Snjóhula í janúar 1924 til 2011

Fylgst hefur verið með snjóhulu hér á landi samfellt síðan síðustu dagana í janúar 1921. Fyrst var aðeins athugað í Reykjavík en síðan bættust fleiri stöðvar við. Landsmeðaltöl eru til aftur til 1924 - auðvitað er óvissa alltaf talsverð og því meiri eftir því sem athugað er á færri stöðvum. En við látum sem ekkert sé og lítum á línurit sem sýnir snjóhulu allra janúarmánaða síðan 1924. Snjóhula er reiknuð í prósentum. Við alhvíta jörð er snjóhulan talin 100%, en 0% sé jörð alauð.

w-blogg220112

Við tökum fyrst eftir því að snjóhula í byggð hefur aldrei orðið 100% í janúar öll þessi ár. Einhverjir auðir eða flekkóttir dagar hafa komið í hverjum mánuði. Þrír mánuðir eru jafnir á toppnum: 1949, 1976 og 1984. Allir þessir janúarmánuðir voru mjög erfiðir. Ekki er alveg víst að þeir hafi þó verið snjóþyngstir sé miðað við snjóhulu og snjódýpt. Gott samband er þó á milli séu stöðvar margar. Það má líka vekja athygli á því að snjóhula getur ekki orðið meiri en 100 prósent, kvarðinn mettast.

Snjóléttast var í janúar 1998, snjóhula í byggð var aðeins 30%, hún var 33% í janúar 1964 og 2002.

Meðalsnjóhula tímabilsins alls er 65%, en meðaltal síðustu 15 ára er aðeins 53%. Bláa línan sýnir eins konar útjafnaða snjóhulu. Áberandi er hversu mjög hún hefur minnkað. Hún virðist hafa verið mun meiri á hlýindaskeiðinu um og fyrir 1940 heldur en á hlýindaskeiði síðustu ára.

Gott samhengi er á milli ársmeðalhita og snjóhulu - en ekki eins gott í einstökum mánuðum. Kemur það ekki síst af áðurnefndri kvarðamettun sem ekki gætir eins mikið í vor- og haustmánuðum eins og um hávetur.

Varla er því að treysta að þessi langtímaleitni haldi áfram - það væri fremur með ólíkindum ef hún gerði það. Við sjáum af línuritinu að mikill áratugamunur er á snjóhulu janúarmánaðar. Tímabilið 1960 til 1973 er t.d. mjög lágt miðað við það sem á undan kom og því sem fylgdi.

En janúar er ekki nema lítill hluti vetrarins, hvað snjóalög varðar er hann varla hálfnaður í lok mánaðarins.

Snjóhula hefur einnig verið metin í fjöllum (500 til 700 metra hæð) frá 1935. Einu sinni náði hún 100 prósentum, það var í janúar 1949, en var minnst í janúar 2010, 67%.

Landinu má skipta í norður- og suðurhluta. Norðurhlutinn nær hér frá Dýrafirði í vestri austur um til Fáskrúðsfjarðar, afgangur landsins telst til suðurhluta þess. Á Suðurlandi er snjóhulan aðeins 49 prósent að meðaltali allt tímabilið, en 76 prósent fyrir norðan.

Snjóhula norðurhlutans hefur fimm sinnum komist í 98 prósent í janúar, 1930, 1939, 1951, 1975 og 1976, en minnst var hún í janúar 1933 og 1947, 39 prósent. Langminnugir ættu að minnast allra þessara sérstöku mánaða.

Snjóhula suðurhluta landsins hefur mest orðið 93 prósent. Það var 1984. Minnst varð hún 10 prósent 1998.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 128
  • Sl. viku: 2476
  • Frá upphafi: 2434586

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 2200
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband