Fjallgarðar eru fyrirstaða - líka í dag

Fjallgarðar hafa mikil áhrif á veðurfar bæði staðbundið og á heimsvísu. Mest áhrif hafa þeir sem liggja frá norðri til suðurs þvert á vestanvindabeltið. Loft í neðri lögum lofthjúpsins fer trauðla eða alls ekki framhjá hindruninni og það sem ofar liggur truflast verulega í framrás sinni - því meira eftir því sem lóðréttur stöðugleiki loftsins er meiri.

Hér á landi hefur Grænland mest áhrif allra fjallgarða eins og iðulega hefur verið fjallað um á hungurdiskum. Áhrif fjarlægari fjalla eru einnig mikil sérstaklega hefur garðurinn mikli sem liggur um Norður-Ameríku vestanverða og við köllum oftast Klettafjöll mikil áhrif hér á landi. Þau stífla framrás sjávarlofts frá Kyrrahafi til austurs um álfuna auk þess að styrkja að mun mikið háloftalægðardrag sem liggur meirihluta ársins til suðurs um meginlandið austanvert. Háloftavestanáttin sem verður til við hitamun heimskautasvæða og jaðars hitabeltisins aflagast þannig að mun við að fara yfir fjallgarðinn.

Lægðardrag þetta veldur því að sunnanátt yfir Atlantshafi er mun meiri en ella væri. Bæði Evrópa og Ísland njóta góðs af.

Í dag (fimmtudaginn 31. janúar) sáust stífluáhrif Klettafjallanna í neðri lögum mjög vel á korti frá evrópureiknimiðstöðinni.

w-blogg010213a

Kortinu hefur verið snúið miðað við það sem venjulegt er hér á hungurdiskum. Norður-Ameríka er á miðri mynd. Örvar benda á Suður-Grænland og Flórídaskaga til auðkennis en ef vel er að gáð má sjá útlínur meginlands N-Ameríku og nágrennis á myndinni. Hún batnar ekki mjög við stækkun.

Jafnþrýstilínur (við sjávarmál) eru heildregnar - 20. hver lína er þykkdregin. Litakvarðinn sýnir hita í 850 hpa. Fjólublái liturinn sýnir þau svæði þar sem frostið er meira en -25 stig. Dekksti brúni liturinn við vesturströnd Mexíkó sýnir svæði þar sem hiti í 850 hPa er meiri en +20 stig - ekki mikill vetur þar þessa dagana.

Vel sést hvernig Klettafjöllin skilja að hlýtt Kyrrahafsloftið og ískalt meginlandsloft undir kuldapollinum Stóra-Bola. Stíflan sést alveg sunnan frá Mexíkó og norður til Alaska. Kalda loftið er á suðurleið, jafnþrýstilínur (sem sýna vindátt og vindstefnu) liggja nokkuð þvert á jafnhitalínurnar. Mikil lægð er yfir Nýfundnalandi, stefnir til norðurs vestan Grænlands og sendir okkur afurðir strax á föstudagskvöld (1. febrúar). Þessi lægð bjó til grimma skýstrokka í Georgíufylki og víðar á leið sinni. - Enn ein sprengilægðin - og þær verða fleiri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Þetta finnst mér stórmerkilegt. En hvernig er með Úlfarsfellið? Getur það haft áhrif á veður og færð undir sér?

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 1.2.2013 kl. 20:49

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Jú, Benedikt - Úlfarsfellið hefur líka áhrif. Mig minnir meira að segja að reynt hafi verið að reikna áhrif þess í tölvulíkani fyrir nokkrum árum.

Trausti Jónsson, 2.2.2013 kl. 01:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 269
  • Sl. viku: 2768
  • Frá upphafi: 2427320

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2489
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband