Hársbreidd frá meti

Þegar hungurdiskapistill gærdagsins var skrifaður var séð fram á óvenjukalda aðfaranótt þriðjudags. Venjulega er kaldast undir morgun á þessum árstíma (og flestum öðrum) en nú um miðnæturbil er frostið á Brúarjökli komið niður í -21,1 stig og dægurmet þess 29. þegar slegið. Væntanlega fellur dægurmet þess 30. líka í nótt. Hafa verður í huga að stöðin á Brúarjökli er ekki gömul og vitað mál að verði hún starfrækt áfram mun hún smám saman leggja undir sig fleiri og fleiri dægurmet.

En byggðarmet þess 29. féll ekki að þessu sinni og ekki víst að það takist að slá byggðarmet þess 30. Það er -19,0 stig, frá Möðrudal 1977.

Lægsti hiti sem mælst hefur í maímánuði á landinu er -17,4 stig, einnig úr Möðrudal 1977, þann 1. Vel má vera að Brúarjökull eða önnur stöð nái að slá það met á aðfaranótt miðvikudags 1. maí. Mánaðamet eru umtalsvert merkari heldur en dægurmetin. Þykktin á að hækka lítillega frá aðfaranótt þriðjudags til aðfaranætur miðvikudags. En við kuldamet af þessu tagi þarf einnig að vera bjart veður. Við bíðum spennt.

Á fimmtudagsmorgun verður þykktin farin að þokast upp - en þó verður enn möguleiki á metum. Alla vega falla dægurmet í hrönnum á veðurstöðvunum.

En lítum á hæðar- og þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar klukkan 6 að morgni miðvikudagsins 1. maí.

w-blogg300413a

Ísland ætti að sjást til vinstri við L-ið neðan til á myndinni. Litafletir marka þykktina en jafnhæðarlínur eru heildregnar. Af þeim má sjá að mikið og kalt lægðarsvæði er fyrir austan og norðaustan land en snarpur hæðarhryggur er yfir Grænlandi á leið til suðausturs. Dökkblái liturinn yfir Íslandi og þar norðan við sýnir hvar þykktin er á bilinu 5040 til 5100 metrar. Það eru vetrargildi - ekki neitt með það.

Hæðarhryggurinn færir með sér hlýrra loft. Vestan hans eru þrjú lægðardrög sem spárnar hafa verið í dálitlum vafa með undanfarna daga. Öll drögin stefna í átt til Íslands en óþægilega stutt er á milli þeirra. Í spásyrpunni frá hádegi á þriðja lægðardragið að éta það sem merkt er númer tvö - og þau saman koma þá hér á föstudag, en númer eitt virðist ætla að sleppa yfir Grænland á fimmtudaginn áður en hin tvö gleypa það. Allmyndarleg lægð á að verða til úr drögunum þremur hér við land um næstu helgi - en mikil óvissa er þar í spilunum og vel má vera að þetta gangi öðru vísi fyrir sig heldur en nú er gert ráð fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Spurning hvenær veðurfræðingar flýja Norðurland vegna kulda? :)

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/04/30/gaesirnar_flunar_vegna_kulda/

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 30.4.2013 kl. 23:25

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þeir þrjóskast við sumir.

Trausti Jónsson, 1.5.2013 kl. 01:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 31
  • Sl. sólarhring: 127
  • Sl. viku: 2478
  • Frá upphafi: 2434588

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 2202
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband