Fyrirstöðulítið

Bylgjur vestanvindabeltisins ganga nú fyrirstöðulítið yfir Atlantshaf - misstórar að vísu og misþroskaðar en lítið lát virðist á. Við lítum á norðurhvelsspákort frá evrópureiknimiðstöðinni og gildir það um hádegi þriðjudaginn 24. janúar.

w-blogg240112a

Rétt er að fara með skýringaþuluna að vanda. Kortið sýnir megnið af norðurhveli jarðar norðan við 30. breiddargráðu, norðurskaut nærri miðju. Höfin eru blá, löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en þynnri rauðar línur eru við 5820 metra og 5100 metra hæð. Almennt má segja að því lægri sem flöturinn er því kaldara er veðrahvolfið. Lægðirnar í fletinum eru kallaðar kuldapollar og hæðirnar eru hlýir hólar - sem gegna yfirleitt nafninu fyrirstöðuhæðir.

Á kortinu eru tvær slíkar, önnur er í námunda við Úralfjöll og sér hún um að hlýindin norður í Barentshafi og austur með Síberíuströnd halda áfram. Hin fyrirstaðan er við Kamtsjaka og beinir lofti úr Norður-Íshafi suður til Alaska. Hún hefur nú - ásamt lægðinni yfir Alaskabugtinni valdið miklum illviðrum á vesturströnd Norður-Ameríku. Eitthvað hafa fréttir af því borist hingað til lands. Um tíma var neyðarástandi lýst yfir í nokkrum sýslum Oregon- og Washingtonfylkja í Bandaríkjunum. Ótrúleg snjókoma hefur verið á Alaskaströndum.

Við Norðurpólinn stendur flöturinn tiltölulega hátt og lítið þar að gerast í bili. Á Norður-Atlantshafi er nokkuð öflug bylgja - reyndar alveg lokuð lægð - að valda leiðindaveðri hérlendis (þriðjudagur). Sjá má næstu bylgjur í röð þar fyrir vestan, samt tekur væntanlega þrjá daga (þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag) að hreinsa þriðjudagslægðina og afkomendur hennar frá Íslandssvæðinu þannig að næsta bylgja komist að. Of snemmt er að ræða um hana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skil ég það rétt að kuldapollurinn yfir Baffinslandi og hafinu vestan Grænlands sé viðurhlutaminni núna en hann var svolítið fyrr í vetur?

Þoprkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 23.1.2012 kl. 06:44

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Já, Baffinskuldapollurinn hefur ekki verið áberandi ógnandi fyrir okkur í vetur - hvað sem síðar verður. Ástandið hefur að ýmsu leyti verið óvenjulegt.

Trausti Jónsson, 24.1.2012 kl. 00:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband