Hlýtt suðaustanlands í dag (sunnudag)

Í dag (sunnudaginn 8. júlí) fór hiti á Stjórnarsandi við Kirkjubæjarklaustur í 24,8 stig og 24,0 mældust á mönnuðu stöðinni. Þetta er líklega hæsti hiti sumarsins það sem af er. Þykktin yfir þessum slóðum var samkvæmt greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar rúmlega 5520 metrar og er hámark dagsins heldur hærra en líklegast er við þá þykkt, en greiningar eru ekki alltaf alveg réttar.

Í greiningunni var mættishiti í 850 hPa mestur 20,8 stig yfir Suðausturlandi í dag - en hefur í raun verið ívið meiri. Hér að neðan er kort sem sýnir mættishita á allstóru svæði kl. 21 í kvöld (sunnudag). Rétt er að rifja upp að sé loft dregið úr sinni hæð niður að sjávarmáli - án blöndunar hlýnar það verulega. Hiti þess eftir flutning til sjávarmáls (réttara, við 1000 hPa) er kallaður mættishiti.

w-blogg080712a

Rauði liturinn er sýnir mættishitann í nokkrum tónum. Kvarðinn sést betur sé myndin stækkuð, en á svæðunum þar sem hann er dekkstur er mættishitinn hærri en 25 stig. Jafnþrýstilínur (venjulegar) eru svartar og heildregnar og hiti í 850 hPa er gefinn til kynna með strikalínum (ekki gott að sjá þær nema að stækka).

Við sjáum að staðbundið hámark er við Suðausturland þar sem mættishitinn er 20,7 stig. Þetta er með því hæsta sem sést hefur í sumar. Við Vestur-Grænland streymir hins vegar enn hlýrra loft til norðurs. Þar er mættishitinn hæstur 27,4 stig - að því er sýnist einmitt yfir Vestribyggð hinni fornu. Engar fréttir er að hafa frá því svæði. En ætli það hafi ekki verið hlýir dagar á sumrin sem hafa gert svæðið byggilegt.

Góðar fréttir eru hins vegar úr Eystribyggð - þar var víða yfir 20 stiga hiti í dag. Hlýtt loft verður þar einnig yfir á morgun - en skýjað veður og einhver úrkoma mun halda hámarkshitanum meira í skefjum en var í dag. Þó er rétt að fylgjast með því mættishita yfir Nasarsuaq er spáð í 28,8 stig annað kvöld og þykktinni yfir 5600 metra. Hvenær gerist það næst hér á landi?

Það verður alla vega ekki á morgun því kalt loft gusast yfir landið úr norðri - en stendur vonandi mjög stutt við. En við getum litið á mættishitaspána sem gildir kl. 21 annað kvöld (mánudag). Þetta er úrklippa úr korti eins og því að ofan (og bregst ekki eins vel við stækkun).

w-blogg080712b

Hér er mættishitinn yfir Austurlandi kominn niður í 6,8 stig - frost er þá á hæstu fjöllum og kaldranalegt neðar. Mun hlýrra er yfir Vesturlandi, 15,5, stig yfir Reykjavík. Það er spurning hvort sólinni muni takast að koma síðdegishitanum upp fyrir það suðvestanlands, það er hugsanlegt.

En síðan á að taka við nokkurra daga hægviðri - væntanlega með veðurtilbreytingu þó. Síðdegisskúrir eru líklegar inn til landsins suma dagana. Svo erum við loks að nálgast mesta þokutímabil ársins - en hingað til hefur lítið verið um þoku vegna þess að loft það sem borist hefur til landsins hefur lengst af sumars verið kaldara en sjórinn. Það gæti nú breyst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Sæll Trausti. Áttu einhverja einfalda skýringu á skilum sem kallast "gustfront" eins og þeim sem gengu yfir Danmörku seint á sunnudag? Virðast vera einhver tegund af kuldaskilum og náðust af þeim afar góðar myndir sem sjá má á vef dönsku veðurstofunnar.

http://www.dmi.dk/dmi/sommerglimt_special_gustfront_ruller_over_danmark

Emil Hannes Valgeirsson, 9.7.2012 kl. 23:42

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Já, Emil ég á skýringu en ég veit ekki hversu einföld hún er. Ég hef reyndar að undanförnu velt því fyrir mér að skrifa um þetta fyrirbrigði en ekki komið mér að því. Ástæðan aðallega sú að þetta er kallað ýmsum nöfnum sem ekki alltaf eiga við nákvæmlega þetta - sömuleiðis hefur mig vantað gott íslenskt dæmi, en á því gæti orðið bið. Ekki er gott að skýringar komi af stað einhverjum ruglingi. En dönsku myndirnar eru sérlega flottar. Ég reyni vonandi við þetta fljótlega.

Trausti Jónsson, 10.7.2012 kl. 01:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg220125a
  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 805
  • Sl. sólarhring: 821
  • Sl. viku: 3184
  • Frá upphafi: 2435626

Annað

  • Innlit í dag: 749
  • Innlit sl. viku: 2859
  • Gestir í dag: 714
  • IP-tölur í dag: 686

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband