Apríl kaldari heldur en mars

Eins og veðurnörd muna hittist þannig á í fyrra (2011) að júní varð kaldari heldur en apríl á fáeinum stöðvum á Norðausturlandi. Ekki er vitað til þess að það hafi gerst áður, hitinn gekk tvo mánuði aftur á bak gegn árstíðasveiflunni. Það er hins vegar mun algengara að gengið sé einn mánuð til baka, t.d. þegar apríl er kaldari heldur en mars. Auðvitað má líka segja að mars hafi hoppað fram um einn mánuð. Það var frekar þannig í ár, mars var óvenju hlýr, en apríl mun nær meðallagi - reyndar yfir því um mestallt land.   

Þegar litið er á tiltækileg gögn kemur í ljós að þessi hegðun mars og aprílmánaðar er furðualgeng. Í ljós kemur að það er þriðja hvert ár að meðaltali sem meðalhiti á einhverri veðurstöð á landinu er lægri í apríl heldur en í undangengnum marsmánuði. Oftast munar þó sáralitlu og stöðvarnar eru fáar. En samt er það um það bil tíunda hvert ár sem apríl er áberandi kaldari heldur en mars - þegar allar eða nærri allar stöðvar landsins bera vitni.

Í ár voru þó ekki nema 44 prósent sjálfvirku stöðvanna kaldari í apríl heldur en í mars. Fyrir tveimur árum voru það hins vegar 77 prósent. Við þurfum að fara aftur til 1991 til að finna ár þar sem allar stöðvarnar voru kaldari í apríl heldur en í mars. Næst áður gerðist þetta 1977, reyndar á öllum stöðvum nema tveimur.

Af einhverjum ókunnum ástæðum voru kaldir aprílmánuðir sérlega algengir fyrir um það bil 50 til 60 árum. Á 17 árum, 1948 til 1964 gerðist það sjö sinnum að apríl var kaldari heldur en mars. Veðurnörd (jú, þau voru til á þessum tíma) hafa þá annað hvort orðið fyrir vonbrigðum með vorið hvað eftir annað - nú, eða smjattað á þessu skemmtilega óeðli tíðarinnar.

Það er sennilega apríl 1953 sem sýndi mesta óeðlið - varð reyndar kaldasti mánuður ársins 1953 - eins og hungurdiskar hafa fjallað um áður. Þá kólnaði um 5,1 stig frá mars og yfir í apríl á Teigarhorni - mun það vera met - nema ef við teljum með það sem gerðist á Akureyri frá mars og yfir í apríl 1808. Þá er sagt að kólnað hafi um 5,7 stig milli mánaðanna. Í Árferði á Íslandi í þúsund ár eftir Þorvald Thoroddsen má lesa eftirfarandi klausu (úr pistli um árið 1808):

Vetur var nyrðra harður fram á góu og voru sumir farnir að skera pening sinn; með góu kom bati, sem stóð fram á einmánuð, en um miðju þess mánaðar kom hret mikið, þegar hafísinn rak að landi, og fannir stórar, þá urðu margir fjárskaðar.

Einmánuður er síðastur vetrarmánaða í gamla íslenska tímatalinu, síðustu dagar mars og apríl fram að sumardeginum fyrsta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hefur hlýr mars -  kaldur apríl eitthvert forspárgildi fyrir sumarið? Í fyrra var apríl hér austur á fjörðum með afbrigðum hlýr en sumarið olli fólki miklum vonbrigðum. Nú var apríl afar napur hér eystra. Mig langar að trúa að það sé gott sumar framundan.

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.5.2012 kl. 08:59

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Er hluti skýringar á þessu sá, að gangur vetrarlægðanna gengur niður í mars og í garð gengur hæsti meðalloftþrýstingur ársins í lok apríl og í maí?

Skylt því er það, að nú, þegar loftþrýstingur er hár á okkar slóðum, eru mikil þurrvirðri norður af Vatnajökli, og á þeim veðurstöðvum, sem ég fylgist að staðaldri með vegna Sauðárflugvallar á Brúaröræfum, veðurstöðinni við Kárahnjúka og veðurstöð sem er aðeins 2 km fyrir suðvestan völlinn, hefur rakastig komist niður í 31% og veðrið allt öðruvísi en búast mætti við í norðanátt, mun hlýrra en niðri við sjóinn og miklu þurrara.

Ég fylgist vel með núna til að reyna að sjá hvenær frost verði farið úr vellinum og hafði áhyggjur af því að í norðanáttinni myndu verða mikil frost á hálfauða jörð.

En í staðinn er skráþurrt þarna, bjart og sólskin með hita allt upp í 3-4 stig sem þýðir að klaki í jörðu, sem áreiðanlega er með minnsta móti, gæti verið á góðri leið með að fara.

Þú hefur betri og víðfeðmari gögn hjá þér en ég hef og mig langar til að spyrja þig hversu mikill þurrkur 31% raki telst í heimssamanburði.

Verður loftið oft þetta þurrt hér í Reykjavík?  Rakastigið hér er mun hærra en á Brúaröræfum dag eftir dag.  

Ómar Ragnarsson, 5.5.2012 kl. 01:05

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Gunnar. Ekkert segir parið hlýr mars - kaldur apríl neitt um sumarið. Sumar var t.d. gott 1953 - eftir ýktasta dæmið, en heldur dauft 1964 ´sem er annað dæmi. Við skulum vona að gott sumar sé framundan.

Já, Ómar að það er rétt að afl heimskautarastarinnar minnkar snögglega á vorin og loftþrýstingur hækkar. Í smáatriðum er orsakasambandið þó flókið. Dægursveifla rakastigs er mjög stór í björtu veðri á þessum árstíma - en ég sé á línuriti fyrir veðurstöðvina á Brúaröræfum að daggarmarkið sveiflast líka - það þýðir að aðstreymi hefur verið af þurru lofti. Dagurinn í dag var reyndar í flokki heiðríkari daga í maí (þó ekki heiðríkastur að ég held). Svona heiðríkja getur varla orðið nema í niðurstreymi austan Grænlands - enda sýna reikningar evrópurreiknimiðstöðvarinnar slóða af þurru lofti frá Grænlandi liggja yfir Íslándi með raka á bilinu 30 til 40% á stóru svæði í 600 metra hæð. Rakinn á Brúaröræfum nú er met í maí (áður lægst 34%) en hefur reyndar farið niður fyrir 30% í öllum öðrum mánuðum ársins (lægst 21% ef trúa á mælingum). Raki fer sárasjaldan niður fyrir 30% í Reykjavík - en kemur þó fyrir. En höfum í huga að rakamælingum er hætt við villum - þannig að ég þori ekki að nefna nákvæmar mettölur Reykjavíkur hér og nú.

Trausti Jónsson, 5.5.2012 kl. 02:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 96
  • Sl. sólarhring: 157
  • Sl. viku: 2017
  • Frá upphafi: 2412681

Annað

  • Innlit í dag: 92
  • Innlit sl. viku: 1766
  • Gestir í dag: 86
  • IP-tölur í dag: 80

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband