Átök vors og veturs

Eftir hlýindin í dag (mánudaginn 26. mars) er gott að huga að norðurhvelsstöðunni. Mikill rembingur verður í háloftum yfir Íslandi næstu daga og takast hlýja vorloftið sem reynir að helga sér land og veturinn sjálfur í bæli sínu norðurundan fast á.

w-blogg270312a

Trúlega þurfa flestir að stara smástund á kortið til að átta sig. Ísland er neðan við miðja mynd sem annars nær yfir stóran hluta norðurhvels norðan 30. breiddarstigs. Alaska er undir hvíta L-inu sem efst er og heldur vinstra megin á kortinu. Kanaríeyjar og Afríkuströnd eru neðst á myndinni.

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru svartar og heildregnar en litafletir sýna þykktina. Því þéttari sem jafnhæðarlínurnar eru, því meiri er vindurinn en hann blæs samsíða hæðarlínum. Spáin gildir á hádegi miðvikudaginn 28. mars.

Gríðarleg hæð sunnan Íslands sker sig mjög úr á kortinu. Þar reynir vorið að negla sig niður. Það gengur auðvitað ekki til lengdar - en er á meðan er. Innsta jafnhæðarlínan sýnir 5760 metra - langt yfir meðallagi. Meginkuldapollur norðurhvels (Stóri-Boli) er í eðlilegri stöðu yfir kanadísku heimskautaeyjunum, innsta jafnhæðarlína hans er 4920 metrar - svipað og algengt er á þessum árstíma. Hann þrjóskast eitthvað við áfram en lætur illa þegar hlýja loftið klórar honum á kviðnum eins og nú er.

Mikill vindstrengur er á milli hæðar og lægðar í námunda við Ísland, hann sést líka á þykktarsviðinu (litirnir). Á þessum árstíma er meðalþykktin yfir Íslandi í kringum 5300 metrar, hér er hún 100 metrum hærri. Á miðvikudaginn verður því enn hlýtt yfir landinu. Við sjáum líka að greinileg hæðarbeygja er á jafnhæðarlinum. Erfitt er fyrir kalda loftið að ná taki á henni þannig að hún snúist yfir í lægðarbeygju. Norðvestanlægðarbeygjur eru afskaplega leiðinlegar á öllum tímum árs en ekki síst á vorin því þeim fylgja norðanáhlaup og hret.

Spár undanfarna daga hafa gefið til kynna að kalda loftið kæmist yfir okkur fyrir eða um helgina og hæðin hrykki undan. En þegar þetta er skrifað (á mánudagskvöldi) eru þær ekki jafnvissar um það og áður. Evrópureiknimiðstöðin lætur grunna lægðarbeygju fara hér hjá á aðfaranótt föstudags. Þá er hugsanlegt að köld sletta komi úr norðri inn yfir landið, en nái ekki taki og hæðarbeygjan taki aftur við. Lægðardragið á síðan að renna suður til Danmerkur og valda þar skammvinnu kuldakasti um helgina.

Þegar vindátt í háloftunum er jafn vestlæg og kortið sýnir þarf mjög lítið til að kalt loft að norðan fleygist undir það hlýja þannig að hitaspár út frá þykktinni einni gefa hærri hita við sjávarmál heldur en síðan verður. Á aðfaranótt fimmtudags (29. mars) á 5500 metra jafnþykktarlínan að strjúka suðurströndina. Þessarar óvenjulegu þykktar gætir varla í hitanum á jörðu niðri - en metasinnar geta svosem vonað. Þá er helst að einblína á staði eins og Kvísker í Öræfum, vindur verður varla nægilega norðvestanstæður til þess að Eyjafjöllin skjóti inn háum tölum að þessu sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.1.): 72
  • Sl. sólarhring: 328
  • Sl. viku: 2839
  • Frá upphafi: 2427391

Annað

  • Innlit í dag: 54
  • Innlit sl. viku: 2542
  • Gestir í dag: 52
  • IP-tölur í dag: 52

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband