Júlíhitinn í Vestmannaeyjum

Eins og fram hefur komið í fréttum var nýliðinn júlímánuður sá hlýjasti sem mælst hefur á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Þótt lítið mark sé takandi á tveimur aukastöfum í meðalhita skulum við samt nota þá í því sem hér fer á eftir. Júlíhitinn núna var 11,89 stig, næsthlýjast var í júlí fyrir tveimur árum, 2010, 11,75 stig og júlí 1933 er í þriðja sæti með 11,66 stig.

En danska veðurstofan setti upp stöð í Vestmannaeyjakaupstað í júní 1877 og þar var linnulaust mælt í 44 ár eða fram í september 1921 að flutt var til Stórhöfða. Flutningurinn var skyndilegur ef kalla má svo - engar samanburðarmælingar fóru fram sem gætu gefið til kynna hversu mikillar breytingar var að vænta. Rúmlega 100 metra hæðarmunur er á stöðvunum tveimur þannig að búast má við kerfisbundnum hitamun.

Þegar giskað er á breytingu hita með hæð hér á landi er oftast gripið til talna á bilinu 0,6 til 0,7 stig á hverja hundrað metra hækkun. Þegar þær tölur sem verða notaðar i línuritinu hér að neðan voru reiknaðar var ákveðið að kerfisbundinn munur, 0,75 stig væri á stöðunum tveimur þannig að hlýrra var í Kaupstaðnum. Til að fá samfellda röð var hitinn í kaupstaðnum 1877 til 1921 lækkaður um þessa tölu, jafnt í öllum mánuðum ársins.

Eftir að þetta var gert var farið að mæla hita á sjálfvirkum stöðvum bæði á Stórhöfða og í kaupstaðnum. Þetta gerir að verkum að við vitum nú miklu meira um raunverulegan mun staðanna tveggja heldur en áður. Í ljós kom að hann er aðeins minni yfir árið heldur en talið var (0,55 stig) og á sér að auki dálitla árstíðasveiflu. Hann er mestur á vorin og fram á sumar (um 0,7 stig) en minnstur í janúar (um 0,3 stig). Hægt er að giska á ástæðu. Líklega myndast á vetrum mjög grunnstæð hitahvörf við stöðina í kaupstaðnum sem vinna á móti hitamun staðanna þegar vindur er hægur.

Sömuleiðis gefa sjálfvirku athuganirnar í kaupstaðnum góðar upplýsingar um hegðan dægursveiflunnar þar miðað við Stórhöfða. En þessar nýju upplýsingar hafa ekki enn verið notaðar við endurútreikning gamalla meðaltala. Svo vill til að í júlímánuði er munur á nýrri og gamalli hæðarleiðréttingu ómarktækur (0,07 stig) - en svo virðist sem viðbótarupplýsingarnar um dægursveifluna lækki gamla kaupstaðarhitann um 0,1 stig eða svo frá því sem síðast var reiknað. Þessir tveir þættir gætu því jafnað hvorn annan út að mestu.

Meðalhiti í júlí 1880 í kaupstaðnum var 12,66 stig sem reiknaðist niður í 11,91 stig á Stórhöfða. Júlíhitinn nú var eins og áður sagði 11,89 stig. Reikniaðferð dönsku veðurstofunnar gaf 12,8 stig í kaupstaðnum - en þá var dægursveiflan ekki nærri því eins vel þekkt og nú er.

Á árunum 1869 til 1880 var athugað á prestsetrinu Ofanleiti. Þessar mælingar voru ekki eins staðlaðar og veðurstofumælingarnar dönsku (ekkert skýli) en vegna þess að mælt var samtímis á stöðunum í þrjú og hálft ár er unnt að giska á kaupstaðar- og þar með Stórhöfðahitann allt aftur til 1869.

En lítum að lokum á línurit sem sýnir meðalhita á Stórhöfða í júlí 1869 til 2012.

w-blogg030812

Lárétti ásinn markar árin, en sá lóðrétti sýnir meðalhita júlímánaðar. Nærri fjórum stigum munar á hlýjasta og kaldasta mánuði á línuritinu. Kaldastur varð júlí sumarið endemisfræga, 1983. Við sjáum að varla er hægt að velja 30 ára tímabil sem er öllu kaldara en það sem nú er notað til viðmiðunar, 1961 til 1990. Klasar af mjög köldum júlímánuðum komu á árunum 1874 til 1876 og sömuleiðis 1885 til 1888. Nú hafa komið 13 júlímánuðir í röð með yfir 10 stiga meðalhita.

Tímabilið sýnir litla leitni hitans. Sjávarhiti ræður talsverðu um sumarhita í Vestmannaeyjum og veldur því t.d. að talsverð fylgni er á milli hita einstakra mánaða að sumarlagi. Líkur á hlýjum ágúst á eftir hlýjum júlí eru þannig meiri heldur en að kaldur ágúst fylgi hlýjum júlí. Rétt er þó að taka slíka spádóma ekki of alvarlega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6
  • Slide5
  • Slide4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.9.): 7
  • Sl. sólarhring: 272
  • Sl. viku: 1447
  • Frá upphafi: 2497609

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 1309
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband