Tæknilega ekki met?

Gríðarleg úrkoma var sums staðar vestast á landinu síðasta sólahring rúman. Í morgun kl. 9 mældist sólarhringsúrkoman á Lambavatni á Rauðasandi 134,2 mm (óstaðfest).  Úrkoma hefur verið mæld á Lambavatni síðan 1938. [Síðar kom í ljós að talan átti að vera 34,2mm en ekki 134,2 - enda miklu trúlegra]. Landsmet maímánaðar situr á Kvískerjum í Öræfum, 147.0 mm, mældist þann 16. 1973.

En - nú hefur í allt kvöld (laugardaginn 26. maí) staðið á vef Veðurstofunnar að mest úrkoma á núlíðandi sólarhring hafi mælst í Grundarfirði, 147,7 mm. Ekki er enn farið að jafna sjálfvirkum úrkomumælingum til meta á mönnuðum stöðvum. Við metaáhugamenn getum skriðið í það skjól og einfaldlega sagt að þetta sé nýtt mánaðarmet á sjálfvirkri úrkomustöð - án þess að fórna því mannaða. Gamla metið (nýlegt þó) var sett í Grunarfirði 11. maí 2009. Þá mældust þar 136,0 mm.

En - (enn meira en) hvernig hefði málið farið ef mönnuð stöð væri í Grundarfirði? Við vitum svo sem ekki hversu mikið hefði komið í þann mæli. Ímyndum okkur samt að það hafi verið jafnmikið - en met hefði farið forgörðum vegna skiptingar úrkomunnar á sólarhringa. Á sólarhringsúrkomukorti sem birtist daglega á vef Veðurstofunnar er miðað við hefðbundinn úrkomusólarhring frá því kl. 9 næstliðins morguns þar til kl. 9 á mælidegi. Í morgun (laugardag) sást talan frá Lambavatni, en var 75,4 mm í Grundarfirði á sama tíma.

Við skulum nú líta á mynd sem sýnir úrkomuákefð í Grundarfirði undanfarna daga, mælt er í mm/klst.

w-blogg270512

Lóðrétti ásinn sýnir ákefðina (mm/klst) en sá lárétti klukkustundafjölda frá miðnætti aðfaranótt þess 24. Dálítil rigningargusa kom sitt hvoru megin miðnættis milli 24. og 25. en síðan var þurrt að mestu þar til seint að kvöldi föstudagsins 25. Þá fór að rigna svo um munaði og rigndi baki brotnu þar til kl. 19 á laugardagskvöld.

Listinn á forsíðu vefs Veðurstofunnar skiptir úrkomunni eftir réttum sólarhringum, fyrsta tala sem tekin er með er sú sem mæld er kl. 1. Summan frá því þá þar til stytti upp er 147,7 mm. Rauða punktalínan sem rís upp í miðjum úrkomukaflanum sýnir hvenær mönnuð mæling hefði átt sér stað. Við sjáum að hún skiptir kaflanum nokkuð snyrtilega í tvennt, 67,3 mm fyrir kl. 9 og síðan 80,4 mm. Ef þurrt verður í Grundarfirði í nótt verður sú tala á korti Veðurstofunnar í fyrramálið. Metið teldist ekki gilt - tæknilega.

Úrkoman hefði getað hitt enn betur í sólarhringinn því frá mælingu kl. 20 á föstudegi til kl. 19 á laugardegi féllu alls 154,7 mm.

Grundarfjörður er óvenjulegur úrkomustaður. Í þessu tilviki er það eins gott því svipað úrkomumagn myndi valda algjöru öngþveiti í Reykjavík og jafnvel stórtjóni. Hámarksákefðin á myndinni, 16,5 mm er með því mesta sem gerist hér á landi en hefur þó tvisvar verið ívið meiri í Grundarfirði.

Það vekur furðu að öll þessi úrkoma á Snæfellsnesi norðanverðu og á Vestfjörðum skuli ekki hafa valdið einhverjum skriðuföllum.  [Nú í þessum skrifuðum orðum fréttist af skriðuföllum nærri Ísafirði - það hlaut að vera].

Dagurinn í dag (laugardagur 26. maí) var mjög hlýr um landið austanvert og komst hiti vel yfir 20 stig á allmörgum stöðvum. Enn hlýrra loft verður yfir landinu á mánudag/þriðjudag en því miður er gert ráð fyrir hægum vindi þannig að óvíst er hvort 20 stiga múrinn verður líka rofinn þá. Við fylgjumst með.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 32
  • Sl. sólarhring: 159
  • Sl. viku: 1953
  • Frá upphafi: 2412617

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 1706
  • Gestir í dag: 31
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband