16.11.2012 | 00:24
Inni í kuldanum
Landið er þegar þetta er skrifað komið inn í kulda að vestan með tilheyrandi éljagangi suðvestanlands. Fyrsta kort pistilsins sýnir gríðarkalt svæði í 500 hPa suðvestur á Grænlandshafi. Kortið er frá evrópureiknimiðstöðinni og gildir kl. 3 í nótt - aðfaranótt föstudags.
Ísland er á miðri mynd. Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar, litafletir sýna hita í 500 hPa og hefðbundnar vindörvar vindhraða og stefnu. Í fjólubláa flekknum er meir en -40 stiga frost. Sjórinn hitar að neðan og á korti sem gildir 9 klukkustundum síðar (ekki sýnt hér) er fjólublái flekkurinn horfinn. Gríðarlegir klakkar myndast við þessar aðstæður og jafnvel éljagarðar eða litlar lægðir. Eftir gervihnatta- og ratsjármyndum að dæma er Suðvesturland rétt í jaðri úrkomunnar. Erfitt er að spá hversu norðarlega meginúrkoman nær. Það verður ekki reynt hér.
Rétt er einnig að vekja athygli á því að fyrir norðan land er talsvert hlýrra í þessari hæð heldur en í kuldaflekknum suðvesturundan, munar hér meiru en 10 stigum. Veðurfræðingar skoða gjarnan kort í nokkrum hæðum eða staðalflötum. Það er 700 hPa-flöturinn sem er sá næsti fyrir neðan 500 hPa - við sleppum honum úr og förum niður í 850 hPa staðalflötinn. Á kortinu hér að neðan er sá flötur í um 1100 metra hæð yfir landinu. Táknmál kortsins er það sama og að ofan og gildistíminn sá sami. - athugið þó að litakvarðinn á við annan hita.
Við sjáum vel kaldan strók liggja frá vesturjaðri kortsins í stefnu á Ísland. En enn kaldara loft kemur úr norðri fyrir hornið á Tobinhöfða á Grænlandi, liggur til suðurs en breiðir úr sér þegar aðhaldi lægðarinnar í austri og strandar Grænlands í vestri sleppir. Allt kalda loftið hvort sem það er komið úr vestri eða norðri hlýnar yfir sjónum. Nú er hins vegar spurning um hvort norðanloftið er kaldara eða hlýrra en það vestræna þar sem loftstraumarnir mætast.
Svo virðist sem norðanloftið nái undirtökunum og fleygist undir það vestræna. Við það vex stöðugleikinn - jafnvel umtalsvert. Þá hörfar éljabakkinn undan - en ekki er ótrúlegt að él eða snjókoma gangi yfir Vesturland um leið og norðanloftið er að hafa það. Norðanlands gerir talsverða hríð í hvassri norðanáttinni - þeir sem ferðast á milli landshluta ættu að fylgjast vel með veðri og veðurspám.
En þótt kalda loftið að vestan tapi fyrir norðanáttinni í átökunum um Ísland heldur það áfram að ýta hlýja loftinu sem er austanmegin á kortunum á brott af svæðinu þannig að það hlýnar varla næstu dagana.
Við lítum að lokum á norðurhvelskort sem gildir um hádegi á sunnudag.
Norðurskautið er nærri miðri mynd og Ísland þar undir, 20°V-baugurinn liggur lóðrétt frá norðurskauti og niður, Marokkó í Afríku er neðst á kortinu. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru svartar, en litafletir sýna þykktina. Ísland er vel inni í kalda loftinu og litla björg að hafa. Köld lægðardrög koma hvert á fætur öðru frá Norður-Kanada og berast suðaustur yfir Atlantshafið. Það tekur nokkra daga fyrir hlýja loftið að ná merkjum sínum á okkar slóðum. Mikill gangur er þó víða í heimskautaröstinni (það svæði þar sem jafnhæðarlínurnar eru þéttastar) og bylgjurnar stórar.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.4.): 11
- Sl. sólarhring: 170
- Sl. viku: 1699
- Frá upphafi: 2457530
Annað
- Innlit í dag: 11
- Innlit sl. viku: 1530
- Gestir í dag: 11
- IP-tölur í dag: 11
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Athugasemdir
Já, það er sannarlega að kólna á Íslandi þessa dagana Trausti. Eins hlýtur það að vera erfitt fyrir innvígða heimsendaspámenn að lesa þessa glænýju frétt um vísindarannsóknir á setkjarna sem tekinn var úr Leginum rétt utan við Egilsstaði.
"Rannsóknin leiðir meðal annars þá merkilegu niðurstöðu í ljós að eftir að jöklar hættu að hopa fyrir um 10 þúsund árum var Lögurinn án alls jökulgruggs í um 4.500 ár, en þá voru jöklar á Íslandi mun minni en í dag og sumur hlýrri."(!)
En auðvitað var losun CO2 - af mannavöldum - mun meiri fyrir átta þúsund árum síðan en í dag, eða hvað?
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 16.11.2012 kl. 19:47
Það sem mestu réði um sumarhlýindi fyrir 6 þúsund árum var önnur staða sólar í almanakinu. Sólarárstíðasveiflurnar eru nefnilega tvær - sú stóra sem ræður vetri og sumri og stafar af möndulhalla jarðarinnar - og sú lítla sem ræðst af árstíðabundinni fjarlægð milli sólar og jarðar (möndulvelta og fleira). Á okkar dögum vinnur lítla-árstíðasveiflan gegn þeirri stóru - jörð er næst sólu í byrjun árs. Á þessum forna tíma jökulleysis á vatnasvæði Lagarfljóts var sólin næst jörðu síðla sumars og litla-árstíðasveiflan vann með þeirri stóru við að keyra sumarhitann upp hér á norðurslóðum. Jöklar eru ótrúlega næmir á hita - fara og koma við mjög litlar hitabreytingar. Losun CO2 og metans af mannavöldum var reyndar hafin á þessum sama tíma - en í mjög smáum stíl. Sumir segja að þessi forna losun hafi komið í veg fyrir það að ísöld hafi skollið aftur á fyrir 2500 árum. Til þess að við getum trúað því verðum við líka að reikna með óþægilega mikilli næmi hitafars gagnvart auknu CO2-magni. En samspil árstíðasveiflusystranna nægir alveg til að skýra út þetta ákveðna forna hlýindaskeið.
Trausti Jónsson, 17.11.2012 kl. 01:46
Þakka gott svar Trausti. Ég er hins vegar hræddur um að það skýri ekki það sem því var ætlað að skýra. Var meðalhitastig jarðar á HCO tímabilinu ekki hærra en það er í dag? Og má ekki geta þess að litla-sólarárstíðasveiflan (Perihelion 3. janúar og aphelion 4. júlí á norðurhveli í dag) hefur gagnstæð árhif á suðurhveli jarðar - líka fyrir 8000 árum? Ég fæ ekki betur skilið en að munurinn liggi í 5 milljón km og þessi munur sé talinn hafa lítil áhrif á hitastig jarðar. Í dag fær syðri helmingur jarðar því 6,9% meiri sólarhita 3. jan. m.v. litlu-árstíðasveifluna, en þeir fara í að hita upp úthöfin þannig að hitamunurinn jafnast út.
Spurningin er því enn og aftur: Hvernig má það vera að meðalhitastig jarðar var hærra fyrir 8000 árum en það er í dag?
Read more: http://www.universetoday.com/14437/how-far-is-earth-from-the-sun/#ixzz2CTKUJ4Jm
Read more: http://www.universetoday.com/14437/how-far-is-earth-from-the-sun/#ixzz2CTKUJ4Jm
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 17.11.2012 kl. 10:31
Hilmar: Spurningin er röng, þú gefur þér að meðalhitastig jarðar hafi verið hærri fyrir 8 þúsund árum en er í dag, lestu t.d. þetta: Taktur loftslagsbreytinga síðastliðin 20 þúsund ár, á norður- og suðurhveli jarðar
Höskuldur Búi Jónsson, 17.11.2012 kl. 12:39
Þarna verður líka taka með í reikninginn að vegna landfræðilegra aðstæðna er norðurhvel miklu viðkvæmara fyrir stóru sveiflunum í sólgeislun. Landmassarnir miklu á norðurhveli safna á sig snjó og jöklum þegar sólgeislun verður þar minni að sumarlagi og svo er það hinn viðkvæmi golfstraumur sem alltaf getur hrokkið í annan gír og hætt að streyma hingað lengst norður í Ballarhaf. Á suðurhveli er hinsvegar allt í meira jafnvægi vegna hinna miklu úthafa sem þar eru. Suðurhvelið er þó ekki ónæmt fyrir stóru sveiflunum á norðurhveli því ástandið smitast þangað að lokum. Jöklaleysi og hlýindi á norðurhveli vegna sveiflu í sólargeislun hefur því áhrif til hlýnunnar um alla jörð á sama hátt og ísaldarástand hefur áhrf til kólnunar um alla jörð.
Þetta er mitt álit en annars var spurningu Hilmars beint til Trausta sem kannski hefur betri skýringar.
Emil Hannes Valgeirsson, 17.11.2012 kl. 13:36
Það er rétt sem Emil segir. Landaskipan veldur því að meginhringrásin er ekki samhverf um miðbaug. Hvelin tvö bregðast ólíkt við geislunaráreiti. Þótt mjög margt sé enn óljóst varðandi áhrif brautarþátta á veðurfar á jörðinni (Milankovic-sveiflur) eru flestir sammála um að þessar sveiflur gefi taktinn ef svo má segja. Hlýindindanna á norðurslóðum á bestaskeiði gætti mest á sumrin - og því hefur jafnvel verið haldið fram að vetur hafi verið kaldari á þessum tíma í Evrópu heldur en nú er. Beri hámark litlu-árstíðasveiflunnar upp á sumar á norðurhveli, bráðnar meira af ís og snjó heldur en nú er - en þar að auki nýtist aukin sólgeislun til aukins skynvarmanáms á meginlöndunum (við það hækkar lofthiti). Á suðurhveli ber litlu-árstíðasveifluna nú á sumarið - enda bráðnar nú nær allur hafís við Suðurskautslandið á hverju ári - þrátt fyrir að vera enn meiri á vetrum heldur en á vetrum norðurhvels. Jökulskjöldur Suðurskautslandsins ver sig betur - enda veldur landaskipan því að þangað kemst nær ekkert hlýtt loft að norðan. Sólarorkan á sumrin fer í ísbráðnun, yfirborð sjávar hitnar síðan og dulvarmabinding er þó nokkur. Dulvarmanámið fer ekki í það að hækka hita í lægstu loftlögum eins og skynvarmanámið gerir á meginlöndum norðurhvels - það er ekkert meginland á suðurhveli á heppilegu breiddarstigi. Stóra-árstíðasveiflan er mjög ólík á hvelunum tveimur - suðurhvel er minni máttar í þeirri sveiflu meðalhita jarðar sem menn sjá á hverju ári. Ef menn trúa því ekki að Milankovic-sveiflurnar ráði einhverju um hitafar er fátt til bjargar varðandi skýringar á tímasetningu jökulskeiða - e.t.v. andardráttur jarðar - koltvísýrings- og metanlosun - en trúi menn því hljóta þeir sömu að trúa því að heimsendir sé í nánd vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa - jú og neiti menn því eftir að hafa jafnframt neitað Milankovicsveiflunum - hvað þá? Kannski einhverjar allsendis óþekktar reglubundnar sveiflur í sólinni? - Hann Indriði?
Trausti Jónsson, 18.11.2012 kl. 01:40
Indriði er alltaf hér Trausti. Eigum við einmitt ekki að taka KISS á þessar djúphyglu dulsjávarpælingar: It's the Sun - stupid!
En heimsendaspámenn kjósa víst frekar að leggja kolefnisskatt á viðrekstur nautgripa...
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 18.11.2012 kl. 09:33
Hilmar, að henda fram svona lélega og villandi töflu tekur þig ekki nema fímm mínútur. Að hafa fyrir því að svara þessu svo vel séð tekur allavega klukkutíma. Hér færðu klukkutíma af mínu lífi og verði þér að góðu.
Almennt séð eru þetta klisjur hjá þér Hilmar og skortur er á gögnum sem staðfesta flest af því sem þú telur upp - fyrir utan að sá sem gerði þessa töflu hefur augljóslega ekki mikla þekkingu á "CO2 theory".
A: Í kenningum um gróðurhúsaáhrifin er hvergi getið um að hitastig á suður og noðurskautinu þurfi að hitna í algjörum takti (svo ég viti til), enda gera vísindamenn ráð fyrir innri breytileika vegna einmitt mismunandi legu landa á suður og norðurhveli jarðar auk annarra þátta (ýmsar náttúrulegar sveiflur hafa áhrif, t.d. NAO o.fl.). Sjá einnig útskýringu Emils og Trausta hér fyrir ofan.
B: Mér skilst að báðar kenningarnar spái meiri hlýnun í veðrahvolfinu, en mælingar sýna það ekki (gallar í mælingum mögulega). Hins vegar spáir gróðurhúsakenningin því að efri hluti lofthjúpsins kólni á sama tíma og neðri hluti lofthjúpsins hlýni - öfugt við það sem sólvirknikenningar spá.
C: Kenningin er sú að Milankovich sveiflur komi af stað breytingum í hlý og kuldaskeið ísaldar, hins vegar yrðu sveiflurnar ekki jafn miklar og í raun ef ekki væri fyrir gróðurhúsaáhrif CO2 - sjá t.d.Hvernig CO2 stjórnar hitastigi Jarðar
D: Skoðaðu t.d. Áhrifaþættir hinnar hnattrænu hlýnunar ,Hin manngerða loftslagsbreyting samanborin við hina náttúrulegu og svo þessa mynd sem er nokkuð lýsandi:
E: Þegar styrkur CO2 var þetta hár á fyrri tímabilum jarðsögunnar, þá var styrkur sólar einnig minni. Sameiginleg áhrif sólar og CO2 sýna góða samsvörun við loftslagsbreytingar. Sjá t.d. Styrkur CO2 var hærri til forna
F: Hlýnun reikistjarna
Höskuldur Búi Jónsson, 18.11.2012 kl. 21:36
Kolefnisholtaþoku-Höski tekur að vanda íshokkíkylfuna með sér í rökræðurnar.
Hérna er reyndar ágætis sýnishorn af heimsendaskáldskap IPCC-elítunnar:
Bláa ferlið er heimsþekktur skáldskapur vina Höska. Rauða ferlið er raunveruleikinn.
Á Sauðárkróki er mesta fannfergi í manna minnum Höski minn - og það í miðjum nóvember. Veturinn er rétt að byrja! Eitthvað rámar mig líka að að hátt í 10.000 (tíuþúsund) ær hafi drepist í fáheyrðu norðanáhlaupi um miðjan september sl. - manstu eftir því Höski minn?
Er ekki örugglega að kólna á Íslandi?
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 20.11.2012 kl. 00:14
Þið eruð fallnir á tíma í athugasemdum piltar.
Trausti Jónsson, 20.11.2012 kl. 00:59
Já fyrirgefðu Trausti, þetta er ekki beint tengt þinum pistli, en ég hef verið ansi duglegur undanfarið að standast freistinguna að benda Hilmari á allar þær fjölmörgu villur sem frá honum kemur. Ég vil enda með að benda Hilmari á að mynd hans er ekki rétt - hvorki hvað varðar upprunalegu myndina frá 1998, né heldur leiðrétta versjón. Ég veit ekki hvar hann finnur allar þessar vitlausu og röngu upplýsingar, en hann er augljóslega duglegur þessa dagana að elta uppi rangfærslur. Hins vegar gerir hann ekki neina tilraun til að rökræða þær rangfærslur sem hann fer rangt með, heldur byrjar alltaf með nýja rangfærslu - fyrir vikið er ekki hægt að rökræða við hann. Bendi á þetta: Hokkíkylfa eða hokkídeild? og Mýta hokkíkylfan er röng.
Höskuldur Búi Jónsson, 20.11.2012 kl. 09:35
Höski, það er ekkert nýtt í því að Hilmar elti upp rangfærslur - þar af leiðandi er rangfærsluleit hans ekki bundin við "þessa dagana"... Hilmar er iðinn við að blanda saman einstökum veðurfyrirbærum (snjó á norðurlandi um vetur á Íslandi) við gróðurhúsakenninguna og draga einhverjar ályktanir út frá því. Hann virðist nú ekki ýkja fær um að draga þær ályktanir...
Hvort það sé þess virði að svara honum veit ég svo sem ekki, en við eigum í sjálfu sér ekki að láta rangfærslur óátaldar per se og höfum við Höski verið iðnir við kolann í þeim efnum...en það er náttúrulega til of mikils mælst að svara öllum tilbúningi hans, eins og t.d. töflunni og myndinni hér að ofan sem virðist vera uppspuni frá rótum...tilbúninginn kryddar hann svo með uppnefnum eins og "innvígða heimsendaspámenn", "Kolefnisholtaþoku-Höski", "heimsendaskáldskap IPCC-elítunnar" o.s.frv. - afskaplega ómálefnalegt að mínu mati...
Fyrirgefðu Trausti ef ég fer út fyrir efnið.
Sveinn Atli Gunnarsson, 21.11.2012 kl. 20:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.