20.2.2012 | 01:06
Enn af hlýindaskeiðinu mikla - veðrasveiflur síðustu áratuga (10)
Gjarnan er talað um árabilið 1920 til 1965 sem hlýindaskeiðið mikla eða tuttugustualdarhlýskeiðið. Í fyrri pistlum var fjallað um upphaf þess og miðju auk þess sem dálítill samanburður var gerður á því og núverandi hlýskeiði sem staðið hefur linnulítið í 16 ár og verið sérlega öflugt síðustu 10 árin.
En hiti var ekki samfellt jafnhár allt skeiðið - og varla við því að búast að núverandi hlýskeið verði heldur alveg laust við kuldaköst og svöl ár. Myndin sýnir 12-mánaða keðjumeðaltöl hita í Reykjavík frá 1922 til 1966.
Árakvarðinn er láréttur en hitinn er á lóðrétta ásnum. Þótt talað sé um að hlýskeiðið hafi byrjað strax 1920 (enginn kaldur vetur kom eftir það) er samt varla rétt að telja fyrsta lágmarkið á þessari mynd inni á skeiðinu. Fyrstu sumrin eftir 1920 voru heldur skítleg með snjókomu til fjalla og öðrum einkennum kuldaskeiða. Tímabundnum botni var náð á 12-mánaða skeiðinu júní 1923 til maí 1924. Hiti varð reyndar ekki jafn lágur aftur á neinu 12-mánaða tímabili í Reykjavík fyrr en 1979 - þá datt hann niður fyrir kvarðann á myndinni.
Áberandi er hvernig hitinn sveiflast á 3 til 5 ára fresti - þó án fastrar reglu. Það var fjórum sinnum sem 12-mánaða meðalhiti fór yfir 6 stig. Það hefur gerst tvisvar á síðustu tíu árum. Við sjáum að á milli toppanna datt hiti talsvert niður - oftast niður fyrir 4,5 stig. Hlýindi síðustu 10 ára hafa aftur á móti verið eindregnari.
Á myndinni má sjá að munur er á fyrri og síðari hluta skeiðsins. Mestu hlýindin eru öll á fyrri hlutanum. Á árunum 1949 til 1952 er eins og hik komi í hlýindin og þau verða ekki jafnmikil eftir það og áður var. Mestu munar að hitasumrum fækkaði og segja má að hlýskeiðinu hafi verið lokið hvað hlýindasumur varðaði strax fyrir 1950. Að vísu komu fáein allgóð sumur eftir það - en þau voru annað hvort styttri eða landshlutabundnari heldur en áður.
Veturinn entist lengst í hlýindunum og byrjaði fyrst. Ekki er vitað hvað þessu veldur né hvers vegna hlýindaskeiðið kom yfirleitt. Þetta hlýindaskeið virðist hafa tekið til minna svæðis heldur en það skeið sem nú ríkir.
Hægt er að tengja hitasveiflur á því árabili sem hér hefur verið rætt um allvel við andardrátt vestanvindabeltisins. Hlý ár fylgja annað hvort miklum sunnanáttum við Ísland eða þá hárri stöðu 500 hPa-flatarins. Er það misjafnt hvort vegur meira hverju sinni. Um þetta var fjallað sérstaklega í veðrasveiflupistli númer tvö (27. 10. 2011). Flesta pistlana má finna með því að leita að orðinu veðrasveiflur í leitarglugga bloggsíðunnar. Má af því ráða hvers vegna þetta tilgerðarlega orð er notað í titlum þeirra.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 29
- Sl. sólarhring: 131
- Sl. viku: 2476
- Frá upphafi: 2434586
Annað
- Innlit í dag: 26
- Innlit sl. viku: 2200
- Gestir í dag: 26
- IP-tölur í dag: 25
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Athugasemdir
Væntanlega væri mikið unnið ef menn þekktu almennilega ástæður þessa mið-20. aldar hlýindaskeiðs og fengið þannig betri skilning á núverandi hlýskeiði, t.d. hvað af því sé náttúrulegt.
Var hlýrri sjór hér við land t.d. afleiðing þessarar breyttrar hegðunar á vestanvindabeltinu eða var það öfugt?
Emil Hannes Valgeirsson, 20.2.2012 kl. 12:50
Sæll Trausti.
Ég tek undir með Emil að fróðlegt væri að vita skýringar á þessu hlýindaskeiði.
Á GISS hitaferli fyrir Bandaríkin mátti sjá sams konar mið-20. aldar hlýskeið, eins og á hitaferli sem sjá má hér: http://www.giss.nasa.gov/research/briefs/hansen_07/
Þarna eru hlýindin um miðja öldina meiri en í lok aldarinnar.
Það er þó merkilegt að þessi hlýindi hafa minnkað verulega hér (mynd neðarlega á síðunni, Annual Mean Temperature Change in the United States): http://data.giss.nasa.gov/gistemp/graphs_v3/
Hér hefur hitinn um miðja öldina lækkað, en hækkað í lok aldarinnar.
Hvernig skyldi standa á þessari leiðréttingu?
Blikkmyndin hér fyrir neðan ætti að sýna þennan mun, þ.e. ef vel tekst til. Það er nefnilega ekki alltaf sem tekst að láta svona blikk-gif myndir virka hér á blogginu.
Þetta er sem sagt hitaferillinn fyrir Bandaríkin eins og hann var til ársins 1999, en einhvern tíman eftir það hafa farið fram töluverðar breytingar á ferlinum, þannig að hlýindin um miðja síðustu öld eru ekki lengur meiri en varð síðar á öldinni. Þetta verður til þess að samsetti ferillinn sveiflast eins og sippuband.
Fróðlegt væri að fá skýringar á þessum miklu breytingum sem gerðar hafa verið.
Með góðri kveðju,
Ágúst H Bjarnason, 20.2.2012 kl. 14:46
Ágúst: Hér má fá upplýsingar um sögu GISTEMP, sjá History. Allar breytingar á útreikningum GISTEMP má lesa um í greinum sem vísað er í á síðunni og vel rökstutt (skoðaðu tenglana sem vísað er í).
Í stað þess að eltast við einhverjar misgáfulegar samsæriskenningar sem Steve Goddard* hefur búið til, þá ættirðu að líta á þær heimildir sem þú vísar í dags daglega og hugsa í smá stund. Finnst þér í alvöru í lagi að eltast við tilbúning þeirra manna sem hafa verið uppvísir að því að styrkja verkefni og menn sem hafa það nánast eingöngu að markmiði að snúa út úr gögnum heiðarlegra vísindamanna.
*Ofangreind mynd er frá árinu 2010 og birtist þá á heimasíðu Goddards - en Goddard er einn af þeim sem hefur verið pistlahöfundur á WattsUpWithThat. Lesa má um það hvernig sú síða hefur flækst inn í nýlegt hneykslismál hér:
Afneitunargeitin [Denial-gate] og Afneitunargeitin jarmar lágtHöskuldur Búi Jónsson, 20.2.2012 kl. 15:46
Sæll Höskuldur.
Þetta eru bara sárasaklausar spurningar sem ég beindi til Trausta. Ekkert annað. Engar samsæriskenningar eða þvíumlíkt.
Það getur vel verið að þessi Steve Goddard sem þú nefnir sé stórvarasamur, óalandi og óferjandi, en það kemur bara málinu alls ekkert við.
Ég vísaði á tvær vefsíður hjá giss.nasa.gov hér að ofan þar sem þessar tvær myndir er að finna. Blikkmyndin er einfaldlega gerð úr þeim myndum.
Trausti er manna fróðastur um þessi mál, og einstakelga duglegur að fræða okkur amatörana, og því beindi ég spurningunni til hans.
Ágúst H Bjarnason, 20.2.2012 kl. 16:50
Ágúst, þetta eru óttalega þreytandi og óáhugaverðar samsæriskenningar úr smiðju Steve Goddard (enda má finna báðar myndirnar á síðum NASA ásamt útskýringum á þeim - ekkert flókið). Vinsamlega skoðaðu tengla Höska varðandi svör. Það eru ekki nein samsæri í gangi hjá NASA-GISS - svo ég vitni í Höskuld:
Sveinn Atli Gunnarsson, 20.2.2012 kl. 18:36
Sveinn. Kannski Trausti geti frætt okkur um málið og útskýrt þetta misræmi. Svo var það auðvitað spurning Emils sem ég tók undir.
-
Ég kannast ekki við Steve Goddard, en minnist þess að þegar ég var unglingur var Robert H Goddard ein af mínum hetjum. Kannski Steve Goddard sé ættingi hans? Hver veit...
Nú vill svo til að nasa.giss.gov er NASA Goddard Institute for Space Studies. http://www.giss.nasa.gov/
Þessi stofnun heitir einmitt eftir hetju minni Robert H Goddard, en hann var einn af frumkvöðlum geimrannsókna. Hann smíðaði nefnilega fyrstu eldflaugina sem knúin var með fljótandi eldsneyti. Það var árið 1926.
Varðandi Steve Goddard, er þetta kannski hann? http://cse.unl.edu/chair/
"Climate change" er meðal "research interest" Steve skv. vefsíðu háskólans.
Ágúst H Bjarnason, 20.2.2012 kl. 22:09
Ættartala Goddards skiptir ekki minnsta máli Ágúst. En allir fastir lesendur WUWT (sem þú ert einn af) ættu að kannast við Steven Goddard... Meira að segja þú ættir að kannast við kauða...hvað sem líður einu n'i til eða frá, enda vísarðu í mynd af heimasíðu hans eins og Höskuldur bendir réttilega á. sjá http://stevengoddard.files.wordpress.com/2010/10/1998changesannotated.gif?w=500&h=355 - eða svona http://stevengoddard.wordpress.com/
Hér má finna 2 greinar m.a. með tilvísunum í vísindalegar heimildir til að svara einhverju bullinu frá honum, http://www.skepticalscience.com/Part-Three-Response-to-Goddard.html og http://tamino.wordpress.com/2012/01/30/usa48/
Mér þykir vangaveltur Emils áhugaverðar, en mér þykja samsæriskenningar Steven Goddards óáhugavert bull...m.a. þ.a.l. leyfum við Höskuldur okkur að benda þér og lesendum á það...hvað sem öðru líður. Það er búið að marg svara óáhugaverðum vangaveltum og persónulegum skoðunum Goddards (sjá t.d. tengla hér að ofan), sem ekkert hafa með vísindalega nálgun að gera. Ef þú vilt afneita honum Ágúst þá er það hið besta mál...gætir jafnvel sleppt því að vísa í misvitrar myndir sem hann hefur sett saman til að ýja að samsæriskenningum...en það yrði þá einum minna af "efasemdamönnum" fyrir þig að vísa í...sem yrði einkar ánægjulegt...
Sveinn Atli Gunnarsson, 21.2.2012 kl. 00:31
Hér eru tenglarnir í greinar sem svara Goddard virkir:
http://www.skepticalscience.com/Part-Three-Response-to-Goddard.html
http://tamino.wordpress.com/2012/01/30/usa48/
Sveinn Atli Gunnarsson, 21.2.2012 kl. 00:34
Emil. Ástæður veðursveiflna frá ári til árs og frá áratug til áratugar eru ekki vel þekktar. Hér á landi ráða staðbundnar, tilviljanakenndar sveiflur í vestanvindabeltinu miklu um veðurlag einstakra ára. Sé litið til lengri tíma þarf hins vegar að grípa til annarra skýringa en þær liggja ekki beinlínis á lausu. Hlýindi í Atlantshafi, sunnan 50°N, fylgdu hlýindakeiðinu mikla hér á landi. Það gæti bent til þess að orsaka geti verið að leita í sveiflum í afli staðvindanna. En ég fjalla vonandi betur um þessi mál síðar ef tækifæri gefst til. Varðandi allsherjarhitagagnaraðir: Ég mæddist á þeim fyrir löngu - vona þó að aðalatrið þeirra séu rétt. Upphaf minnar mæðu fólst í því að fyrir um það bil 20 til 25 árum datt mönnum í hug að fara að leiðrétta norðurhvelshitaröðina með því að reikna el nino/la nina út og inn úr röðinni. Fljótlega varð úr þessu einn alsherjarhrærigrautur (sem menn gáfust vonandi upp á). Annar kafli minnar hitaraðamæðu var þegar ég komst að því (fyrir meira en 20 árum) að meðalhiti er reiknaður á fjölmargan hátt um heim allan (allt í fína með það). Ég þreyttist mjög á því að þurfa sífellt að vera að benda á allan þann (mögulega og því miður raunverulega) hrærigraut og vandræði sem geta af því stafað að samskeyttar raðir mælinga (eins „staðar“) sem í grunninn eru reiknaðar á margvíslegan hátt séu síðan keyrðar í gegnum sjálfvirk „leiðréttingarforrit“. Ég var reyndar að vona að þessu rugli væri lokið - en það verður víst aldrei. Þriðja mæða mín stafaði síðan af ofgreiningu gagna - búnar voru til raðir (jafnvel hitaraðir) sem samanstóðu af „hornréttum reynsluföllum“ (EOF eða PCA greining) sem síðan ganga ljósum logum valdandi endalausum ruglingi og vitleysu (oftast þó ekki hjá þeim sem reiknuðu - heldur öðrum). Fjórða mæðan ... (hættu nú herra hér mun koma af verra sem þér er betra að þegja um en segja um).
Trausti Jónsson, 21.2.2012 kl. 01:29
Varðhundarnir mættir
Gunnar Th. Gunnarsson, 21.2.2012 kl. 01:45
Enn á ég erfitt með að skilja hvers vegna Steve Goddard var dreginn til sögunnar þegar verið var að fjalla um tvo hitaferla á vef Goddard Institute for Space Studies Svona geta tilviljanir verið skemmtilegar.
Geitin hefur jarmað hátt:
Svo voru einhverjar geitur dregnar í réttina í athugasemd #3. Það á ég enn erfiðara með að skilja. Varðandi þetta dularfulla geitamál, þá hefur það nú verið upplýst. Mjög þekktur hnatthlýnunarsinni hefur í bréfi viðurkennt að hafa stolið umræddum gögnum frá Hearthland Institute, og segir það hafa verið dómgreindarleysi. Þetta er enginn annar en Dr. Peter Glieck. Lesa má bréf hans hér á bloggsíðu hans. Svo má lesa miklu meira hér á vefsíðunni What Is Up With That.
Svo bregðast krosstré sem önnur tré. Líka Peter Glieck. Svona hegðun hefur þó valdið málstað kolefniskirkjunnar ómældu tjóni. Tjóni sem verður seint bætt. Þetta er sorgardagur fyrir marga.
Hann kann þó að biðjast afsökunar " ... Nevertheless I deeply regret my own actions in this case. I offer my personal apologies to all those affected" skrifar hann í lok bréfsins.
Ævintýrið um geiturnar þrjár og tröllið undir brúnni má lesa hér.
--- --- ---
Svo má ég til með að þakka Trausta okkar fyrir gott svar við spurningu Emils um hlýindin á Íslandi um miðja síðustu öld, og spurningu minni um hitaferlana amerísku og hrærigrautinn mikla. Þetta er svar sem mér líkar vel
Jæja, ég þakka fyrir mig. Best að drífa sig að borða hrærigrautinn og fara til vinnu...
Með góðri kveðju til ykkar allra.
Ágúst H Bjarnason, 21.2.2012 kl. 07:43
Ég þakka fyrir mig þótt ég sé litlu nær en sjálfsagt er erfitt að vera mikið nær um það sem lítið er vitað um. Ef langtímasveflur verða vegna sveiflna í afli staðvindanna þá vaknar t.d. upp sú spurning hvað kemur þeim sveiflum af stað. Mér finnst allavega forvitnilegt að bera saman núverandi og síðasta hlýindaskeið og hversu mikið þau eru sama eðlis. En þá er auðvitað mikilvægt að hafa gögnin nokkurnvegin rétt og án mjög mikillar hókus-pókus meðhöndlunar. Ég fylgist hinsvegar lítið með geitamálum, hvorki þessu né hinum fyrri en rámar aðeins í hið eina sanna.
Emil Hannes Valgeirsson, 21.2.2012 kl. 08:46
Emil. Það bítur hvert í annars hala í orsakakeðjum - á miðöldum enduðu þær flestar hjá Guði. En sagt er að meginástæða sveiflna í hitabeltinu sé sú að viðbragðstími hafs (og landa) gangi staðbundið ekki upp í árstíðasveiflunni (sem knúin er af sólinni). Það þýðir að orkubókhald lofthjúpsins er aldrei gert upp á núlli á fardögum (eða við áramót). Sá litli gróði eða tap sem nýtt bókhaldsár hefst með nægir til þess að kerfið er aldrei í nákvæmlega sömu stöðu þegar ný umferð hefst og var ári fyrr. Þótt hér muni sáralitlum hluta heildarveltunnar nægir það samt til þess að bylgjumynstrið verður annað í annarri umferð heldur en þeirri fyrstu. Þetta nýja bylgjumynstur bregst síðan aldrei eins við sólarhæðaráreitinu vegna þess að það er ekki alveg eins. Staðvindakerfið er því ekki eins frá ári til árs - „föstu“ bylgjurnar í vestanvindakerfinu ekki heldur. Bylgjur sem liggja „ofan á“ eða „inni í“ þessum kerfum búa því við önnur skilyrði heldur en árið á undan. Gallinn er sá að mælingar/líkanhermun á orkubúskapnum eru ekki nægilega nákvæmar til þess að við vitum á hvaða reikningum þessar litlu innistæður eða skuldir liggja hverju sinni og þar af leiðandi ekki hvar eða hvernig þær innistæða kemur til með að breyta bylgjumynstri ársins sem fer í hönd. Hittist þannig á að breytingarnar séu þannig að þær hniki við stöðu staðbundinna innstæðna/skulda geta þær ýtt undir það að áratugabreytingar geti átt sér stað.
Trausti Jónsson, 21.2.2012 kl. 11:29
Ágúst þú vísaðir í mynd af heimasíðu Steven Goddard (tengingin er beint þangað)...þú varst kannski ekki meðvitaður um það, en hvað um það, myndin er tekin beint af heimasíðu Goddards (það er öruggt mál)... Þannig að þú ættir að vita hvaðan heimildin er, það er venjan þegar fólk vísar í myndir og gröf að vita hvaðan gögnin koma!
Merkilegt reyndar að afneitunargeitin virðist ætla að gera mikið mál úr því að gögn sem koma frá Heartland afneitunarstofnuninni hafi komið fram í ljósið. Bara gott að fá fram á yfirborðið hvernig "afneitunargeitin" vinnur - ekki að manni hafi ekki grunað hvernig lægi í þessu. Hvot það var Gleick eða einhver annar sem fékk þau send frá Heartland skiptir ekki höfuð máli og mun væntanlega skaða málstað afneitunarinnar í Heartland mest. Ég man eftir að viðbrögð, m.a. Heartland og WUWT hafi verið önnur við þjófnaði þeim og útúrsnúningum sem komu fram í hinu svokallaða climategate-máli - stórmerkilegur tvískinnungur í gangi þar...ekki var sparað á stóryrðin varðandi svindl og fals vísindamanna út frá þeim gögnum, þó ekkert væri til í þeim rógburði...eins og dæmin sýna ljóst.
PS. Ágúst, eitthvað af tenglunum þínum enda ekki á réttum stað, þú mátt laga það, takk fyrir.
Sveinn Atli Gunnarsson, 21.2.2012 kl. 14:24
Hið rétta andlit Ágústar birtist hér að ofan... orð eins og "hnatthlýnunarsinni" og málstaður "kolefniskirkjunnar" tala sínu máli.
Ágústi er greinilega ekki annt um að stuðla að framgangi loftslagsvísinda heldur virðist málflutningur hans miðast hreint og beint að því að draga úr trúverðugleika loftslagsvísindamanna og þeirra gagna sem þeir birta - þá væntanlega af því að þeir eru talsmenn"kolefniskirkjunnar" en ekki réttmætir vísindamenn. Slíkt bull gerir Ágúst ómerkan í umræðunni um loftslagsvísindi að mínu mati.
Það sést einnig í því hvernig hann nálgast þetta mál sem ég vísaði í. Í stað þess að skoða hvað þessi skjöl sýna óneitanlega - meðal annars að Anthony Watts þiggi miklar fjárupphæðir til vefsíðugerðar* - þá vísar Ágúst í umfjöllun Watts um það hver það var sem komst yfir skjölin (skiptir það máli?). Í hans augum er rétt að skjóta sendiboðan í staðinn fyrir að takast á við skilaboðin.
*Watts hefur í nokkur ár haldið því fram að illa staðsettar veðurstöðvar valdi falskri hlýnun gögnum þeirra sem taka saman hitastig hnattrænt - þótt búið sé að sýna fram á að slíkt standist ekki skoðun, þá sér Heartland greinilega hag sinn í því að dæla peningum í slíkt verkefni.
Höskuldur Búi Jónsson, 22.2.2012 kl. 13:01
Sæll Trausti
Ég beindi einfaldri spurningu til þín í athugasemd #2, spurningu sem ég hélt að væri sárasaklaus og svarið gæti verið fróðlegt. Eins og þín var von og vísa, þá svaraðir þú spurningu minni vel.
Þú hefur væntanlega tekið eftir að aðeins klukkustund eftir að ég varpaði fram spurningunni til þín fæ ég ávítur frá Höskuldi Búa Jónssyni í athugasemd #3.
Ég svaraði þessu kurteislega í athugasemd #4.
Nokkru síðar fæ ég ávítur frá Sveini Atla Gunnarssyni í athugasemd #5.
Síðan fæ ég enn fleiri skammir og ókvæðisorð frá félögunum í nokkrum athugasemdum til viðbótar...
Ég er reyndar orðinn vanur svona hegðun hjá þessum félögum og kippi mér ekki upp við þær, enda með þykkan skráp. Þetta getur þó orðið ansi leiðigjarnt, ekki bara fyrir mig heldur einnig aðra sem lesa m.a. þína góðu pistla. Eiginlega finnst mér það lítil kurteisi að vaða fram með hávaða og látum þegar ég er að ávarpa þig Trausti með spurningu sem ég taldi áhugaverða. Fyrst og fremst ókurteisi gagnvart þér. Þetta er þó ekki bara á þínu bloggsvæði sem ég verð fyrir nánast einelti að hálfu félaganna, heldur flestum öðrum bloggsvæðum þar sé leyfi mér að minnast á veðurfar. Að sjálfsögðu þó langmest á mínu eigin bloggsvæði. Fyrst og fremst finnst mér þetta leiðinlegt vegna Höskuldar og Sveins, því Internetið gleymir aldrei og svona framkoma getur hæglega orðið til trafala síðar á lífsleiðinni. Google frændi er fjári glúrinn að grafa upp bernskubrek.
-
Sjálfur hef ég bloggsvæðið mitt þannig stillt að ég þarf að samþykkja athugasemdir áður en þær birtast. Það hefur gefist mjög vel og get ég mælt með því.
Sjá pistilinn Ritstjórnarstefna bloggsins.
Það er þó ekki nóg, og hef ég neyðst til að banna ákveðnum einstaklingum að skrifa athugasemdir. Reyndar var aðeins einn á þeim lista þar til í dag og það vegna mikillar ókurteisi gagnvart þriðja aðila, en nú hef ég ákveðið að bæta tveim til viðbótar á bannlistann, vegna yfirgangs og frekju sem ég er orðinn hundleiður á. Ég nefni engin nöfn.
-
Fyrirgefðu rausið í mér Trausti, og þakka þér enn og aftur fyrir einstaklega góða og fræðandi pistla.
Með góðri kveðju,
Ágúst
Post Scriptum:
Vel getur verið að ákveðnir aðilar finni sig knúna til að svara þessari athugasemd minni; það er mér að meinalausu og mun ég ekki hafa fleiri orð um málið hér.
Ágúst H Bjarnason, 24.2.2012 kl. 17:42
Ég tek undir með Ágústi. Ofangreindir félagar virðast vakta allar færslur um veðurfar og gera athugasemdir með hroka og stærilæti ef viðkomandi greinarhöfundur tekur ekki undir skoðanir þeirra og áhyggjur varðandi loftslagsmál. Spaugilegt stundum, en hvimleiður andskoti til lengdar.
Gunnar Th. Gunnarsson, 24.2.2012 kl. 18:45
Takk fyrir "elskuleg" orð í okkar garð Ágúst (sé að þau hafa glatt Gunnar líka). Ég sé að þú hefur ákveðið að svara ekki efnislega ábendingum okkar varðandi heimild þína. Það geta þó ekki talist ávítur að nefna heimildina þína og benda þér á hvaðan hún kemur er það? En jæja, þeir sem telja vísindi varðandi loftslag og veðurfar vera einhverskonar "kolefniskirkju" og þá sem stunda þær rannsóknir "hnatthlýnunarsinna" (eins og þú virðist telja Ágúst) verða sjálfsagt að ritskoða síðu sína fyrir svoleiðis "þvættingi"...og helst breiða út aðdróttanir um þá sem aðhyllast heilbrigðar efasemdir og vísindalegar aðferðir. En hvað sem líður persónulegum skoðunum Ágústar á okkur félögunum, þá má sjá t.d. eitthvað um loftslagsfræðin á loftslag.is, fyrir þá sem eru forvitnir:
Sagan
- Áhrif CO2 uppgötvað
Orsakir fyrri loftslagsbreytinga
- Áhrifaþættir hinnar hnattrænu hlýnunar
Grunnatriði kenningarinnar
- Mælingar staðfesta kenninguna
Loftslag framtíðar
PS. Fróðlegt að Ágúst hafi nefnt að Internetið gleymi aldrei, það verður væntanlega fróðlegt fyrir fornleifafræðinga framtíðarinnar (sem verður eitthvað hlýrri en í dag) að lesa sig í gegnum umræður dagsins í dag...og spyrja sig hvers vegna til hafi verið fólk sem taldi vísindi vera "kolefniskirkju"...jamm það væri fróðlegt að sjá þeirra skýrslur um málið...
Sveinn Atli Gunnarsson, 25.2.2012 kl. 00:10
Ágúst. Þótt mér finnist karpið í athugasemdunum ekki sérlega skemmtilegt stendur ekki til í bili að taka upp aukna ritskoðun - þótt væg yrði. Hins vegar hefur minna verið um loftslagspistla á hungurdiskum heldur en efni standa til - ástæðan er fyrst og fremst þreyta á því eilífa þrasi sem alltaf birtist þegar imprað er á málinu. Stórfelldar breytingar á geislunarbúskap lofthjúpsins af mannavöldum eru staðreynd sem lítið stoðar að þrasa um - þær eru raunverulegar. Hvort eða hvernig þessar breytingar valda hækkuðum hita, breytingum á úrkomumagni eða -mynstri, hafstraumabreytingum o.s.frv., o.s.frv. er hins vegar mun meira álitamál. Ég hef á því ákveðnar skoðanir en þær verða ekki útlistaðar í stuttu máli og því síður með einhverri póítískri aðgerðastefnuskrá. Ég get bara beðið athugasemdahöfunda um að gæta hófs.
Trausti Jónsson, 25.2.2012 kl. 00:40
Trausti, takk fyrir að impra á þessu:
Þetta er í raun það sem við erum að ræða um á loftslag.is og einnig allar þær hugsanlegu (jafnt líklegar sem ólíklegar) breytingar sem geta orðið við þessar miklu og raunverulegu breytingar af manna völdum (sjá t.d. Afleiðingar af loftslag.is - sem við einhverra hluta vegna höfum komist ótrúlega stutt áleiðis með). En það er svo sem ekkert er fast í hendi varðandi hvernig þær breytingar geta orðið í framtíðinni, en hitt er ljóst að áhrifin eru til staðar og halda áfram til framtíðar (svo lengi sem við gerum ekkert í málinu - hvort sem það er í formi pólitískrar aðgerðastefnuskráar eða t.d. þess að ræða hlutina á opinskáan hátt eða eitthvað annað).
Það er hins vegar svo að til eru margir "efsemdamenn" sem telja að þessar breytingar séu ekki raunverulegar og grípa til alls kyns "röksemda" og útúrsnúninga sem ekki standast skoðun og það finnst mér t.d. einkar athyglisvert (jafnvel fróðlegt á köflum). Við (á loftslag.is) höfum m.a. skrifað um ýmsar af þeim fullyrðingum sem fram koma í umræðunni reglulega (sjá m.a. Mýturnar) þar sem reynt er að útskýra hvað fræðin segja varðandi ýmsar þær fullyrðingar sem heyrast í umræðunni reglulega.
T.d. má finna umfjöllun varðandi umræður um hnattkólnun sem oft er haldið á lofti (sjá t.d. hér - athugasemdirnar eru athyglisverðar líka), þá má finna passandi mýtur á loftslag.is, t.d. tvær mýtur sem nefnast Það er að kólna en ekki hlýna. og svo mýtan Lítil ísöld eða kuldaskeið er á næsta leiti - þar sem reynt er að svara spurningum varðandi meinta kólnun og meint komandi kuldaskeið með tilvísunum í fræðin. Við vitum sem er að vísindi verða seint eða aldrei full sönnuð og að framtíðar sviðsmyndir geta orðið á marga vegu. Við teljum einfaldlega að breytingar loftslags af manna völdum sé of stórt mál til að ræða ekki um þær og þá finnst okkur best að taka þann pólinn í hæðina að umræður með tilvísun í vísindalega nálgun sé besta aðferðin.
Ég hvet fræðimenn til að segja skoðun sína, hvort sem það er í formi aðgerðastefnuskáar eða bara með því að taka þátt í umræðunni á opinskáan hátt, hvað sem umræðuþrasi annarra líður. Bloggið virðist vera ágætis vettvangur fyrir fræðimenn og finnst mér að síður eins og Hungurdiskarnir þínir og t.d. bloggsíða Einars Sveinbjörnssonar mjög góðir vettvangar til þess að útskýra ýmislegt varðandi ykkar sérsvið og áhugamál - takk fyrir það.
Takk fyrir fróðlega pistla og vangaveltur Traust og vonandi verður enn meira skrifað um loftslagsmálefnið á komandi tímum hér á hungurdiskunum.
Sveinn Atli Gunnarsson, 25.2.2012 kl. 01:31
Markmið þitt Sveinn, virðist að fæla alla frá athugasemdum á þessari ágætu síðu, sem og öðrum þar sem fagmenn á sviði veðurfræði deila fróðleik sínum. Leiðindi drýpur af hverju orði sem frá þér kemur og verður því síðan öll útbýjuð og óaðlaðandi.
"Hvort eða hvernig þessar breytingar valda hækkuðum hita, breytingum á úrkomumagni eða -mynstri, hafstraumabreytingum o.s.frv., o.s.frv. er hins vegar mun meira álitamál."
Þessi orð Trausta (sem þú kýst að sleppa að vitna til, en velur annað... cherry picking?) er í raun kjarninn í málinu en gerir ykkur félagana hamslausa á blogginu ef einhver dirfist að hafa orð á því. Ég er því eiginlega steinhissa að þú skulir ekki ráðast á Trausta og kalla hann "afneitunarsinna", eða eitthvað þaðan af verra fyrir svona ógætilegt tal.
Gunnar Th. Gunnarsson, 25.2.2012 kl. 03:49
Takk fyrir "fallegu" orðin Gunnar, þú ert samur við þig. En ég tel reyndar að Trausti hafi eitthvað til síns máls með þessum orðum sem þú vísar til og þótti það í sjálfu sér ekki til þess fallið að vísa beint til. En, ef þú myndir lesa mína athugasemd, þá myndirðu sjá að ég tek undir þessi orð Trausta! Sjá t.d. þennan hluta svars míns:
Sem er í samræmi við það sem Trausti nefnir.
Sveinn Atli Gunnarsson, 25.2.2012 kl. 08:12
Þú ert í hlægilegri mótsögn við sjálfan þig, Svatli. Tilvitnun mín í Trausta (skoðaðu hana vel) er einmitt EKKI í samræmi við fullyrðingar ykkar félaga.
Trausti nálgast fræðin eins og sannur vísindamaður, af hógværð og varfærni. Þið mættuð taka hann til fyrirmyndar.
Gunnar Th. Gunnarsson, 25.2.2012 kl. 16:39
Gunnar, þú mátt hafa þína persónulegu skoðun á því hvað ég meina eða Trausti, ekki málið og jafnvel á minni persónu líka ef þér þykir það gaman... Segðu mér annars hver er hógværð þín í að kalla okkur "varðhunda" og mig hlægilegan? Spyr sá sem ekki veit...
Reyndar vísum við félagarnar nú bara í það sem vísindamenn almennt hafa um þessi fræði að segja og ræðum málin út frá því ásamt því að benda á aðferðafræði og á stundum einhverjar villur þeirra sem ekki virðast aðhyllast þau fræði. Ef sú aðferðafræði okkar fer í taugarnar á þér, þá er það bara þitt mál og þú um það - ekki málið. Það að geta skoðað rannsóknir gerðar með vísindalegum aðferðum er dygð sem gott er að hafa í farteskinu...mundu það Gunnar.
Sveinn Atli Gunnarsson, 25.2.2012 kl. 19:10
Afsakið hvað ég svara seint (var netlaus) - en þar sem verið er að gagnrýna mín orð og Ágúst búinn að hóta ritskoðun þá er ekki úr vegi að svara smá.
Við ritstjórar á loftslag.is (ég og Sveinn Atli) höfum bent Ágústi á að umfjallanir og spurningar hans um loftslagsmál virðast oft settar upp þannig að gefið er í skyn að meirihluti loftslagsvísindamanna hafi rangt fyrir sér (þ.e. þeir 97% sem telja að það sé að hlýna af mannavöldum og að áframhaldandi hlýnun verði að öllum líkindum slæm) og að hinir örfáu "efasemdamenn" (sem eru oftast nær styrktir af vafasömum öflum bak við tjöldin í USA) hafi rétt fyrir sér. Málaflutningur hans byggist sem sagt upp á að sýna fram á eftirfarandi:
Ágúst flakkar nokkuð á milli þessara punkta.
Að orðaskiptum hér: Hér ofar sýnir Ágúst mynd sem á að sýna fram á að það sé engin hlýnun (þvert á við það sem fjölmargar rannsóknir og hitaraðir sýna). Þessi mynd var búin til fyrir 2-3 árum og birt víða á erlendum heimasíðum "efasemdamanna" um hnattræna hlýnun (og við vísum í hvar Ágúst fékk myndina). Í raun er gefið í skyn með því að birta þessa mynd að hlýnunin sé til komin vegna þess að einhverjir karlar hjá NASA eru að breyta viðmiðum- verið sé að falsa gögn, en það er ekki ný nálgun hjá Ágústi.
Ég bendi honum á heimildir og frekari upplýsingar um þessa hitaröð og Sveinn Atli heldur áfram umræðunni. Ágúst fyrtist við og kemur með upphrópanir um hnatthlýnunarsinna og kolefniskirkju sem ég síðan gagnrýni (harkalega?)... fyrir vikið erum við Sveinn Atli komnir í svörtu bókina hans og hann lokar á okkur í athugasemdakerfi sínu.
Sem sagt, við sem höfum hvað mest haft efasemdir á nálgun hans erum núna ritskoðaðir af honum á heimasíðu hans. Það vakna ýmsar spurningar.
Ætli það sé almenn sátt um þessa ritskoðun? Vill fólk lesa blogg hans ómengað af vísindalegum rökum? Af hverju ættu athugasemdir þar sem vísað er í vísindalegar heimildir ekki að vera ásættanlegar? Af hverju vill Ágúst ekki að andstæð sjónarmið komi fram þegar hann fjallar um loftslagsmál? Er hann rökþrota?
Höskuldur Búi Jónsson, 27.2.2012 kl. 14:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.