Enn á norðan

Við höfum nú lent inn í norðanáttarsyrpu sem ekki sést hvernig endar. Fyrstu dagana fer kaldasta loftið til suðurs austan við land en ekki yfir það - við vonum að það verði áfram þannig. En lítum til norðurs - svæðisins sem nánast aldrei er sýnt á sjónvarpsveðurkortum þrátt fyrir að norðanátt sé ríkjandi í háloftunum um 40% tímans hér á landi og helming þess tíma nánast beint úr norðri.

En kvörtum ekki meir og lítum þess í stað á spákort frá evrópureiknimiðstöðinni. Það gildir um hádegi á sunnudag (6. maí). Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru svartar og heildregnar en þykktin er mörkuð með litaflötum. Eins og venjulega er mælt í dekametrum (dekametri = 10 metrar). Græn litarbrigði þykktarinnar eru þau algengustu yfir Íslandi á þessum tíma árs (milli 5280 og 5460 metrar), en sumarið byrjar í sandgula litnum (5460 til 5520 metrar).

w-blogg050512

Bláu litirnir sýna þykkt undir 5280 metrum og verða dekkri niður á við, hvert bil er 60 metrar. Við sjáum að blái bletturinn rétt austan við landið hringar sig um þykkt sem er minni en 5160 metrar. Það er allt of kalt fyrir þennan árstíma. Jafnframt tökum við eftir því að hæðarlínur og þykktarborðar liggja nokkurn veginn samsíða yfir landinu með nær sama bili. Þetta þýðir að norðanáttin undir er hæg.

Mikil hæð er við Suður-Grænland - hún hreyfist ekki mikið næstu daga, þokast e.t.v. suðvestur á bóginn. Það tekur að minnsta kosti nokkra daga að losna úr stöðunni. En við verðum þó að fylgjast með dökkbláa blettinum norður af kanadísku heimskautaeyjunum. Þar er síðasta vígi vetrarkuldans - skæður kuldapollur sem við viljum alls ekki fá nærri okkur.

Þegar kuldapollar eins og þessi eru teknir til skoðunar er litið á lögun þeirra. Þessi er ekki alveg hringlaga - áberandi meiri bratti er sunnan í honum heldur en þeim hluta sem næst liggur norðurpólnum. Það þýðir að hann er trúlega á hreyfingu, stefnan er oftast samsíða þeim vindum nálægt honum sem hvassastir eru. Sú stefna er merkt á kortið með hvítri ör. Ef hann breytir ekki um lögun fer hann í meinlausa hringi um íshafið.

Við getum verið róleg meðan svo er - en ef hann aflagast getur hann dottið í sundur - það er eins og hann verpi eggi - og eggið taki á rás. Við lítum snöggt á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag - við sjáum varpið greinilega.

w-blogg050512b

Ísland er neðarlega á myndunum. Á þriðjudag er pollurinn orðinn langur og mjór og síðan slitnar hann í sundur og sendir afkvæmi til suðurs í átt til landsins. Að vanda skal tekið fram að hungurdiskar spá engu um varpið - alls ekki er víst að reyndin verði með þessum hætti. En dæmið er stílhreint og fallegt og ætti að festast veðurnördum í minni um ókomin ár - langt fram yfir líftíma hungurdiska. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 96
  • Sl. sólarhring: 157
  • Sl. viku: 2017
  • Frá upphafi: 2412681

Annað

  • Innlit í dag: 92
  • Innlit sl. viku: 1766
  • Gestir í dag: 86
  • IP-tölur í dag: 80

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband