Ráða illa við hvítasunnulægðardragið

Undanfarna daga hefur mikið hringl verið í tölvuspám varðandi lægðardrag sem á að fara hjá landinu á laugardag (26. maí) og aðfaranótt sunnudags (hvítasunnudags). Við skulum nú líta á þrjú dæmi frá því í dag um spá fyrir miðnætti á laugardagskvöld. Það fyrsta kom frá evrópureiknimiðstöðinni snemma í morgun (miðvikudag), það næsta sýnir spá miðstöðvarinnar sem barst nú í kvöld og það þriðja reikninga bandaríska gfs-líkansins sem kom enn síðar í kvöld.

Þetta eru allt 500 hPa-hæðar og þykktarspár að venjubundnum hætti, jafnhæðarlínur svartar eða gráar heildregnar, þykktin er sýnd með rauðum strikalínum - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið og iðan birtist sem misbleikir borðar og hnútar.

w-blogg240512a

Þetta er útlitið eins og það var borið á borð á miðvikudagsmorgni. Aðalhnútur lægðardragsins er við Scoresbysund og góð þykkt yfir Vestfjörðum og öllu landinu. Það er 5520 metra jafnþykktarlínan sem liggur yfir landið norðvestanvert. Ekki er langt í 5580 metra línuna suðaustan við land. Ef hún kæmist til landsins væri það trúlega metþykkt í maí.

En hálfum sólarhring síðar hafði skipt um lag.

w-blogg240512b

Kortið á að taka til sama tíma og það fyrsta. Nú er aðalhnútur lægðardragsins rétt undan Vestfjörðum og jafnþykktarlína sem liggur á svipuðum slóðum og 5520 metra línan á fyrra korti sýnir ekki nema 5400 metra, munar hér 120 metrum (um 6°C). Metlínan (5580 m) er samt á svipuðum slóðum norður af Færeyjum. Þykktin yfir sunnanverðum Austfjörðum er ekki nema 30 metrum lægri heldur en á hinu kortinu. Við tökum auðvitað eftir því að ámóta breitt bil er á milli jafnþyktarlínanna og jafnhæðarlínanna innbyrðis. Það þýðir að háloftavindurinn nær illa niður nema helst við brött fjöll.

Nú er það svo að á fyrra kortinu voru háloftavindar yfir landinu frekar hægir, það þýðir að erfiðara er að koma hlýindum niður til jarðar en þegar þeir eru hvassir eins og á síðara kortinu. Almenn hlýindi á Norður- á Austurlandi á fyrra kortinu víkja fyrir sérframreiddum hita við fjöll á því síðara. (Jæja).

En lítum á eitt kort til viðbótar. Það er úr ranni bandarísku veðurstofunnar og reiknað var frá því kl. 18 á miðvikudag fram til sama tíma og fyrri kortin.

w-blogg240512c

Við sjáum að þessi spá er býsna lík síðari spá reiknimiðstöðvarinnar. Lægðardragið er ámóta skarpt og þykktarsviðið er líka svipað, 5340 metra jafnþykktarlínan snertir Vestfirði.

Það er allt of snemmt að segja til um gildi þessara spáa. Útkoman gæti orðið eitthvað meðaltal þeirra - eða e.t.v. fáum við að sjá nýjar lausnir næstu daga. Vel þess virði að fylgjast með. Einar Sveinbjörnsson ræður í hitatölur á bloggi sínu í kvöld - best að kíkja á það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 34
  • Sl. sólarhring: 152
  • Sl. viku: 1955
  • Frá upphafi: 2412619

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 1708
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband