Þurrkahugleiðing (en tilefnislítil)

Það er í raun tilgangslítið að tala um þurrkamet löngu áður en þau falla. Þau byggjast upp á löngum tíma - þrásetu veðurs þarf til. Þetta er eins og útsláttarkeppni í íþróttum. Mikið er fyrir því haft að ná langt, en ekki þarf nema einn tapleik (rigningardag) til að vinningsvon sé úr sögunni. En er á meðan er.

Hér í Reykjavík hefur ekki rignt nema rétt rúma 20 mm síðan í maíbyrjun. Hversu oft hefur slíkt gerst á umliðnum áratugum? Það er sjaldan. Í reykvísku mæliröðinni hafa á stangli komið mjög þurrir maí og júnímánuðir. Það hefur gerst fjórum sinnum að úrkoma í maí öllum hefur verið minni en 10 mm. Þurrastur var maí 1931 þegar ekki mældust nema 0,3 mm allan mánuðinn. Ekki keppum við við það því úrkoma í nýliðnum maí var 19,4 mm.

Tveir júnímánuðir eru undir 10 mm, 1971 mældust aðeins 2,1 mm allan mánuðinn. Hinn er 1916 með 3 mm - en varasamt er að telja hann með í keppninni því þá var mælt á Vífilsstöðum og stundum var þar lítið hirt um millimetrabrotin - sem munar um þegar keppt er í þurrki. Tölulega á núlíðandi júní enn möguleika á að verða þurrari heldur en báðir - en telja verður með ólíkindum ef úr slíku yrði. Við skulum því halda okkur við ívið raunhæfari möguleika.

Lítum því á maí og júní saman. Við eigum ekki möguleika í minni úrkomu heldur en 1916 því þá fóru saman þurr maí og júní. Teljum Vífilsstaði ekki með. Næstir í röðinni eru maí og júní 1946 með samtals 26,4 mm og síðan 1931 með 27,8 mm. Ekki er líklegt að við verðum svo neðarlega að þessu sinni. Öll þessi skrif eru því sennilega tilefnislaus og komin í hring.

En skreytum pistilinn með einni mynd. Hún sýnir heildarúrkomu maí og júnímánaða í Reykjavík frá upphafi mælinga 1885 (nokkur ár vantar fyrir 1920).

w-blogg130612

Rauða strikið neðarlega til hægri markar stöðuna þegar þessi pistill er skrifaður. Þarna sjáum við líka rigningamánuðina. Langefst er 1887 með 222 mm. Ritstjórinn var svo heppinn að hitta fáeina menn sem mundu hrakviðrin miklu vorið 1914 og nefndu þeir sérstaklega að þá hefðu menn gert samanburð á tíðarfarinu þá og vorið 1887 - og talið fyrra vorið enn verra. Það staðfestist með mælingum.  

Það má taka eftir því á myndinni að árin undir 40 mm eru ekki mörg.

Til stóð að fjalla í pistli dagsins um ástandið í heiðhvolfinu í júnímánuði - en það bíður næstu daga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 51
  • Sl. sólarhring: 146
  • Sl. viku: 1972
  • Frá upphafi: 2412636

Annað

  • Innlit í dag: 51
  • Innlit sl. viku: 1725
  • Gestir í dag: 50
  • IP-tölur í dag: 49

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband