Afbrigðilegir marsmánuðir 2 - austan og vestanáttir

Í hávaðasamri umfjöllun um hita og litla ljóta bletti má ekki gleyma hinum fasta lið um afbrigðilega mánuði. Við höfum þegar kannað mestu sunnan- og norðanáttarmarsmánuðina og er því komið að austan- og vestanáttum. Við notum sömu flokkunarhætti og áður.

1. Mismunur á loftþrýstingi sunnanlands og norðan. Þessi röð nær sem stendur aftur til 1878. Gengið er út frá því að sé þrýstingur hærri norðanlands heldur en syðra séu austlægar áttir ríkjandi. Líklegt er að því meiri sem munurinn er, því þrálátari hafi austanáttin verið. Reyndar er það svo að austlægar áttir eru mun algengari á Íslandi heldur en vestanáttin og af þeim 133 marsmánuðum sem hér eru undir var þrýstingur hærri sunnanlands í aðeins 13 tilvikum.

Mestu austanáttarmánuðirnir eru flestir gamlir, sá yngsti er í fjórða sæti, mars 1981. Mest var austanáttin í mars 1897. Það þótti fremur hagstæður mánuður - en ekki laus við hin stöðugu vertíðarsjóslys fyrri ára. Mánuðurinn í öðru sæti er hinn frægi mars 1881 - kaldasti mánuður hitamælingasögunnar hér á landi. Í þriðja sæti er mars 1903. Þessir mánuðir eiga fátt sameiginlegt nema austanáttina þrálátu.

Vestanáttin var mest í mars 1925, þá var rysjótt tíð en samt ekki talin mjög óhagstæð. Mars 1910 er í öðru sæti sömuleiðis með umhleypinga en mars 1929 er í þriðja sæti. Hann er álíka frægur fyrir hlýindi og mars 1881 er fyrir kulda.

2. Styrkur austanáttarinnar eins og hann kemur fram þegar reiknuð er meðalstefna og styrkur allra vindathugana á öllum (mönnuðum) veðurstöðvum. Þessi röð nær aðeins aftur til 1949.

Á þessum lista er austanáttin mest 1981 eins og fjórða sæti hér að ofan gaf sterklega til kynna, en mars 1978 er í öðru sæti. Í mars 1981 var tíð óhagstæð og frekar snjóþung. Samgöngur voru erfiðar og talsvert tjón varð í illviðri þann 26.

Vestanáttin var mest í mars í fyrra, 2011. Tíðarfar var umhleypingasamt eins og einhverjir muna ennþá - alla vega menn í Árneshreppi á Ströndum. Í næstu sætum eru mars 1961 og 1973, í báðum þeim tilvikum var tíð talin góð eystra en óhagstæð í hafáttinni á Vesturlandi.

3. Gerðar hafa verið vindáttartalningar fyrir þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað samfellt og vindathugunum skipt á 8 höfuðvindáttir og prósentur reiknaðar. Síðan er tíðni norðaustan-, austan og suðaustanáttar lögð saman. Þá fæst heildartala austlægra átta. Þessi röð nær aftur til 1874.

Að þessu máli telst mars 1963 mestur austanáttamánaða - fádæma góður mánuður á Vesturlandi. Mig minnir að flestar veðurfréttir hafi byrjað nokkurn veginn svona: Víðáttumikið og hægfara lágþrýstisvæði langt suður í hafi. Þetta var ekkert sérlega spennandi fyrir upprennandi veðurnörd, læst leiðindi eiginlega - en í baksýnisspeglinum er ekkert að sjá nema vorveðurblíðu - nema eina hráslagalega slyddunótt. Mars 1897 (áður nefndur) er í öðru sæti og síðan koma mars 1978 og 1981 sem einnig hafa verið nefndir.

Mesti vestanáttarmars þessarar aðferðar er 1961 og síðan koma 1929 og 1973. Allir hafa áður verið nefndir.

4. Fjórði mælikvarðinn er fenginn úr endurgreiningunni amerísku og nær hann aftur til 1871. Fyrstu 20 til 30 árin verðum við þó að taka niðurstöðum greiningarinnar með varúð.

Endurgreiningin segir austanáttina hafa verið mesta 1897 (eins og fyrsta aðferð hér að ofan) en næstmesta 1981. Vestanáttin er mest 1948 og næstmest 1949. Endurgreiningin nær ekki nær okkur í tíma en 2008 en bæti maður við með greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar fær 2011 toppsætið. Mars 1929 er í fjórða sæti.

5. Fimmti kvarðinn er einnig úr endurgreiningunni nema hvað hér er reiknað í 500 hPa-fletinum. Mars 1897 er enn mestur austanáttarmarsmánaða og 1963 í öðru sæti. Það vekur athygli að austanátt er ríkjandi í aðeins fjórum marsmánuðum. Vestanátt er ríkjandi í háloftunum yfir Íslandi í mars þótt austanátt ríki niðri.

Háloftavestanáttin var mest 1961 í endurgreiningunni - en með framlengingu evrópureiknimiðstöðavarinnar lendir mars 2011 enn á toppnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • w-blogg230325a
  • Slide15
  • Slide14
  • Slide13
  • Slide12

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.3.): 42
  • Sl. sólarhring: 103
  • Sl. viku: 1247
  • Frá upphafi: 2455791

Annað

  • Innlit í dag: 38
  • Innlit sl. viku: 1133
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 31

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband