Nærri miðju lægðar sem grynnist

Nú (föstudagskvöld 23. nóvember) er stór og til þess að gera flatbotna lægð að grynnast yfir landinu eða í nágrenni við það. Kortið að neðan sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð og iðu í 500 hPa-fletinum um hádegi á laugardag (24. nóvember) auk þykktarinnar (500/1000 hPa).

Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar, jafnþykktarlínur eru rauðar og strikaðar og iðan er mörkuð með bleikgráum tónum.

w-blogg241112

Lægðarsvæðið nær yfir mestallt kortið og enga lægðarmiðju að sjá utan aðalmiðjuannar við Ísland. Sem stendur hreyfist hún til norðausturs og grynnist ört. Suðaustan við lægðarmiðjuna er ákveðin suðvestanátt í 500 hPa, um 15 m/s næst Íslandi en meiri þar utar. Við sjáum að jafnþykktarlínur eru fáar og enn lengra er á milli þeirra heldur en jafnhæðarlínanna. Það þýðir að háloftasuðvestanáttin nær lítt trufluð til jarðar.

Nú kemur erfið rulla sem alloft hefur verið farið með á hungurdiskum - og á vonandi eftir að fara margoft með í framtíðinni. Þeir sem ekki vilja í kvörnina geta hætt að lesa og snúið sér að öðru - eða hoppað sér að skaðlitlu yfir næstu málsgrein.

Rifjum upp reglu: (i) Sé hæðarbratti lítill og þykktarbratti það líka er vindur hægur við sjávarmál. (ii) Sé hæðarbratti mikill en þykktarbratti miklu minni er mjög hvasst við sjávarmál og fylgir sá vindur stefnu háloftavindsins. (iii) Sé þykktarbratti mikill en hæðarbratti miklu minni er líka mikið hvassviðri við jörð. (iv) Séu þykktar- og hæðarbrattar hvorir tveggja miklir þarf að fara að hugsa - því þeir annað hvort upphefja hvorn annan (miklu, miklu algengara) eða hjálpast að við að búa til ógnarhvassviðri við sjávarmál. Kortið að ofan er sýnidæmi um ástand (i) - aðeins litað af ástandi (ii).

Á kortinu má sjá tvo iðuhnúta  sem eiga að angra Breta um helgina. Annar er á kortinu yfir Biskaíflóa norðanverðum. Honum fylgir mjög öflug lægð sem breskir veðurfræðingar hafa haft áhyggjur af - ekki síst vegna þess hversu misjafnlega krassandi hún hefur verið í spám. Vonandi fer það vel. Hinn hnúturinn er í lægðardragi suðaustur af Hvarfi á Grænlandi. Lægðardragið er á leið til suðausturs og mun snúast upp í aðra lægð - ekki jafnkrappa og þá fyrri - en blauta á haus og hala, jafnvel suður við Miðjarðarhaf.

Á okkar slóðum er gert ráð fyrir því að hæðarhryggurinn vestan Grænlands rísi upp og komi til okkar. Sumar spár gera jafnvel ráð fyrir því að úr verði meðalsterk fyrirstöðuhæð sem þá myndi vernda okkur gegn illviðrum í nokkra daga - en það er e.t.v. óskhyggja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband