Almennur og sértækur hiti

Það verður að taka fram að hvorki „almennur-“ né „sértækur hiti“ eru föst hugtök í veðurfræði. Þau eru sett hér fram til hægðarauka. Með almennum hita er samkvæmt orðanna hljóðan átt við hita sem nær til stórra samfelldra svæða - alla vega fjölmargra veðurstöðva. Sértækur hiti er hins vegar sá sem stingur sér niður á stöku stað og sker sig úr því sem almennt er á öðrum stöðvum svæðis.

Þegar rætt er um „þykkt“ í veðursamhengi er nær alltaf átt við fjarlægðina á milli 500 hPa og 1000 hPa flatanna. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið á þessu bili. Neðri flöturinn (1000 hPa) er aldrei mjög fjarri sjávarmáli og sá efri sveiflast yfirleitt á milli 5 og 6 kílómetra hæðar yfir jörð. Þykktin er á kortum oftast tilfærð í dekametrum - en einnig má margfalda þær tölur með tíu og fá þá út gildi í metrum.

Líkur á almennum hlýindum vaxa með aukinni þykkt. Gallinn er hins vegar sá að allra mest verður þykktin (á okkar slóðum) í miklum háþrýstisvæðum en þar er vindur langoftast hægur. Kaldur sjór eða kalt land (jafnvel snævi hulið) sjá þá til þess að neðsta lag lofthjúpsins helst kalt jafnvel þótt mjög hlýtt sé ofan við. Þetta er afskaplega algengt hér á landi - en samt er það þannig að mikil hlýindi í háloftunum (mikil þykkt) auka líkur á hlýindum við yfirborð.

Í jaðri háþrýstisvæðanna (oftast vestan við þau) er meiri vindur. Þar er sunnanátt og yfir háveturinn er þykktarhámarkið gjarnan í austurjaðri vindstrengjarins en síðan fellur þykktin ört vestur á bóginn. Þar sem vindurinn á leið yfir fjöll myndast bylgjur (lóðrétt hreyfing). Bylgjurnar geta brotnað og þá blandast hlýja loftið ofan við niður í kalda loftið neðst og hiti hækkar. Ef svo vill til að sól er hátt á lofti nýtist varmi frá henni til að hækka hitann enn meir. Einstöku sinnum geta vindstrengir að ofan náð lítt brotnir niður eftir fjallshlíðum og hiti þá hækkað mjög mikið [en það er flóknara mál]. Við þessi skilyrði er hiti áveðurs fjalla tiltölulega lágur, nærri sjávarhita blási vindur af hafi.

Samandregið: Aukin þykkt hækkar almennan hita - aukinn vindur hækkar sértækan hita. En - mjög hárri þykkt fylgir oftast hægur vindur sem dregur úr líkum á bæði almennum og sértækum hita. Ofurhá þykkt, heppilegur vindur og sólskin getur gefið ofurháan sértækan hita. En því meiri sem þykktin er því ólíklegra er að vindur hjálpi til við metin.

Mesta þykkt sem búast má við hér á landi í maímánuði er um 5600 metrar. Í endurgreiningunni bandarísku er hæsta gildið við landið 5599 metrar. Það var á 64°N og 18°V 22. apríl 1987 kl.18. Þá var þykkt yfir Keflavík heldur lægri. Á hitabylgjulista hungurdiska sem nær til tímabilsins 1949 til 2011 eru dagarnir 20. til 22. maí 1987 einmitt í efsta sæti. Hiti fór í meir en 20 stig á nærri fjórðungi veðurstöðva þann 21. Metþykkt gaf methitabylgju.

Næstmest var þykktin í endurgreiningunni 5582 metrar. Það var kl. 24 þann 29. maí 1915 á 66°N og 22°V - úti af Vestfjörðum. Sennilega stroka úr niðurstreymi við Grænland - enda var vindur af norðvestri í háloftum. Ekki fréttist af sérlega háum hita á landinu - en engar mælingar voru í Kvískerjum. Kuldakast kom strax í kjölfarið.

Hlýjasti maídagurinn hér á landi (sjá pistil 16. maí) er sá 27. árið 1992. Hiti mældist þá 25,6 stig á Vopnafirði. Hver skyldi þykktin hafa verið? Hún var mest kl. 18 á 64°N og 18°V, 5520 metrar. Þennan dag var almennt mjög hlýtt á landinu (þó ekki alveg jafnvíða og 1987) en Vopnafjörður (og fleiri staðir eystra) hafa notið einhverra sérkjara. Hver þessi sérkjör nákvæmlega voru veit ritstjórinn ekki. Þetta segir hins vegar að einhvers staðar í framtíðinni bíður dagur með sól, vind og háa þykkt - og 30 stiga hita í maí.  

En ástæða þessara skrifa er sú að allhárri þykkt er spáð yfir landinu næstu daga, fyrst á laugardag (5540 metrar) og síðan á mánudag (5560 metrar). Við látum mánudaginn alveg eiga sig - spár eiga eftir að riðlast fram og til baka þangað til. Við lítum á hann síðar - ef eitthvað markvert gerist - annars ekki. En horfum smástund á laugardagsþykktarkortið.

w-blogg250512

Kortið gildir kl. 18 á laugardag 26. maí. Lægðardragið sem fjallað var um í pistli í gærer hér um 6 klst fyrr á ferðinni heldur en þar var gert ráð fyrir. Jafnþykktarlínur eru heildregnar en litafletir sýna hita í 850 hPa.

Mikill þykktarbratti er á kortinu og mun kaldara (16 metrum) er á Vestfjörðum heldur en á Austfjörðum þar sem þykktinni er spáð 5540 metrum. Næsta lína þar fyrir ofan er langt úti á sjó. Þótt þar verði hlýtt verður þar enginn 20 stiga hiti - gott ef hann nær 10.

Fari þykktin i raun upp í 5540 metra, verði vindátt „rétt“ og skíni sól gæti hitinn á Austfjörðum eða á Héraði farið býsna hátt - en hiti í 850 hPa er „aðeins“ 8 stig. Hæsti hiti sem mælst hefur í 850 hPa yfir Keflavíkurflugvelli er 11,2 - talsvert hærri.  

Vert að gefa þessu gaum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Kollaleira sýnir 18,9 stig kl. 14. Hæsti hiti á landinu að ég hygg

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.5.2012 kl. 14:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 131
  • Sl. viku: 2476
  • Frá upphafi: 2434586

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 2200
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband