Heldur óráðið framhald?

Kuldakastið er rétt byrjað þegar það er búið. Þykktin (eilífur mælikvarði hungurdiska) rétt slefaði að fara niður fyrir 5100 metra - helsta viðmið alvöruveturs. Jú, kannski niður í 5040 m norðaustanlands. En á 500 hPa hæðar- og þykktarspákorti sem gildir kl. 18 laugardaginn 18. febrúar sést vel að hlýtt loft sækir að úr vestri. Kortið er frá evrópureiknimiðstöðinni (ecmwf).

w-blogg180212

Heildregnar gráar línur sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar) en rauðar strikalínur þykktina. Þykktin er fjarlægðin á milli 500 hPa-flatarins (sem kortið sýnir) og 1000 hPa bróður hans (nærri sjávarmáli). Því meiri sem þykktin er því hlýrra er í neðri hluta veðrahvolfs. Því þéttari sem jafnhæðarlínurnar (þær gráu) eru því meiri er vindurinn. Á kortinu eru einnig bleik svæði sem sýna hvar iða í fletinum er mest. Við skulum ekki hafa áhyggjur af henni en þeir sem sjá vel ættu að greina að hún virðist mest í kröppum lægðarbeygjum.

Rauðum og bláum örvum hefur verið komið fyrir á kortinu til að óvanir sjái betur hvernig vindurinn liggur undir horni á þykktarlínurnar. Örvarnar liggja allar í sömu stefnu og jafnhæðarlínur á sama svæði. Vindurinn ýtir jafnþykktarlínunum fram á við í stefnu sína. Örvarnar eru rauðar þar sem þær bera hærri þykkt fram á við, en þær bláu eru dæmi um kalt loft í framsókn.

Hornið á milli örvanna og jafnþykktarlínanna er mjög misgleitt. Gleiðast er það suður af Grænlandi þar sem þykktarlínurnar eru nær hornréttar á hæðarlínurnar. Hornið verður minna og minna eftir því sem nær dregur Íslandi - en þar er samt hlýtt aðstreymi.

Kortið segir okkur frá því að hlýtt aðstreymi ríki yfir Íslandi síðdegis á laugardag. Bylgjan suður af Grænlandi er heldur stutt og aumingjaleg og hún hefur þar að auki öflugri bylgju í bakið. Hún hraðar sér því til norðausturs en grynnist - nái 5280 metra jafnþykktarlínan norður á Ísland hlánar væntanlega - heldur óráðnara er með þykkt á milli 5200 og 5280 metra.

Reiknimiðstöðin segir að 5340 metra línan eigi að snerta suðurströnd Íslands á sunnudagskvöld - ætli það þýði ekki hláku og þar með fer hiti aftur upp fyrir meðaltal þar sem hann hefur verið mestallan mánuðinn.

Eftir sunnudaginn eiga smábylgjur að koma hver af annarri til landsins - hver með sína lægð. Hvort þær fara sunnan- eða norðanvið land er ekki vitað. En þótt kuldapollurinn við Norðvesturgrænland sé ekki sérlega ógnandi í þessari stöðu verður samt að gefa honum gaum. Í kringum hann ganga líka hraðfara stuttbylgjur - sem vonandi láta okkur í friði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 210
  • Sl. sólarhring: 326
  • Sl. viku: 2035
  • Frá upphafi: 2350771

Annað

  • Innlit í dag: 193
  • Innlit sl. viku: 1821
  • Gestir í dag: 188
  • IP-tölur í dag: 188

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband