Tvö hitakort (sýnidæmi)

Sæmilegur hiti er nú í landáttinni yfir hádaginn - en kaldara áveðurs. Kortin tvö sýna spár sem gilda síðdegis á laugardag (9. júní) og eru gerðar af evrópureiknimiðstöðinni. Það fyrra nær til hita í 2 metra hæð (mælaskýlahæð) og vinds í 10 metrum (vindmöstrum). Bæði kortin batna við stækkun.

w-blogg090612a

Við sjáum Ísland í miðju, Grænland til vinstri og Bretlandseyjar í neðra hægra horni myndarinnar. Lituðu fletirnir sýna hita í 2 m hæð frá yfirborði jarðar í líkaninu. Grænlandsjökull er kaldur eins og vera ber og við sjáum töluna mínus 3,5 stig yfir Vatnajökli líkansins (sem er bæði stærri og lægri heldur en sá raunverulegi). Örvar sýna vindátt og vindhraða.

Yfir sjónum er lofthiti oftast svipaður og sjávarhitinn - en ekki er því samt alveg að treysta. Stöku lesendur muna e.t.v. eftir umfjöllun hungurdiska um skynvarmaflæði (orðið hræðilega) þar sem hitamunar lofts og sjávar hefur þráfaldlega verið getið. Blái liturinn byrjar við frostmark en síðan er skipt um lit á tveggja stiga fresti. Tveggja til fjögurra stiga hiti er við norðausturströndina í hafáttinni en mun hlýrra er vestanlands. Jafnhitalínur fylgja lögun landsins að nokkru þar sem hlýjast er - enda er um laugardagssíðdegi að ræða. Þar má ef vel er að gáð sjá töluna 15,0 stig. Sæmilegt á júnídegi - en auðvitað viljum við hærri tölur, þær eru bara ekki á lager í bili.

Hitt kortið sýnir hins vegar mættishita í 850 hPa-fletinum. Flötur þessi er í um 1500 metra hæð yfir sjávarmáli. Mættishiti sýnir hversu hlýtt loftið sem í fletinum er yrði tækist að draga það niður að jörðu (strangt tekið niður í 1000 hPa þrýsting). Hér erum við komin upp úr sjávaráhrifum.

w-blogg090612b

Enda er talsverður munur er á lögun jafnhitalína á þessu korti og því fyrra. Kaldasta loftið (bláa örin) sækir fram mun lengra fyrir austan land en á hinu kortinu - en sveigir síðan vestur með Suðurlandi. Áberandi hlýr blettur er fyrir norðan landið - þar er hlýjasta loftið í námunda við landið. Með góðum vilja má ímynda sér að hér sé um framlengingu á hlýja fleygnum sem stefnir frá Skotlandi og í átt til Íslands (gula örin) að ræða. Yfir Siglufirði má sjá (stækkið kortið) töluna 17,2 stig. Þetta er það hlýjasta á markaðnum í dag - nema við sækjum loft enn ofar að. Það er erfitt.

Jú, það getur orðið hlýrra í sólinni sunnan undir vegg. Sumir gætu haft áhuga á því að rifja upp gamlan pistil hungurdiska  þar sem garðhiti kemur við sögu (vonandi er viðhengið ennþá virkt).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 88
  • Sl. sólarhring: 154
  • Sl. viku: 2009
  • Frá upphafi: 2412673

Annað

  • Innlit í dag: 85
  • Innlit sl. viku: 1759
  • Gestir í dag: 80
  • IP-tölur í dag: 74

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband