Hlýjustu júnídagarnir

Hér koma listar um hlýjustu júnídaga síðustu 63 ára - það er frá og með 1949 til og með 2011. Við getum enn vonað að degi eða dögum úr núlíðandi júnímánuði takist að troða sér inn á listana. Reyndar er ekki útlit fyrir að það gerist alveg næstu vikuna - sé að marka spár. Nú vill svo til að sá dagur sem fært hefur landsmönnum hæsta hita sem vitað er um í júní (og allt árið) er utan tímabilsins. Upplýsingar um daglegan hita eru ekki enn til í tölvuskrám fyrir allt landið nema aftur til 1949. Vonandi stendur það til bóta.

En fyrsti listinn sýnir þá daga þegar meðalhiti á landinu var hæstur. Allar tölur eru í °C.

röðármándagurmeðalh.
1194962014,61
2194962214,61
3194962114,00
4198662813,68
5195362413,61
6199961113,48
7197462313,39
8200362613,30
920026913,21
10200062912,86
11200962912,80
12199662412,75
13197462212,73
14195362512,61
15200362512,58

Í ljós kemur að þrír samliggjandi dagar í sama mánuði eiga þrjú efstu sætin. Þetta var í júní 1949. Ekki man ritstjórinn svo langt aftur en man hins vegar að um þessa hita var enn mikið talað þegar áhugi hans á veðri vaknaði fyrir alvöru tíu til fimmtán árum síðar. Vorið 1949 hafði verið óvenju skítlegt - svo slæmt reyndar að rætt var um að nú væri hlýindasyrpan mikla sem byrjaði á þriðja áratugnum fyrir bí. Veður hefði aftur snúist til hallæra 19. aldarinnar. Snjór var á jörð langt fram eftir júnímánuði - en þá gerðist það á nokkrum dögum að skipti um. - En svo varð sumarið ekkert sérstakt.

Í júní 1986 var rigningasamt á Suður- og Vesturlandi en hlýtt og gott norðaustanlands. Flestir voru vissir um að nú væri enn eitt rigningasumarið í undirbúningi - en það varð ekki þrátt fyrir blauta byrjun. Hrökk nú veðurlag í þann gír að bjóða upp á hálf rigningasumur í stað heilla sem hafði verið tíska frá 1969 að telja. Flestum þótti það framför.

Sumarið 1953 sem á daginn í 5. sæti júnílistans þótti mjög hagstætt og kærkomið eftir þrjú mjög lakleg sumur á Norðausturlandi - enda var blíðan ekki á kostnað Suðvesturlands. Allir voru því ánægðir.

Nokkrir nýlegir dagar eru á listanum, sá nýjasti 29. júní 2009. Muna einhverjir eftir honum?

Þá kemur að listanum yfir hæsta meðalhámarkshita á landinu.

röðármándagurmeðalhám.
1194962219,48
2194962019,37
3194962119,32
4197462318,43
5194961917,73
620026917,70
7194962317,63
8198662817,43
9200261017,36
10200962917,01

Sömu þrír dagarnir eru á toppnum og neðar (í 5. og 7. sæti) eru tveir dagar til viðbótar úr sömu syrpu í júní 1949 - þessi eina hitabylgja tekur því helming listans. Hér er 23. júní 1974 maklega í fjórða sæti. Þá lá við að 30 stiga múrinn væri rofinn - hiti komst í 29,4 stig á Akureyri.

Hlýjustu næturnar eru áhugaverðar. Þær finnum við með því að reikna lágmarkshita allra stöðva og athuga þá daga sem hann er hæstur.

röðármándagurmeðallágm
1195362411,04
2195362510,91
3199961110,67
4200962910,57
5201061910,53
6200362610,42
7200362710,26
8194962610,11
920026910,09
10199662410,07

Þarna eru breytingar. Tveir dagar úr júní 1953 eru efstir og síðan koma sex frekar nýlegir. Þá fyrst er dagur úr júní 1949 - en það er sá 26. en enginn þeirra sem efstir voru á fyrri listum. - Ágæt tilbreyting.

Eins og áður sagði nær þessi metingur aðeins aftur til 1949. Leiða má líkur að því í hvaða júnímánuðum helst muni að leita ámóta hlýrra daga. Það er gert með því að athuga hversu hátt hlutfall veðurstöðva hefur náð 20 stiga hita í viðkomandi mánuði. Það getum við gert gróflega aftur til 1924 og reyndar lengra aftur ef við sættum okkur við ört vaxandi óvissu eftir því sem aftar dregur. En til gamans er hér listi yfir þá tíu júnímánuði sem eiga hæst 20 stiga hlutfall. Mælist 20 stig á öllum stöðvum í mánuðinum fær hann töluna 100.

röðárhlutfall
1193975,00
2200271,19
3194970,97
4193463,16
5199958,73
6192554,55
7193652,63
8199745,71
9198845,00
10193742,31

Hér er júní 1939 hæstur - með sitt Íslandsmet í hita. Líklegur til að eiga fulltrúa á lista hlýjustu júnídaganna. Síðan koma 2002 og 1949 - við könnumst við þá og eins 1999, en 1997 og 1988 birtast líka. Einnig sjáum við nokkur eldri ár, 1934, 1936 og 1937 - fjórði áratugurinn var mjög hlýr og einnig á júní 1925 greinilega einhverja góða daga. Vel má vera að síðar takist að negla niður hvaða dagar þetta nákvæmlega eru og hvar þeir myndu lenda á listunum þremur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég fór í að fletta upp í bókum mínum á 29.6. 2009, því mig rak ekki minni til neinna sérstakra hlýinda þann dag. Sem og kom á daginn. Í veðurathugun kl. 06:00 er sprittmælirinn minn í +11°C, loftvogin í 1018 hPa og fellur, hæg NNV gola (2 m/s skv. flugvallarmælinum) alskýjað, flákaský í 900 - 1000 metrum, neðan þokubakkar í hlíðum. Rigning á síðustu klukkustund fyrir athugun og dropar á athugunartíma. Ládautt og skyggni 35 km. Svo klukkan 21:00 er mælirinn enn í +11°C, loftvogin hefur heldur hækkað og er í 1019,5 hPa, VNV 4 m/s og þokuloft með botna í 50 metrum y.s. Rigning á síðustu klukkustund fyrir athugun, sjólítið og skyggni 5 km. Yfir daginn hefur verið hægur vindur framan af, síðan NV kaldi, rigning og súld. En hér er yfirleitt ekkert sérstaklega veðursælt. Til dæmis var hér ansi hvasst á tímabili seinni partinn í gær og bölvuð Skarðagolan var intensive í gærkvöldi.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 11.6.2012 kl. 05:41

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka þér fyrir Þorkell. Ég fletti upp Íslandskorti þennan sama dag og sá að engin voru hlýindin í Skagafirði - og hvergi þar sem vindur stóð af hafi. En hiti var þó víða yfir 20 stigum á landinu. Oft hef ég heyrt Skarðagoluna nefnda en hef aldrei fengið nákvæmlega á hreint hvers konar vind um er að ræða - gætir þú frætt mig um það?

Trausti Jónsson, 12.6.2012 kl. 01:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 106
  • Sl. viku: 1498
  • Frá upphafi: 2348743

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 1304
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband