausti Jónsson, 6.5.2013 kl. 01:52
Ég hef stundum verið að prédika, hóflega þó, mildilega og nettlega, að þessi miklu hlýindi hér síðustu ár séu minnstan part útsláttur frá almennri hnattrænn hlýnun heldur aðallega tímabundin íslensk sérviska. Partur af því að við viljum alltaf vera mestir og bestir og keyra fram úr öllum!
Sigurður Þór Guðjónsson, 6.5.2013 kl. 12:36
Sama hér. Að hluta til gætu hlýindin hér á síðustu árum verið hver önnur tískubóla sem getur sprungið með látum eða hjaðnað niður í það sem eðlilegt er miðað við stöðu hnattrænnar hlýnunar.
Hinsvegar getum við aldrei sagt til um hvort það sé að hlýna eða kólna á einhverjum tímapunkti því til þess vantar okkur ábyggilegar upplýsingar um framtíðina.
Emil Hannes Valgeirsson, 6.5.2013 kl. 14:17
Emil skrifar að okkur vanti "ábyggilegar upplýsingar um framtíðina". Satt er það.
Nýlega fjallaði Dr. Roy Spencer um það hvernig helstu loftslags-spálíkönum hefur tekist til að spá fyrir um framtíðina. Hann ber saman spáferla 44 líkana og raunverulegar mælingar. Sjá hér: Global Warming Slowdown: The View from Space
Varla hefur tekist vel að spá fyrir um síðasta áratug.
Reyndar er stærsti hluti þessara ferla "spá" aftur í tímann (hindcast) og verður að hafa það í huga...
Ágúst H Bjarnason, 6.5.2013 kl. 15:06
Þakkir fyrir svörin Trausti. Þau kalla hins vegar á nokkrar spurningar:
1. Einkenndist tímabilið frá 1930 - 1940 þá líka af meintri "óðahlýnun"?
2. Einkenndist tímabilið frá 1970 - 1980 þá e.t.v. af "óðakólnun"?
3. Má skilja á þér (út frá meintri 1. staðreynd) að veðrátta á Íslandi sé ekki í takt við umheiminn?
4. Má skilja á þér (út frá meintri 2. staðreynd) að meint hlýnun 1930 - 1940 hafi verið "meiriháttar áhyggjuefni" fyrir veðurfræðinga þess tíma?
5. Verður kerfið fyrst "snarbrjálað" þegar veðurfræðingar "skilja" það ekki, eða sitjum við e.t.v. uppi með "snarbrjálaða" veðurfræðinga þegar kerfið hagar sér eðlilega?
Það kólnar nú samt Trausti ;)
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 6.5.2013 kl. 19:44
Ágúst. Ég skýs að tala um að líkönin búi til sviðsmyndir frekar en um eiginleg spálíkön sé að ræða. Það kann í fljótu bragði að virðast óþarfi að gera greinarmun hér á - en er það í raun ekki. Greinarmunurinn er mikilvægur. Líkönin innihalda allt of margar gefnar forsendur um þróun áhrifaþátta, t,d, marga félagsfræðilega, inn í framtíðina til að hægt sé að kalla þau spár. Við gerð áættumats og viðbragðaáætlana er nauðsynlegt að eiga fjölbreyttar sviðsmyndir auk viðbragðsábenda. Illa hefur gengið að skilgreina forsendur um þróun þjóðfélaga, orkunotkunar þeirra auk pólítískrar þróunar.
Hilmar. Spurningum þínum get ég aðeins svarað stuttaralega. Þær eru viðameiri en svo að þeim verði svarað öðruvísi á þessum vettvangi. Ég hef reyndar vikið að sumum atriðunum í fyrri pistlum. Númeraröðin er þín.
1. Einkenndist tímabilið frá 1930 - 1940 þá líka af meintri "óðahlýnun"?
Já, árin 1923 til 1929 einkenndust af óðahlýnun á allstóru svæði frá Grænlandi í vestri yfir Ísland til Svalbarða og nokkuð austur með Síberíu. Talsvert hlýnaði einnig í Skandinavíu – en þar var hlýnunin samt hægari. Fáein svæði önnur á norðurhveli hlýnuðu einnig umtalsvert, en hlýnunin á heimsvísu var ekki jafn eindregin og varð eftir 1980.
2. Einkenndist tímabilið frá 1970 - 1980 þá e.t.v. af "óðakólnun"?
Já, það gerði það á ákveðnum landsvæðum á tímabilinu eftir 1960 og síðan síðar á öðrum stöðum, en ekki á norðurhveli í heild. Hér á landi gekk kólnunin mjög hratt í garð. Sums staðar heyrðist að ísöld væri í nánd.
3. Má skilja á þér (út frá meintri 1. staðreynd) að veðrátta á Íslandi sé ekki í takt við umheiminn?
Já, hitafar á Íslandi er aðeins í takt við umheiminn sé horft til langra tímakvarða (30 til 50 ára eða meira). Sama á reyndar við um nærri því hvaða stað sem er í heiminum. Kólnunin fyrir nokkrum áratugum náði t.d. ekki hámarki á Grænlandi fyrr en um 1990 löngu eftir að hnattræn hlýnun hafði tekið vel við sér. Þar hlýnaði síðan á örskömmum tíma um 2 stig í 10 ára meðaltölum. Það þrep hefur lítið með hnattræna hlýnun að gera (jafnvel þótt því sé því miður oft haldið fram í umfjöllun í fjölmiðlum og á netinu).
4. Má skilja á þér (út frá meintri 2. staðreynd) að meint hlýnun 1930 - 1940 hafi verið "meiriháttar áhyggjuefni" fyrir veðurfræðinga þess tíma?
Já, það varð heimshlýnun á árunum 1910 til 1940 (minni en síðari hlýnun) og þegar komið var að síðara ártalinu fóru menn (ekki eins margir og nú) að hafa áhyggjur. Alveg satt.
5. Verður kerfið fyrst "snarbrjálað" þegar veðurfræðingar "skilja" það ekki, eða sitjum við e.t.v. uppi með "snarbrjálaða" veðurfræðinga þegar kerfið hagar sér eðlilega?
Við þekkjum ekki nægilega vel hver hegðan kerfisins er við áreiti. Ég vona svo sannarlega að það verði ekki „snarbrjálað“ við þær alvarlegu breytingar á efnasamsetningu andrúmsloftsins sem nú eiga sér stað af mannavöldum. Flestir fræðimenn, þar á meðal veðurfræðingar, lifa við normaða tilveru, í heimi staðalvika. Enn hefur ekkert gerst hér á landi sem telja má út úr því markaða korti. Árið 2010 komst næst því hingað til. Ef við hins vegar fáum aðra jafnstóra hlýnunarhrinu ofan í þá sem í gangi hefur verið síðustu 15 árin væri hún nánast órækt merki þess að kerfið sé að fara úrskeiðis. Um slíka mögulega framtíðaratburði veit ég ekkert.
Svo lengi sem ég man hefur veðurfarið ætíð lumað á óvæntum uppákomum.
Trausti Jónsson, 7.5.2013 kl. 02:34
Sæll Trausti.
Takk fyrir ábendinguna um orðavalið. Ég er þér sammála.
Hvað sem orðavali líður þá fjallaði ábending mín um það hvernig sviðsmynda-líkön hefðu staðist tímans tönn síðastliðin áratug eða svo. Sviðsmyndirnar 44 sýna nánast allar mun meiri hlýnun á heimsvísu en varð í raun. Þegar sviðsmyndir sýna ekki raunverulega þróun þá er ljóst að eitthvað vantar í forsendurnar. Þá verða skynsamir menn að koma saman og reyna átta sig á hvað fór úrskeiðis svo hægt sé að gera sviðsmynda-líkönin áreiðanlegri. Annars er hætta á að menn hætti að taka mark á þeim...
Með góðri kveðju
Ágúst H Bjarnason, 7.5.2013 kl. 07:19
Endurteknar þakkir Trausti. Gætu meðfylgjandi upplýsingar e.t.v. varpað ljósi á "óðahlýnunina" 1930-1940, "óðakólnunina" 1970-1980 og "óðahlýnunina" 2000-2010?:
http://www.forbes.com/sites/peterferrara/2012/05/31/sorry-global-warming-alarmists-the-earth-is-cooling/
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 7.5.2013 kl. 13:43
Hilmar. Ég smelli aldrei á tengla sem mér eru sendir án þess að vita hvert þeir leiða. Einföld regla - en þakkir samt.
Trausti Jónsson, 8.5.2013 kl. 01:07
"Ég smelli aldrei á tengla sem mér eru sendir án þess að vita hvert þeir leiða..."(sic) :)
www.forbes.com: "Forbes is a leading source for reliable business news and financial information. Read news, politics, economics, business & finance on Forbes.com."
peterferrara: Höfundur fréttar.
2012/05/31: Fréttin er frá 31. maí 2012 (vonandi ekki of gömul fyrir þig)
sorry-global-warming-alarmists-the-earth-is-cooling: Fyrirsögn fréttar: "Sorry Global Warming Alarmists, The Earth Is Cooling"
Jafnvel veðurfræðingar þurfa að vera opnir fyrir heimsmálum - burtséð frá því hvert þau leiða. Einföld regla ;)
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 8.5.2013 kl. 20:14
Gömul frétt af gamalli Heartland-ráðstefnu. Marglesið af mér fyrir löngu. Þakkir þó Hilmar.
Trausti Jónsson, 9.5.2013 kl. 01:20
Ég biðst forláts Trausti að benda þér á ársgamla frétt - og það marglesna af þér. :(
Vera kann hins vegar að meðfylgjandi krækja á tveggja mánaða gamla grein í Global Research veki áhuga þinn: http://www.globalresearch.ca/global-cooling-is-here/10783
Niðurstaða greinarinnar er: "Global warming (i.e, the warming since 1977) is over. The minute increase of anthropogenic CO2 in the atmosphere (0.008%) was not the cause of the warming—it was a continuation of natural cycles that occurred over the past 500 years."
Verður "óðakólnun" hlutskipti Íslendinga enn og aftur? Veðurfræðingar á Veðurstofu Íslands hafa væntanlega lesið glænýja frétt í Fréttablaðinu: http://www.visir.is/utsed-med-kornraekt-i-svarfadardal-i-sumar/article/2013705099943
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 9.5.2013 kl. 13:13
Ég giska á að Trausti þekki ágætlega til sjónarmiða Don J. Easterbrook.
"Heimilisveðurfræðingurinn" skrifaði líka eitthvað um PDO o.fl. fyrir 5 árum. Sveiflurnar á síðustu öld sem talað er um, hafa reyndar verið þannig að skipst hafa á tímabil á talsverðrar hlýnunar og lítilsháttar kólnunar = hlýnun til lengri tíma.
http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/527773
Emil Hannes Valgeirsson, 9.5.2013 kl. 13:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.