Vikmögnun á norðurslóðum? (söguslef 18)

Nú er liðið nærri ár frá síðasta söguslefi hungurdiska. Sjálfsagt eru allir nema hörðustu lesendur búnir að gleyma hvað það er þannig að rétt er að rifja það upp. Söguslefið er umfjöllun um langtímaveðurfarssögu þar sem ritstjórinn slefar upp það sem aðrir hafa skrifað og setur fram á frjálslegan hátt. Beðist er afsökunar á slefvillum - þær eru ritstjóranum að kenna. Flest slefin flokkast undir nördaefni.

Að þessu sinni er fjallað um það sem kallað er „vikmögnun á norðurslóðum“ frjáls íslensk þýðing á enska hugtakinu „Arctic Amplification“ en það sést oft í umræðu um veðurfarsbreytingar. Hugmyndin er sú að veðurfarsbreytingar séu allar mun magnaðri á norðurslóðum heldur en annars staðar, músartíst í hitabeltinu verði að mammútsöskri í Síberíu og dauðaþögn á Grænlandi.

Um þetta er fjallað í góðri fjölhöfundagrein sem birtist í Quaternary Science Reviews árið 2010. Tilvísun er hér að neðan - fyrir alla muni lesið hana en hún er í opin á netinu og skilar sér strax í leit hjá frú gúgl. Quaternary í titli ritsins vísar til þess jarðsöguskeiðs þess sem staðið hefur í síðustu tvær til tvær og hálfa milljón ára og hefur verið nefnt kvartertíminn á íslensku (við látum vera að snúa út úr því að sinni).

Í greininni er rakið hvernig hitafari var háttað á fjórum skeiðum jarðsögunnar, annars vegar á norðurskautssvæðinu og hins vegar í „heiminum öllum“. Þessi fjögur skeið eru: Hlýjasti bútur plíósenskeiðsins fyrir um 3,5 milljónum ára síðan, hlýjasti bútur síðasta stórhlýskeiðs ísaldar (sem oft nefnt Eem-skeiðið) fyrir um 130 þúsund árum, kaldasti stubbur síðasta jökulskeiðs fyrir um 20 þúsund árum og svonefnt bestaskeið nútíma fyrir um 8 þúsund árum. Fimmta skeiðið er reyndar einnig með - en það er það tíðarfar sem við nú búum við.

Út úr þessu öllu kemur athyglisverð mynd sem við skulum líta nánar á.

w-blogg290312

Henni er óbeint stolið úr greininni þannig að notuð er gerð hennar sem birtist nýlega í fréttariti Pages-verkefnisins svonefnda en það fjallar um hnattrænar náttúrufarsbreytingar fyrri tíma (past global changes). Auðvelt er að finna það og fréttabréfin á netinu.

En lítum á myndina. Á lárétta ásnum má sjá vik heimshitans frá meðallagi (sem er auðvitað ekkert meðallag - heldur bara það sem við búum við í dag). Talið er að hiti þegar kaldast var á síðasta jökulskeiði hafi á heimsvísu verið um 5 stigum kaldari heldur en nú en á sama tíma hafi verið um 20 stigum kaldara heldur en í dag á norðurslóðum. Bláa svæðið á myndinni á að sýna þetta. Líklegustu ágiskanir eru taldar rúmast innan armanna á krossinum sem er í miðju svæðinu. Þar eru gefin nokkuð rúm mörk norðurslóðaviksins, frá -15 niður í -25 stig. Ískyggilegt.

Í efra hægra horni myndarinnar má hins vegar sjá ágiskanir um hitafar á plíósen. Giskað er á að þá hafi hiti á heimsvísu verið um fjórum stigum hærri heldur en er nú á dögum. Vissan um þetta er hins vegar lítil - láréttu örvarnar afmarka bilið frá tveimur og upp í sex stig. Hins vegar telja menn sig hafa neglt norðurslóðavikið betur niður, í kringum 10 til 12 stig. Það er líka ískyggilegt.

Á milli þessara öfgatíma eru svo tvö minni hlýskeið. Annað er það stóru hlýskeiðanna sem fór næst á undan því sem við nú lifum (Eem). Talið er að þá hafi hiti á norðurslóðum verið allt að fimm stigum hærri heldur en nú er - en heimshitinn er óvissari, á bilinu núll til tveggja stiga yfir nútímalagi.

Síðasta dæmið er svokallað bestaskeið nútíma - (holocene thermal maximum) en tilgátur eru uppi um það að hámarkshita á norðurslóðum hafi verið náð fyrir um átta þúsund árum. Þá hafi verið um tveimur stigum hlýrra heldur en nú á norðurslóðum en e.t.v einu stigi hlýrra í heiminum í heild.

Um ástæður þessara miklu veðurfarssveiflna er ekki fjölyrt hér, en greinin er með ýmsar vangaveltur þar um. Höfuðáhersla hennar er þó auðvitað sú hvernig menn fara að því að giska á hitafar fyrri tíma.

Út úr þessum fjórum (fimm) punktum er reiknuð aðfallslína og fæst þá niðurstaðan sem nefnd er á myndinni: Hitavik eru rúmlega þrisvar sinnum stærri (3,4) á norðurslóðum heldur en í heiminum í heild. Nákvæmnin hér er mikið álitamál en rök greinarinnar eru nokkuð sannfærandi.

Greinin fjallar einnig um hafísinn og örlög hans. Í hlýindum plíósen er talið að hans hafi aðeins gætt um hávetur og ábyggilega hafi hann þá ekki náð að þekja Norðuríshafið. Á Eem er talið að hann hafi horfið að mestu að sumarlagi en myndast á hverjum vetri - alla vega á stórum svæðum. Gert er ráð fyrir því að á bestaskeiði hafi hann flökt við það að hreinsast á sumrin - en ekki alltaf.

Við vitum hvernig ástandið er í dag (og gróflega síðan að bestaskeiði lauk fyrir um fjögur þúsund árum eða svo). Mikill ís er á Norðuríshafi allt árið um kring.

Við hámark síðasta jökulskeiðs er talið að jökull hafi víða gengið út á Norðuríshafið svipað og þekkt er nú á dögum á sjávarjöklum Suðurskautslandsins. Hafísinn sjálfur hafi einnig verið mun þykkari heldur en nú er, jafnvel tugir metra eða meira.

En hungurdiskar slefa meira síðar.

Greinin:

Miller, G.H.,Alley, E.B., Brigham-Grette, J., Fitzpatrick, J.J., Polyak, L., Serreze, M.C.,White, J.W.
C., 2010. Arctic amplification: can the past constrain the future? Quatern. Sci. Rev. 29,
1779–1790.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Áhugaverð grein - hafði ekki séð hana áður. Þetta sýnir okkur kannski líka hversu lítil hlýnun hnattrænt getur haft á Norðurslóðum og setur ákveðið spurningamerki um hversu stöðugur Grænlandsjökull og sífreri Norðurslóða verður ef hnattrænn hiti hækkar um t.d. 3 °C - þýðir það ekki mögulega hækkun um 10 °C á Norðurslóðum? 

Höskuldur Búi Jónsson, 29.3.2012 kl. 09:34

2 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

TRAUSTI- MER FINNST ALLTAF GAMAN AÐ SJÁ ÞIG- EN SKIL EKKI RA......AT Í ÞESSU VEÐURFARI ÞÍNU.

EN ÞAR SEM EG MÁLA FINN EG OFT MYNDEFNI Í VEÐURMYNDUM ÞÍNUM !

Erla Magna Alexandersdóttir, 29.3.2012 kl. 22:39

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Höskuldur. Vangavelturnar eru auðvitað þannig - að þriggja stiga hækkun á heimsvísu þýði tíu stig á norðurslóðum. En málið er kannski ekki alveg svo einfalt þegar hraði breytinga er tekinn með í reikninginn. Tilvikin fjögur sem fjallað er um í greininni eru ekki augnabliksgildi - ekki einu sinni þúsundáragildi. Hvað gerist á styttri tímakvarða er vægast sagt óljóst - ekki er þá víst að þessi einfalda margföldun eigi við. Erla, flestir sem ég þekki skilja ekkert í þessu veðurbloggi heldur - það er ansi sérhæft og á að vera það. En það er gott ef myndirnar geta ýtt undir nýjar hugmyndir.  

Trausti Jónsson, 30.3.2012 kl. 01:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.1.): 71
  • Sl. sólarhring: 327
  • Sl. viku: 2838
  • Frá upphafi: 2427390

Annað

  • Innlit í dag: 53
  • Innlit sl. viku: 2541
  • Gestir í dag: 51
  • IP-tölur í dag: 51

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband