Ekki nokkur leið - því miður

Þessa dagana nær hiti sér vel á strik síðdegis þar sem sólar nýtur. Það er varla hægt að fara fram á meira á þessum árstíma. Raunsæið fyrir öllu. Það er þó hálfsvekkjandi að horfa á allt hlýja loftið fyrir ofan, bæði í háloftaathugunum sem og í tölvugreiningum og spám. Á hádegi í dag, á hvítasunnu, var hiti í 3 km hæð yfir landinu +4 stig, hærri hiti en finnst í fljótu bragði í þessari hæð í maí í háloftametalistum hungurdiska. Ef hægt væri að ná þessu lofti niður til jarðar óblönduðu fengjum við að sjá 35 stiga hita. Það gerist auðvitað aldrei, fjallabylgjur geta þó blandað lofti úr þessari hæð niður í það sem neðar er. Blandan verður þó auðvitað talsvert kaldari - rétt eins og þegar köldu vatni er bætt í heitt.

Það sem hér fer á eftir er nokkuð tyrfið og ritstjórinn móðgast ekkert þótt menn standi nú upp og gangi út. Vonandi líta þeir þó aftur við síðar.  

Loft í 3 kílómetra hæð er alveg utan seilingar, heldur raunhæfara er að beina vonum sínum að 850 hPa-fletinum en hann var í dag í 1530 metra hæð yfir landinu. Í þeirri hæð var hiti yfir Keflavík í dag +3 stig - aðeins lægri heldur en uppi í 3 kílómetrum og langt frá maímeti en það er um +11 stig. En nú á að hlýna um nokkur stig í 850 hPa þar til hámarki í bili verður náð aðfaranótt þriðjudags. Þegar þetta er skrifað (seint á sunnudagskvöldi) á hámarkið að verða +10 stig. Væri það loft dregið niður í 1000 hPa yrði hiti þess þar +24 stig, við segjum að mættishiti þess sé +24 stig.

En því miður er ekki hægt að ná þessu lofti niður né blanda það kaldara lofti fyrir neðan nema með ofbeldi. Það er ekki fyrir hendi í hægum vindir. Þar sem vindur stendur af hafi í skýjuðu veðri eða þoku fréttist nákvæmlega ekki neitt af hlýindunum. Þar sem sólin skín fréttist óbeint af þeim. Það gerist þannig að loftið sem hlýnar við snertingu við hlýtt sólbakað yfirborð jarðar getur ekki risið nema takmarkaða hæð frá jörðu því það rekst uppundir hlýja loftið ofan við. Þetta þýðir að sólin er fljótari að hita kalda lagið heldur en hún væri ef langt væri í hlýtt loft ofan við. Rúmmálið sem hita þarf er einfaldlega minna.

Þar sem friður er fyrir sjávarlofti getur hiti þess vegna farið býsna hátt síðdegis við þessi skilyrði. Tuttugu stig verða þá innan seilingar. Þar sem vindur stendur af fjöllum - eru líkur á því að eitthvað af háloftahlýindunum geti blandast niður.

En við lítum á kort frá evrópureiknimiðstöðinni. Það gildir mánudaginn 28. maí kl. 18 og kann við fyrstu sýn að virðast nokkuð flókið. Stækka má kortið talsvert með því að smella á það nokkrum sinnum.

w-blogg280512

Við sjáum Ísland á miðju korti og Grænland til vinstri. Jafnþrýstilínur eru svartar og heildregnar. Tvískipt háþrýstisvæði er fyrir suðaustan og suðvestan land, en minniháttar lægð eða lægðardrag við Grænland.

Ef vel er að gáð má einnig sjá svartar strikalínur en þær marka hita í 850 hPa-fletinum á 5 siga bili. Tíu stiga jafnhitalínan er vestur af Vestfjörðum. Við ættum að geta ímyndað okkur að loftið hafi hlýnað svona í niðurstreymi austan Grænlands.

Litafletir sýna mættishitann - þann hita sem loftið hefði væri það dregið niður í 1000 hPa þrýsting. Á dekksta svæðinu (við gulbrúnu örina) er hann meiri en 25 stig. Örin bendir á tölu við Reykjanes, 22,9 stig. Við skulum vona að við fáum að sjá mikið af dökkrauðum litum yfir landinu í sumar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hvaða gagn er svo sem að þessum litum í háhæðum ef hitinn skilar sér ekki niður. Og hvers konar land er það eignlega sem er þannig sett veðurfarslega að þegar hlýjast er yfir landinu gerist ekkert nema með ofbeldi?

Sigurður Þór Guðjónsson, 28.5.2012 kl. 11:29

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Það er nú víðast hvar sem þetta er svona. Mættishiti hækkar alltaf með hæð hvar sem er í heiminum, mishratt þó.

Trausti Jónsson, 29.5.2012 kl. 00:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 31
  • Sl. sólarhring: 127
  • Sl. viku: 2478
  • Frá upphafi: 2434588

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 2202
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband