Sumarkoma í heiðhvolfinu - nepjumánuður í jaðarlaginu?

Fyrir mánuði birtu hungurdiskar kort sem sýndi hæð og hita í 30 hPa-fletinum yfir norðurhveli. Áhugasamir lesendur voru beðnir um að leggja kortið á minnið - en ekki var ætlast til þess að nokkur gerði það. En nú lítum við á samskonar kort sem gildir á morgun, þriðjudaginn 24. apríl kl. 18.

w-blogg240412a

Á kortinu fyrir mánuði mátti sjá gríðarmikið lægðarsvæði og umhverfis það var fjöldi jafnhæðarlína (12 voru þær). Lægðin var þó farin að láta á sjá miðað við það sem verið hafði fyrr í vetur. Á korti dagsins er lægðin varla til lengur - máttlítil hæð er kominn í stað hennar - en jafnhæðarlínur eru svo fáar að erfitt er að meta hvað er hæð og hvað lægð. Sú jafnhæðarlína sem næst er bókstafnum H sýnir 23900 metra.

Þetta er í rétt tæplega 24 kílómetra hæð frá jörðu - meir en tvöfalt hærra en farþegaflugvélar fljúga. Þrýstilandslagið er nærri því alveg flatt og vindur sáralítill. Litafletirnir sýna hita. Hlýjast er næst hæðinni, þar er frostið um -45 stig. Kaldast er yfir Mið-Asíu rúmlega -60 stig, þar er trúlega smávegis uppstreymi vegna hlýinda neðar.

Á næstunni mun hæðin heldur styrkjast. Venjulega sest hún að yfir Norður-Íshafi þar sem sól skín nú allan sólarhringinn og hitar mest óson sem aftur hitar aðrar loftsameindir með árekstrum við þær. Við það að hæð myndast fyrir norðan okkur snýst vindur til austurs í heiðhvolfinu í stað vestanáttarinnar sem ríkir meirihluta ársins.

Um þetta leyti dregur einnig úr vestanátt í veðrahvolfinu. Það sést greinilega í langtímameðaltölum en breytingartíminn er ekki jafn vel negldur niður og uppi í heiðhvolfi. Þá vex austan- og norðaustanátt að tíðni hér á landi. Tíminn frá því um 20. apríl og fram undir 20. maí er eiginlega sérstök árstíð, mánuðurinn harpa. Sumir segja að það þýði nepjumánuður. - Vel til fundið hjá forfeðrum okkar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1046
  • Sl. sólarhring: 1112
  • Sl. viku: 3436
  • Frá upphafi: 2426468

Annað

  • Innlit í dag: 933
  • Innlit sl. viku: 3089
  • Gestir í dag: 905
  • IP-tölur í dag: 838

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband