Aðkenning af lægðardragi

Í kvöld (fimmtudaginn 12. júlí) sló um stund blikubakka upp á norðurloftið frá Reykjavík séð. Þar mátti sá gíl (venjulegt nafn á björtum bletti á undan sól) auk þess sem sólarlagið varð rauðara heldur en ella hefði orðið.

Svo veðurlaust er nú á landi hér að mjög rækilega þarf að rýna í veðurkort til að koma auga á það sem blikubakkanum veldur. Flatneskja ríkir á venjubundnum veðurkortum - þó má með góðum gleraugum sjá að háþrýstisvæði yfir landinu sem þokast vestur. Kortið í dag var þannig að lokuð þrýstilína var inni í miðju hæðarinnar - hitalægð dagsins.

Uppi í 500 hPa-fletinum sést ívið betur hvað er á seyði og hér er spákort frá evrópureiknimiðstöðinni sem gildir kl. 6 að morgni föstudagsins 13.

w-blogg10712a

Táknmál kortsins er það sama og venjulega, jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar en jafnþykktarlínur eru rauðar og strikaðar. Svo má sjá fáein bleiklituð svæði sem merkja hvar iðan er mest á kortinu - hún er hvergi mikil.

Hér er þó greinilega norðanátt yfir landinu, hlý hæð yfir Grænlandi og veik lægð austur undan. Þykktin yfir austurströnd Grænlands er meiri en 5580 metrar. Að sögn dönsku veðurstofunnar fór hiti yfir frostmark á hábungu Grænlands - þar er afarsjaldan hláka enda á jökli meira en 3000 metra yfir sjávarmál.

Miklar leysingar eru á Vestur-Grænlandi og vandræðaástand í Syðri-Straumfirði þar sem Straumfjarðará (Kangerlussuaq) braut brúna milli byggðahverfa auk þess að rjúfa vatnsleiðslu. Grænlenska útvarpið talaði um neyðarástand í byggðinni því nokkrar vikur tæki að brúa ána að nýju. Þetta er mesta flóð sem vitað er um á þessum slóðum og eru hitar að undanförnu taldir valda leysingunni.

En aftur til Íslands. Svarta örin á kortinu bendir á lægðardrag - eiginlega bara aðkenningu af lægðardragi. Það nægir samt til þess að búa til blikubakka kvöldsins og á kortinu má sjá að hlýtt loft er í framrás í 5,5 km hæð - rauðu örvarnar eiga að sýna það þar sem norðanáttin ber 5520 metra og 5460 metra jafnþykktarlínurnar til suðurs.

Það er enn sem fyrr að hlýja loftið kemur nú helst úr norðri - og auðvitað nokkuð skaddað eftir norðurferðina - miðað við hlýindi sem koma beint úr suðri á þessum árstíma.

En þessi aðkenning gerir víst lítið - en lengra í norðaustri er annað lægðardrag með heldur dekkri iðuhnút sem boðar heldur ákveðnari lægðarbeygju sem fara á yfir landið aðfaranótt laugardags og á laugardaginn. Kortið hér að neðan sýnir skúrabakka sem reiknimiðstöðin hefur búið til og á að vera yfir landinu á laugardagsmorgunn kl. 9. Einhver blikusambreiskja boðar ábyggilega komu hans annað kvöld (föstudag).

w-blogg10712b

Síðan á þriðja aðkenningin að ganga hjá á sunnudag - að sögn mun helst rigna norðaustanlands - en um það vita hungurdiskar ekkert nema af afspurn.

Allt eru þetta aumingjaleg kerfi í austurjaðri hæðarhryggjarins þaulsetna og teldust ekki til tíðinda nema í veðurleysum. En þegar almenn stórkvarðaþrýstikerfi eru aum má líka fylgjast af athygli með því veðri sem landið sjálft býður upp á - hversu vel skyldu skýin ná sér á strik síðdegis á morgun?

Í dag tókst að búa til flata netjuskýjabreiðu yfir Suðvesturlandi þar sem bólstrar rákust upp undir hitahvörfin. Þeir sem fylgdust vel með sáu síðdegis að á stöku stað löfðu úrkomubönd (virga-stafir) niður úr skýjabotnunum - en þau gufuðu upp löngu áður en þau náðu til jarðar. Skýin voru aðallega úr vatnsdropum - en hæstu hlutum þeirra tókst að ná í frost - og þar með fór úrkomumyndun af stað.

Hversu hátt verða hitahvörfin á morgun - hversu köld verða þau - skyldi nægur raki berast að neðan til að ský myndist yfirleitt?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gæti ástæða veðurbreytinga verið fikt mannsins með veðurkerfin?

https://fbcdn-sphotos-a.akamaihd.net/hphotos-ak-ash4/314891_339622716115216_837838461_n.jpg

Palli (IP-tala skráð) 13.7.2012 kl. 10:56

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Maðurinn hefur áhrif á geislunarbúskap lofthjúpsins og það kann að hafa einhver áhrif á veðurkerfin. En fáir vita hver.

Trausti Jónsson, 14.7.2012 kl. 01:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 56
  • Sl. sólarhring: 471
  • Sl. viku: 2378
  • Frá upphafi: 2413812

Annað

  • Innlit í dag: 55
  • Innlit sl. viku: 2196
  • Gestir í dag: 54
  • IP-tölur í dag: 53

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband