Staðan í 12-, 60- og 360-mánaða hitameðaltölum (2012 - gerð)

Fyrir rúmu ári síðan (4. október) birtist pistill með sama nafni á hungurdiskum. Hér er hann uppfærður. 

Hlýindin miklu sem einkennt hafa veðurlag hér á landi síðustu 15 árin eða svo eru ekkert á undanhaldi. Síðustu 12 mánuðir (nóvember 2011 til október 2012) eru nú 0,25 stigum hlýrri í Reykjavík heldur en 12-mánaða tímabilið sem endaði með október í fyrra. Nóvember í fyrra varð mjög hlýr og nóvember í ár stefnir í að vera mun kaldari þannig að í lok þessa mánaðar munar væntanlega litlu á 12-mánaða tímabilunum desember til nóvember. Desember í fyrra var með kaldasta móti - þannig að ekki er útséð hvort árið verður hlýrra, 2011 eða 2012.

Hér að neðan er miðað við meðalhitatölur úr Stykkishólmi, en meðalhitinn þar er oftast nærri landsmeðalhita. Við leyfum okkur til gamans að skarta 2 aukastöfum - en varlega skal tekið mark á þeirri nákvæmni.

Meðalhiti síðustu 12 mánaða í Stykkishólmi er 4,99 stig, á sama tíma í fyrra var talan 4,46 stig. Hér munar 0,54 stigum í Stykkishólmi, 2012 í vil. Svo virðist sem 12-mánaða hámarkinu í ár hafi verið náð í ágústlok en þá stakk hitinn sér upp í 5,14 stig. Talsvert hrap verður nú í nóvember - sem þó gæti enn náð meðalhita nóvembermánaða á árunum 1961 til 1990.

Meðalhiti síðustu sextíu mánaða (5 ár) stendur nú í 4,88 stigi en á sama tíma í fyrra var hann 4,82 stig eða nærri því sá sami. Þetta táknar auðvitað að í stað síðustu 12 mánaða hafa 12 álíka hlýir mánuðir í upphafi tímabilsins dottið út (á árunum 2006 til 2007).

Meðalhiti síðustu 120 mánaða (10 ár) stendur nú í 4,88 stigum (nákvæmlega sama og 5-ára meðaltalið). Á sama tíma í fyrra var 10-ára meðalhitinn 4,79 stig. Hitanum hefur semsagt miðað upp á við síðasta áratuginn og tíu ára meðaltalið í ágústlok (4,90 stig) er það hæsta sem vitað er um síðan mælingar hófust. September og október hafa ýtt því niður um 0,02 stig. Við erum nú á toppnum. Ólíklegt er að þessi toppur verði sleginn út alveg í bráð því tímabilið sem dettur út úr 10-ára meðaltalinu næstu 12 mánuði var hreint út úr kortinu hvað hita snerti. Varla er við slíku að búast aftur á árinu 2013 - en þó er aldrei að vita.

Það var í lok apríl 2008 sem 120-mánaða hitinn fór í fyrsta sinn yfir hæsta gildið á hlýindaskeiðinu fyrir miðja 20. öld (4,45 stig) og er nú 0,43 stigum hærri en sú  tala.

Á sama tíma í fyrra stóð 360-mánaða (30-ára) meðalhitinn í 4,07 stigum. Nú hefur hann þokast upp í 4,14 stig. Kaldir mánuðir ársins 1982 hafa verið að detta út og hlýir mánuðir 2012 komið í staðinn. Árið 1983 var sérlega kalt. Árið 2013 má því verða óvenju skítlegt til að 30-ára meðaltali hækki ekki enn frá því sem nú er. Fyrir því er auðvitað engin trygging.

Þó hlýindin nú séu orðin langvinn hafa þau ekki staðið nema í um hálfan annan áratug. Við erum því ekki enn komin upp í mestu 30-ára hlýindi fyrra hlýskeiðs. Hæsta 360-mánaða meðaltal þess er 4,20 stig. Það var frá og með mars 1931 til og með febrúar 1961. Fyrir ári vorum við 0,13 stig frá því að jafna það - nú vantar aðeins 0,06 stig. Spurningin er hvort núverandi hlýskeiði endist þrekið til að slá því gamla við. Það verður spennandi að fylgjast með því á næstu árum.

Nú ættu menn að fara að huga að meðalhita ársins 2012. Hver verður hann? Líklegt er að hungurdiskar haldi sig til hlés í því máli. En hér að ofan kom fram að meðalhiti síðustu 12 mánaða í Stykkishólmi er 4,99 stig, en  5,51 stig í Reykjavík.

Hlýjasta 12-mánaða tímabilið í Stykkishólmi var september 2002 til ágúst 2003 með 5,88 stig. Sama tímabil var einnig það hlýjasta í Reykjavík með 6,61 stig og á Akureyri með 5,77 stig. Árið í ár verður alla vega talsvert kaldara en þetta.

Kaldasta 12-mánaða tímabilið í Stykkishólmi var september 1880 til ágúst 1881, meðalhitinn var aðeins 0,08 stig. Sama tímabil var einnig kaldast í Reykjavík, meðalhitinn var 2,08 stig. Heildarspönn í Stykkishólmi er því 5,80 stig, en 4,53 í Reykjavík. Í hlýindunum munar aðeins 0,73 stigum á stöðunum tveimur, en 2,00 stigum í kuldanum. Reykjavík var betur varin fyrir íshafsáhrifum kuldaáranna miklu.

Samfelldar mælingar hófust ekki á Akureyri fyrr en haustið 1881 þannig að við vitum ekki hversu kalt var þar þegar kaldast var á hinum stöðunum tveimur, en janúar til desember 1892 er kaldasta 12-mánaða tímabil mælitímabilsins á Akureyri.

Hér að ofan er hrúga af tölum - vonandi hefur tekist að koma þeim óbrengluðum úr heimildum á skjá lesenda. Þeir sem sjá innsláttarvillur mega gjarnan láta vita.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær samantekt Trausti - eins og við var að búast: "Þó hlýindin nú séu orðin langvinn hafa þau ekki staðið nema í um hálfan annan áratug. Við erum því ekki enn komin upp í mestu 30-ára hlýindi fyrra hlýskeiðs. Hæsta 360-mánaða meðaltal þess er 4,20 stig. Það var frá og með mars 1931 til og með febrúar 1961. Fyrir ári vorum við 0,13 stig frá því að jafna það - nú vantar aðeins 0,06 stig."(!)

Því miður virðast litlar líkur á að nýtt 30 ára hitamet verði slegið samkvæmt þessari glænýju frétt. Visindamenn hafa sannreynt að hafísmagn við Suðurheimskautið hefur slegið öll met!

A map of Antarctic sea ice.

Myndin sýnir útbreiðslu hafíss við Suðurheimskautið 26 september sl. Gula línan sýnir meðaltalið frá 1979 - 2000.

Hér er svo skemmtileg frétt í Mbl. í dag um steingervinga tveggja metra hárra mörgæsa sem lifðu á Suðurheimskautinu á Eocene tímanum, fyrir 37 - 45 milljón árum síðan.

Af hverju voru bæði plöntur og dýr hávaxnari á þessu tímabili Trausti?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 21.11.2012 kl. 18:33

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Já þetta er góð samantekt. Það má eitthvað mjög mikið gerast ef 30 ára meðaltalsmetið fellur ekki á næstunni - hver veit þó nema ísinn við Suðurskautslandið nái að streyma alla leið hingað uppeftir og kæla landið okkar.

Emil Hannes Valgeirsson, 21.11.2012 kl. 20:58

3 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Eins og Emil bendir á, þá er líklegt að meðaltalsmetið fyrir 30 árin falli á næstunni hér á landi, þar sem það eru nokkur köld ár með enn þá (30 ár eru langur tími, fyrsta árið er 1982).

Á loftslag.is má lesa eitthvað um ísinn á Suðurskautinu (undir hinum fróðlegu mýtum), m.a. má lesa um hafísinn og hvers vegna hann gæti verið að aukast á Suðurskautinu (reyndar er minnkun hafísins á Norðurskautinu það mikill að heildaráhrifin eru til minnkunar hafíss í heiminum), sjá Er ís á Suðurskautinu að minnka eða aukast? - þar kemur m.a. eftirfarandi fram:

Ef við tökum það saman, þá er hafís Suðurskautsins háð flóknum og einstökum þáttum. Einfaldasta túlkunin um að hafísinn sé að aukast vegna þess að það hljóti að vera að kólna í kringum Suðurskautið á ekki við rök að styðjast. Hlýnun er í gangi – en hvernig það hefur áhrif á mismunandi svæði – er flókið.

Kannski er þetta óþarflega flókið fyrir Hilmar...enda virðist hann heldur ekki hafa haft vit til þess að lesa það sem hann sjálfur vísar í, en það er m.a. tengill á vef National Geographic, þar sem eftirfarandi kemur fram:

So it's all consistent with a warming planet.

Takk fyrir að vísa á þetta Hilmar...þó ekki styðji það þinn málatilbúning.

Sveinn Atli Gunnarsson, 22.11.2012 kl. 00:41

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Það stefnir nú í nýtt 30-ára meðaltal - það þarf mjög vont ár 2013 til að „bæta“ fyrir fráfall 1983 út úr meðaltalinu. Árið 1984 var nokkru skárra - sérstaklega fyrir norðan og austan. - Að suðurhöfum -. Mælingar hafa verið gerðar á hafísútbreiðslu við Suðurskautslandið síðan 1973 - hvað gerðist fyrir þann tíma vitum við ekki. En Suðuríshafið er sérlega merkilegt svæði. Þar halda engin lönd ísútbreiðslunni í skefjum - útbreiðslan ræðst m.a. af samspili hita, vinda- og straumafars. Vindurinn sér m.a. fyrir því að dreifa úr ísnum - þá vakna nýjar vakir og enn meiri ís myndast. Ísröndin færist norður á vetrum þannig að fyrst er dreift úr ís - ís myndast í vökunum - síðan er aftur dreift úr - ís myndast í nýjum vökum - en jaðarinn hefur færst norðar og svo koll af kolli. Það eru því vindaskilyrði á hverjum stað sem hafa hönd í bagga með ísmynduninni jafnt og hiti, allt þar til sól hækkar á lofti og fer að bræða ísinn. Það er alveg makalaust að árstíðasveiflan er um 16 milljón ferkílómetrar - hafísinn við Suðurskautslandið er að megninu til eins árs ís. Næst landi ríkir köld suðaustan- og austanátt en í kringum 65°S skiptir í vestanátt - og undir henni er öflugasti hafstraumur heims - hringstraumurinn mikli. Minniháttar breytingar á vestanvindabeltinu breyta ísdreifingunni á vetrum - vakamagn (og staðsetning þeirra) breytist. Ekki er rúm fyrir ítarlegar skýringar hér - en lesendur eru hvattir til þess að velta fyrir sér hvað gæti gerst ef vestanvindabeltið bætti aðeins í styrk sinn - (t.d. vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa) - en héldi sömu stöðu, jú, meira los kemst á ísinn og hann breiðir úr sér. Ekki skal hér kveðið úr um það hvort það nákvæmlega þetta sem veldur lítillega aukinni ísútbreiðslu á þessum slóðum. Það er út af fyrir sig skemmtilegur krókur að hlýnandi veðurfar gæti haft þessi áhrif. Ég get engu svarað um stærð dýra á Eósen - líffræðingar geta svarað því. En talið er að á Eósen hafi koltvísýringsmagn verið að minnsta kosti tvisvar eða þrisvar sinnum meira í lofthjúpi jarðar en nú er - þess vegna hafi verið miklu hlýrra - en rétt þó að hafa í huga að ekki er fullkomið samkomulag um magn né smáatriði veðurfars þessa tíma.

Trausti Jónsson, 22.11.2012 kl. 00:44

5 identicon

Félagi Svatli mættur í kuldaúlpunni!

Já, vits er þörf þeim er víða ratar, Svatli minn. Sérstaklega ef hann ratar í skóggöngur.

Daniel Stone, fréttaritari National Geographic News, leitar skýringa hjá Eric Rignot, innvígðum kolefnisklerki hjá NASA.

Klerkurinn kemst að sjálfsögðu að þeirri bráðskemmtilegu niðurstöðu að metaukning hafíss við Suðurskautið sé tilkomin vegna þess að hnatthlýnunin sé svo mikil.

"The Antarctic has not been warming up as fast as the models thought. It's warming up, but slower. So it's all consistent with a warming planet."(!)

Heimsendaspámenn halda að sjálfsögðu áfram að spá heimsenda - þeir breyta bara spálíkaninu.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 23.11.2012 kl. 00:41

6 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Hilmar - um að gera fyrir þig að uppnefna fólk...þú hefur ekkert annað karlinn... En annars var vísunin frá þér komin, langaði bara að benda þér vinsamlega á að hún studdi ekki þín sjónarmið og gerir ekki enn...

PS. Ég er ekki viss um að þú vitir hvað vísindinn segja um hnattræna hlýnun...en heimurinn endar ekki þó að það hlýni og það séu afleiðingar af þeirri hlýnun...

Sveinn Atli Gunnarsson, 23.11.2012 kl. 00:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 971
  • Frá upphafi: 2341345

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 889
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband