Af tíðarfari á hundadögum

Hundadagar nefnist tímabil á miðju sumri, hér á landi talið frá og með 13. júlí til 23. ágúst. Þetta er að meðaltali hlýjasti tími ársins. Sömuleiðis er úrkomulágmark vorsins liðið hjá og þar með aukast almennar líkur á rigningatíð.

Þegar sunnanvert landið var hvað mest plagað af rigningasumrum, einkum á tímabilinu frá 1969 og fram yfir 1990 litu íbúar þess landshluta með nokkrum kvíða til hundadaga. Sagt var að ef rigndi fyrstu þrjá dagana myndi rigna þá alla. Út af fyrir sig var nokkuð til í þessu því oft rigndi allt sumarið og alveg eins þessa þrjá daga eins og aðra. En sé farið í smáatriði kemur í ljós að spágildi 13. til 15. júlí gagnvart afgangi sumarsins er ekkert.

Óhætt mun að segja að hundadagar hafi nú hin síðari ár oftast farið vel með sunnlendinga þótt stundum hafi þeir orðið blautir í afturendann - en hlýindi hafa verið ríkjandi.

Við skulum nú líta á tvö línurit okkur til gagns og gamans.

w-blogg170712

Það fyrra sýnir meðalhita í Reykjavík og á Akureyri hundadagana 1949 til 2011. Vinstri kvarði sýnir meðalhitann, blái ferillinn á við Reykjavík, en sá rauði sýnir meðalhita á Akureyri. Græni ferillinn neðst sýnir mismun meðalhitans á stöðunum tveimur. Það þarf að rýna rólega í myndina til að átta sig fyllilega á henni (vonandi gera einhverjir það).

Við sjáum að á Akureyri eru meiri sveiflur frá ári til árs heldur en í Reykjavík. Vel sést hins vegar hversu óvenjulega hlýir hundadagarnir hafa verið í Reykjavík frá og með 2003. Öll árin eru annað hvort ámóta hlý eða hlýrri heldur en allt þar á undan - nema 1950 sem er hér með í keppninni um hlýjustu hundadagana. Getur þetta haldið áfram endalaust?

Nokkur hundadagaskeið skera sig úr hvað varðar mikinn mun á meðalhita í Reykjavík og á Akureyri (græna línan, hægri kvarði myndarinnar). Það eru hundadagarnir 1958 sem eru áberandi hlýrri syðra heldur en fyrir norðan. Það munar 2,6 stigum. Ámóta mikill í hina áttina er munurinn á hundadögum 1955 og 1984, 1983 og 1976 fylgja skammt á eftir. Þetta voru allt fræg rigningasumur sunnanlands.

Á þessu tímabili voru hundadagarnir 2010 hlýjastir í Reykjavík, en 1955 á Akureyri. Kaldast var á hundadögum í Reykjavík 1983 og 1958 á Akureyri. Í Reykjavík munar 4,6 stigum á þeim köldustu og hlýjustu, en 4,8 stigum á Akureyri.

En hvað með lengra tímabil? Þá er þægilegt að grípa til morgunhitaraðarinnar löngu úr Stykkishólmi sem oft hefur komið við sögu á hungurdiskum. Lítum á hana líka.

w-blogg270712b

Við sjáum að hlýindin síðustu árin eiga eins og venjulega allgóðan keppinaut í árum á þriðja og fjórða áratug tuttugustu aldar. Þá byrjuðu hlýir hundadagar strax 1925. Hlýjastir á þessari mynd eru hundadagarnir 2010 og síðan kemur 1872 - ekki er gott að segja hvort við eigum að trúa því - en hvers vegna ekki? Kaldastir eru hundadagar 1882, 1921 og 1963 fylgja ekki langt á eftir.

En hverjir eru svo votustu og þurrustu hundadagarnir? Í Reykjavík (mælingar 1885 til 1907 og 1920 til 2011) finnum við 1984 - með 185,5 mm sem þá votustu - og 1888 sem þá þurrustu (með aðeins 9,8 mm).

Á Akureyri (mælingar frá og með 1928) var blautast 1950 (108,8 mm) en þurrast 1995 (13,1 mm). Í Stykkishólmi (mælingar frá og með 1857, en 1919 vantar) var votast 1976 (145,6 mm) og síðan 1955, en þurrast var 1881 (3,5 mm).

Hvernig verða hundadagarnir nú? Fyrstu þrír dagarnir (13. til 15.) voru afskaplega hlýir og þurrir. Skyldi það ástand halda áfram? Tölvuspár eru eitthvað að þusa um annað og segjast eiga á lager eina dýpstu lægð júlímánaðar í fararbroddi breytinga. Er eitthvað að marka þann skarkala?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.1.): 80
  • Sl. sólarhring: 1027
  • Sl. viku: 2751
  • Frá upphafi: 2426608

Annað

  • Innlit í dag: 77
  • Innlit sl. viku: 2454
  • Gestir í dag: 75
  • IP-tölur í dag: 75

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband